Landsfundur 2024.
Neysluvenjur hafa bein áhrif á umhverfi og lýðheilsu samfélagsins og því skal stuðla að sjálfbærri og ábyrgri neysluhegðun á Íslandi og auka vitund almennings um hana. Íslenskur neytendamarkaður er fákeppnismarkaður þar sem samþjöppun markaðshlutdeildar er meiri en í löndunum í kringum okkur. Því er brýnt að almenningur búi við skýra neytendavernd og eigi þess ávallt kost að geta tekið upplýstar ákvarðanir um neyslu sína. Almenningur á skýlausan rétt til upplýsinga um allar þær vörur og þjónustu sem seldar eru hérlendis.
Almenningur gegnir lykilhlutverki í því að stuðla að réttlátu grænu hagkerfi. Áhersla skal lögð á að skapa sjálfbæran og öflugan umhverfisvænan markað þar sem réttur neytenda er verndaður og velferð almennings, umhverfisvernd og framtíð komandi kynslóða er í hávegum höfð.
Sjálfbær neysla og neytendavernd
- Tryggja verður að neytendur og fyrirtæki eigi þess kost að taka þátt í hringrásarhagkerfinu og hafi tækifæri til að endurnýta, endurvinna og endurnýja vörur sínar frekar en að þurfa að kaupa einnota vörur og farga þeim. Mikilvægt er að koma á hvatakerfi fyrir framleiðendur til að innleiða framleiðsluferla sem byggja á hringrásarhagkerfinu.
- Innleiða á endurgreiðslukerfi fyrir viðgerðir á rafmagnstækjum og öðrum varningi og draga þannig úr sóun.
- Auka þarf vitneskju fólks og fyrirtækja um áhrif matarsóunar og finna áhrifaríkar leiðir til að draga út henni. Hvetja þarf innlenda matvælaframleiðendur til að huga að fullvinnslu afurða með stuðningi við grænar lausnir og nýsköpun í matvælaframleiðslu.
- Vinna þarf markvisst að því að minnka notkun eiturefna við framleiðslu ýmiss konar varnings og stuðla að eiturefnalausu samfélagi.
- Setja þarf heildarlöggjöf um neytendamál sem tryggir vernd neytenda gegn sölu á gallaðri vöru, vörusvikum og öðrum vanefndum á markaði. Lögfesta þarf refsingar með t.d. sektum fyrir villandi og/eða rangar upplýsingar um sjálfbærni eða umhverfisvæna eiginleika vöru. Með lögum skal tryggja að vörur og þjónusta séu merktar réttum upplýsingum um umhverfisáhrif, framleiðsluhætti, dýravelferð, siðferði í viðskiptum og sanngjörn kjör launafólks. Réttar upplýsingar eru grundvöllur þess að almenningur geti sýnt ábyrga neysluhegðun.
- Tryggja þarf skjótfarnar og skilvirkar leiðir fyrir neytendur að leita réttar síns, greiða úr ágreiningi og koma því til leiðar að niðurstaða í deilumálum neytenda og söluaðila sé virt.
- Efla þarf fræðslu um grænþvott. Setja þarf strangar reglur um markaðssetningu á umhverfisvænum vörum. Merkingar og fullyrðingar um jákvæð umhverfisáhrif og sjálfbærni vöru og þjónustu skulu vera skýrar, mælanlegar og sannreynanlegar.
- Starfsemi frjálsra félagasamtaka er mikilvæg varðandi neytendamál. Styðja ætti starfsemi þeirra til að tryggja réttindi almennings. Efla þarf samstarf þeirra, svo sem neytenda- og stéttarfélaga, við stjórnvöld á sviði verðlagseftirlits og neytendaverndar.
- Huga þarf sérstaklega að neytendum með tilliti til félagslegra og efnahagslegra aðstæðna hverju sinni. Berskjaldaðir hópar skulu njóta aukinnar verndar gegn misnotkun auglýsingamarkaðarins og markaðsafla.
- Banna skal allar auglýsingar sem beinast sérstaklega að börnum undir 16 ára aldri sem auglýsa neysluvörur sem fara gegn lýðheilsuviðmiðum fyrir þeirra aldur. Mikilvægt er að tryggja ábyrga sölu áfengis og gæta lýðheilsusjónarmiða við sölu þess. Ekki skal leyfa netsölu áfengis og auka skal eftirlit og refsiaðgerðir gegn ólöglegri sölu áfengis á netinu og í verslunum.
- Viðhalda skal banni við áfengisauglýsingum og styrkja eftirlit með því til þess að vernda viðkvæma hópa, sérstaklega ungt fólk, gegn skaðlegum áhrifum áfengisneyslu.
Réttindi og öryggi á stafrænum markaði
- Persónuvernd neytenda á stafrænum vettvangi skal tryggja rétt þeirra til að stjórna eigin upplýsingum. Algjört bann skal lagt við sölu persónuupplýsinga án samþykkis. Gögn neytenda má ekki nota til að móta kauphegðun, hafa áhrif á ákvarðanir eða skapa markaðsvörur byggðar á persónulegum upplýsingum og samskiptum.
- Setja þarf lög um stafræn réttindi almennings. Tryggja þarf að netið sé almannarými þar sem lýðræðisleg gildi eru virt án þess að stórfyrirtæki stjórni aðgengi að upplýsingum, nýti sér gögn til að móta hegðun fólks og skipi fólki í bergmálshella byggða á hegðun þeirra og neysluvenjum.
- Stofna þarf opinbera gagnagátt þar sem almenningur getur fengið upplýsingar um stafræna viðskiptahætti fyrirtækja, hversu mikið af persónuupplýsingum þau safna og hvernig þau nýta gögnin.
- Auka þarf vitund almennings um hvernig áskriftarhagkerfið ógnar sjálfræði og frelsi neytenda með því að draga úr raunverulegu eignarhaldi, gera neytendur háða stórfyrirtækjum sem stjórna aðgangi að vörum og þjónustu og stjórna verðlagi og breyta skilmálum án samráðs.
- Stafræn þjónusta og rekstur fyrirtækja þarf að vera sjálfbær. Svo það megi verða þarf að lágmarka orkunotkun í gagnaverum, styðja við vistvæna netþjónustu og auðvelda endurvinnslu á stafrænni tækni.