Umhverfis- og loftslagsmál

Framtíð í sátt við náttúruna

Vistkerfi jarðar stendur ógn af markaðshagkerfinu. Gróðasjónarmið hafa ráðið för í umgengni við náttúruna. Markaðshyggjan býður ekki upp á nein svör við þeim vanda sem blasir við. Félagshyggja og sjálfbær þróun er leið til að tryggja framtíð í sátt við náttúruna. Umhverfismál verða að vera miðlæg í samfélaginu þannig að allir geti lagt sitt af mörkum: stjórnvöld, atvinnulíf, frjáls félagasamtök og einstaklingar. Náttúruauðlindir eru sameign þjóðarinnar og allir eiga rétt á heilnæmu umhverfi. 

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra eru stærsta verkefni mannkyns á komandi árum og áratugum. Áhrif þeirra á vistkerfi heimsins geta valdið tjóni í hverju einasta ríki og það er forgangsverkefni að draga úr áhrifum þeirra og undirbúa viðbrögð við þeim.

Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda. Náttúran á að njóta vafans og ákvarðanir sem snúast um inngrip í náttúru Íslands verða að taka mið af heildrænni sýn af vistkerfinu öllu og jarðminjum þannig að gæðum náttúrunnar verði skilað áfram til komandi kynslóða.

Mengun í hafi, lofti og á landi getur haft óafturkræáhrif á vistkerfið. Brýnt er að beita öllum ráðum til að draga úr mengun, draga úr neyslu, endurnýta og endurvinna.

Loftslagsmál – Kolefnishlutlaust Ísland 2050

Ísland þarf að taka mið af niðurstöðum vísindamanna og setja stefnuna á að verða kolefnishlutlaust árið 2050.

 • Draga þarf úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það gerum við með því að hverfa frá olíuvinnslu, skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum og iðnaði – en ekki síst með því að strika öll frekari áform um mengandi orkufrekra stóriðju af borðinu.
 • Ísland á að beita sér fyrir því að jarðefnaeldsneyti verði ekki unnið á Norðurslóðum.
 • Íslandi ber að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, einnig frá stóriðju, og binda kolefni með ýmsum mótvægisaðgerðum gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.
 • Ísland beiti sér fyrir því að losun gróðurhúslofttegunda frá flugi og skipum verið talið með í losunarbókaldi þjóða.
 • Skipuleggja þarf þéttbýli þannig að almenningssamgöngur, hjólreiðar og ganga verði raunhæfir valkostir.
 • Skoða á sporbundnar almenningssamgöngur í almannaeign á suðvesturhorninu.
 • Beita þarf hagrænum hvötum og byggja upp innvíði til að græn samgöngutæki verði hagkvæmasti kosturinn.

Náttúra – Náttúran njóti vafans

Náttúra Íslands og víðerni eru verðmæti sem þarf að vernda.

 • Friða þarf miðhálendið og hálendi Vestfjarða og stofna þar þjóðgarða. Það þýðir að ekki verði lagðar raflínur og uppbyggðir vegir um þau svæði.
 • Stofna ber þjóðgarð við Breiðafjörð og umhverfi hans, þ.m.t. Látrabjarg, Rauðasand o.fl.
 • Tryggja þarf fjármagn til að ráðast í friðlýsingar sem ákvarðaðar eru með rammaáætlun.
 • Í allri náttúruvernd þarf að huga sérstaklega að landslagsheildum og verndun landslags.
 • Ísland beiti sér fyrir því að jarðminjar verði hluti af alþjóðlegum sáttmálum um náttúrulega fjölbreytni.
 • Tryggja þarf áfram aðgengi almennings að náttúrulegu umhverfi og stjórnarskrárbinda rétt almennings til frjálsrar farar um landið. Um leið þarf að tryggja að hægt sé að takmarka aðgengi inn á viðkvæm náttúruverndarsvæði.
 • Meta þarf umhverfisáhrif framkvæmda heildstætt – þannig að verksmiðjur, virkjanir og línulagnir séu metnar með heildstæðum hætti.
 • Efla þarf náttúrufarsrannsóknir þannig að til séu ítarlegri gögn um íslenska náttúru en nú er.
 • Kortleggja þarf náttúrugæði þannig að birgðastaðan sé öllum ljós og tryggja að öll gögn séu opin og aðgengileg.
 • Stórefla þarf heilsárslandvörslu á öllum svæðum sem njóta einhvers konar verndar.
 • Efla þarf samstarf stofnana sem sinna náttúru- og umhverfisvernd og skólakerfisins.
 • Rannsaka þarf betur þolmörk svæða og skilgreina út frá þeim landvörsluþörf á hverjum stað og markvissa stýringu á aðgangi að svæðum.
 • Lokið verði við að kortleggja slóðakerfi landsins þannig að skýrt verði skilgreint hvar megi keyra á Íslandi og skýr viðurlög verði sett við utanvegaakstri.
 • Framfylgja þarf þeim samningum sem Ísland er aðili að um líffræðilega fjölbreytni.
 • Koma þarf í veg fyrir innflutning og dreifingu á framandi ágengum tegundum og vakta útbreiðslu þeirra.
 • Stjórnvöld beiti sér fyrir endurheimt vistkerfa.
 • Til að varðveita líffræðilega fjölbreytni ber að banna erfðabreytta ræktun utandyra.
 • Styrkja þarf löggjöf um vernd og friðun villtra dýra.

Mengun hafs, lofts og lands

 • Stjórnvöld geri aðgerðaáætlun um minni umbúðanotkun og efli endurnýtingu, endurvinnslu og flokkun.
 • Dregið verði markvisst úr plastnotkun.
 • Kortleggja þarf og bæta eftirlit með notkun hættulegra efna á Íslandi.
 • Framfylgja ber Evrópugerðum og alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að varðandi flokkun og merkingar svo og bönn og takmarkarnir á notkun eiturefna og hættulegra efna, þar með talið þungmálma, þrávírk lifræn efni, efni sem valda gróðurhúsaáhrífum, sæfiefni og varnarefni.
 • Stórauka þarf fræðslu til almennings um innihaldsefni í ýmsum algengum vörum og tryggja þannig að gildandi efnalöggjöf sé fylgt.
 • Fylgjast þarf með rannsóknum á kokteiláhrifum (samverkandi áhrif) efnasambanda sem geta valdið krabbameini, hormónaröskunum og dregið úr frjósemi, svo og með rannsóknum á áhrífum af notkun nanóefna.
 • Draga þarf úr og efla viðbrögð við mengun frá allri mengandi starfsemi, t.d. jarðhitavirkjunum, álverum og annar stóriðju.
 • Ljúka þarf nútímavæðingu allra fráveitukerfa, uppbyggingu skólphreinsistöðva og bæta eftirlit með skólpmengun.
 • Vernda þarf myrkrið og vanda mjög vel til lýsingar þannig að ljósmengun verði sem minnst.

Grænt samfélag

 • Tryggja þarf umhverfisákvæði í stjórnarskrá, að náttúruauðlindir séu í þjóðareign og að nýting þeirra sé í sátt við umhverfi og náttúru.
 • Standa þarf vörð um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða („rammaáætlun“ í daglegu tali).
 • Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og undirstofnanir þess þurfa að vera miðlægt í stjórnkerfinu og bera ábyrgð á að sjálfbær þróun sé ráðandi við alla stefnumótun á vegum hins opinbera.
 • Styrkja þarf þær stofnanir sem sinna umhverfismálum þannig að þær geti sinnt margþættu hlutverki sínu.
 • Málefni þjóðgarða og friðlýstra svæða eiga að heyra undir eina stofnun.
 • Hugsa þarf stjórnkerfið þannig að verkefni dreifist um landið út frá faglegum sjónarmiðum.
 • Tryggja þarf þátttöku almennings í öllum ákvörðunum sem varða umhverfismál og rétt almennings til heilnæms umhverfis.
 • Tryggja þarf fjárhagslega stöðu og réttarstöðu frjálsra félagasamtaka á sviði náttúru- og umhverfisverndar.
 • Umhverfisþing þarf að fá sterkari stöðu í löggjöf um umhverfis- og náttúruverndarmál.
 • Byggja þarf á ákvæðum aðalnámskrár um menntun til sjálfbærni og þróa hana áfram á öllum skólastigum. Ísland þarf að eiga náttúruminjasafn eins og lög 35/2007 kveða á um.
 • Við fjárlagagerð og efnahagsstjórn þarf að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Skattar og tollar þurfa að innibera jákvæða hvata fyrir náttúru og umhverfi. Sama má segja um kjarastefnu og önnur efnahagsleg stjórntæki.
 • Til að draga úr umhverfiskostnaði við flutning matvæla og tryggja fæðuöryggi verður Ísland að vera sjálfu sér nægt um þau matvæli sem hægt er að framleiða hér á landi.
 • Sjálfbærni verði lögð til grundvallar við alla skipulagsvinnu á öllum skipulagsstigum þannig að skipulag tryggi umhverfissjónarmið.
 • Draga þarf úr innflutningi á tilbúnum áburði. Stjórnvöld hvetji til sjálfbærni í landbúnaði og lífræns landbúnaðar ekki síst vegna fosfórkreppu og ofauðgunar yfirborðs- og grunnvatns.
 • Ísland á að stækka griðarsvæði hvala í kringum landið.