Umhverfis- og loftslagsmál

Deildu 

Share on facebook
Share on twitter

Baráttan gegn hamfarahlýnun er helsta viðfangsefni stjórnmálanna og samfélagsins alls. Við stöndum á krossgötum og þurfum að taka allar ákvarðanir með loftslagsmálin í huga. Þau eru ekki lengur sérstakur málaflokkur samhliða öðrum, heldur verður að flétta þau inn í alla pólitíska stefnumótun. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur endurmetið stefnu sína þannig að horft sé á öll mál út frá loftslagsmálum.

Tap á líffræðilegri fjölbreytni er skilgreind sem önnur mesta ógnin við lífríki Jarðar. Náttúra Íslands og hafið umhverfis er undirstaða lífs í landinu. Náttúran á að njóta vafans og ákvarðanir sem snúast um inngrip í náttúru Íslands verða að taka mið af heildrænni sýn á vistkerfi og jarðminjar þannig að gæðum náttúrunnar verði skilað áfram til komandi kynslóða. Auka þarf áherslu á verndun líffræðilegrar fjölbreytni hafsins innan efnahagslögsögu landsins og á alþjóðlegum hafsvæðum sem ógnað er af loftslagsbreytingum og rányrkju.

Vistkerfi jarðar stendur ógn af markaðshagkerfinu. Markaðshyggjan býður ekki upp á nein svör við þeim vanda sem blasir við. Félagshyggja, sjálfbær þróun og hringrásarhagkerfi eru þær leiðir sem feta þarf til að tryggja framtíð í sátt við náttúruna.

Loftslagsmál

Kolefnishlutlaust Ísland 2040 og binding umfram nettólosun
Draga þarf úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamkomulagið. Í fyrsta lagi þarf að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa í öllum geirum samfélagsins, þar með töldum samgöngum, iðnaði, sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu – en ekki síst með því að ýta öllum frekari áformum um mengandi orkufreka stóriðju út af borðinu ásamt því að draga úr losun frá stóriðjunni sem fyrir er. Í öðru lagi þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landnýtingu og binda kolefni með tiltækum mótvægisaðgerðum í jarðvegi, gróðri, votlendi og bergi. Með þessu móti skal ná kolefnishlutleysi Íslands í síðasta lagi árið 2040 og í framhaldinu að binda kolefni umfram nettólosun.

Ísland beiti sér fyrir því að losun gróðurhúslofttegunda frá flugi, skipum og hernaði verði talin með í losunarbókhaldi þjóða.

Skipuleggja þarf þéttbýli þannig að almenningssamgöngur, hjólreiðar og ganga verði raunhæfir valkostir. Vinstri græn styðja uppbyggingu Borgarlínu til að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Við fjárlagagerð, efnahagsstjórn og kjarastefnu stjórnvalda þarf að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Skattar og tollar þurfa að fela í sér jákvæða hvata fyrir náttúru og umhverfi. Hverfa skal frá sóun og vaxandi neyslu en nýta hráefni jarðar betur og minnka sóun.

Náttúruvernd

Náttúran njóti vafans – náttúra Íslands og víðerni eru verðmæti sem þarf að vernda
Í allri náttúruvernd þarf að huga sérstaklega að landslagsheildum og verndun landslags. Íslenskt landslag er einstakt á heimsvísu og gæta verður þess að yfirgripsmiklar framkvæmdir ógni ekki þessari sérstöðu, víðernum, líffræðilegri fjölbreytni eða vistkerfum. Setja ber ákvæði um vernd ferskvatns á Íslandi og tryggja eignarhald þjóðarinnar á ferskvatnslindum sem eru einar þær mestu í heiminum. Ísland er paradís jarðfræðilegra undra og stjórnvöld þurfa að setja vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni og einstakra jarðminja á dagskrá, bæði hér heima og á alþjóðavettvangi. Arktísk vistkerfi eru sérlega viðkvæm á tímum loftslagsbreytinga. Ísland á að sýna fordæmi og vera í fararbroddi náttúruverndar á norðurslóðum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að alþjóðasamningnum um Verndun líffræðilegrar fjölbreytni, sem Íslendingar eru aðilar að, verði fylgt fast eftir og þess gætt vandlega að koma í veg fyrir að ágengum framandi tegundum sé dreift í íslenskri náttúru. Ísland þarf að taka virkan þátt í yfirstandandi samningaferli fyrir ný markmið Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og tryggja að fulltrúar ungs fólks komi að mikilvægum ákvörðunum í ferlinu. Er þetta mjög mikilvægt til að tryggja að rammasamningurinn taki mið af komandi kynslóðum og að framtíð og þarfir ungs fólks séu raunverulega hafðar til hliðsjónar. Stjórnvöld þurfa jafnframt að ráðast í endurskoðun á stefnumörkun Íslands um líffræðilega fjölbreytni og setja fram aðgerðaáætlun á grundvelli hennar.

Ágengar framandi tegundir eru ein mesta ógnin við líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu og sérstaklega hættulegar lífríki einangraðra eyja eins og Íslands. Einkum þarf að huga að samningnum um líffræðilega fjölbreytni þegar áform um skógrækt og framræslu votlendis eru annars vegar. Hefta þarf innflutning og dreifingu á framandi ágengum tegundum og vakta útbreiðslu þeirra sem þegar eru í landinu. Til að varðveita líffræðilega fjölbreytni ber að banna erfðabreytta ræktun utandyra sem og dreifingu ágengra tegunda í náttúru Íslands. Stjórnvöld beiti sér fyrir vernd og endurheimt íslenskra vistkerfa, einkum þeirra sem eru sérstök og einkennandi fyrir Ísland.

Efla þarf náttúrufarsrannsóknir þannig að til séu ítarlegri gögn um íslenska náttúru en nú er, kortleggja náttúrugæði og tryggja að öll gögn séu opin og aðgengileg. Auka þarf sérstaklega eftirlit með villtum dýrastofnum, þ.m.t. skordýrum, ekki síst í ljósi staðfestrar hnignunar þeirra á heimsvísu. Styrkja þarf löggjöf um vernd og friðun villtra dýra og stækka griðasvæði hvala í kringum landið.

Friða þarf miðhálendið, hálendi Vestfjarða og umhverfi Breiðafjarðar og stofna þar þjóðgarða. Tryggja þarf fjármagn til að ráðast í friðlýsingar, sérstaklega þeirra sem ákvarðaðar eru af Alþingi, m.a. í rammaáætlun og náttúruverndaráætlun. Meta þarf umhverfisáhrif framkvæmda heildstætt, þannig að t.d. áhrif verksmiðja, virkjana og línulagna séu metin með heildstæðum hætti.

Rannsaka þarf betur þolmörk svæða og skilgreina út frá þeim landvörsluþörf á hverjum stað og tryggja markvissa stjórn á umgengni á viðkvæmum náttúrusvæðum. Stórefla þarf heilsárslandvörslu á öllum svæðum sem njóta einhvers konar verndar. Lokið verði við að kortleggja slóðakerfi landsins þannig að skýrt verði skilgreint hvar megi aka á Íslandi og skýr viðurlög verði sett við utanvegaakstri.

Móta verður stefnu og auka verulega eftirlit varðandi siglingar og móttöku skemmtiferðaskipa, sérstaklega með hliðsjón af mengun og öðru umhverfisálagi, þ.m.t. landtöku utan hafna. Sú stefna verður einnig að taka til samfélagsáhrifa þessarar starfsemi. Til hliðsjónar verði m.a. hafðar reglur sem tóku gildi í Noregi á árinu 2019. Stjórnvöld verða að vinna ötullega að banni við flutningi og bruna svartolíu á norðurslóðum.

Neysla og sóun

Hringrásarhagkerfið
Í hringrásarhagkerfi er lögð áhersla á að nota hrein hráefni og láta þau ekki fara til spillis heldur nýta þau og endurnýta eins og best verður á kosið. Í stað þess að vinna vöruna, nota hana og urða síðan eða brenna, er úrgangi breytt í auðlind með endurnotkun og endurvinnslu. Öll vöruþróun þarf að miðast við sjálfbærar hringrásarlausnir og stjórnvöld, félagasamtök, atvinnulífið og einstaklingar þurfa í sameiningu að vinna gegn sóun hráefna og draga úr vaxandi neyslu. Ríki og sveitarfélög eru, að frumkvæði VG, að taka höndum saman um gerð aðgerðaáætlana um minni umbúðanotkun, flokkun og eflingu endurnýtingar og endurvinnslu. Sérstaklega verði hugað að plastnotkun og markvisst unnið gegn því að plast og plastagnir berist í hafið. Stórátak þarf af hendi ríkis og sveitarfélaga við að ljúka nútímavæðingu allra fráveitukerfa, uppbyggingu skólphreinsistöðva og bæta eftirlit með skólpmengun.

Framfylgja ber Evrópugerðum og alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að varðandi flokkun og merkingar svo og bönn og takmarkanir á notkun eiturefna og hættulegra efna, þar með talið þungmálma og þrávirkra lífrænna efna. Kortleggja þarf og bæta eftirlit með notkun hættulegra efna á Íslandi og banna notkun efna sem teljast vera hættuleg vistkerfum og lífríki. Stórauka þarf fræðslu til almennings um innihaldsefni í ýmsum algengum vörum og tryggja þannig að gildandi efnalöggjöf sé fylgt.

Þátttaka almennings

Almenningur hafi aðkomu að ákvarðanatöku í umhverfismálum
Stjórnarráðið og stofnanir hins opinbera þurfa að taka frekari ábyrgð á að sjálfbær þróun sé ráðandi við alla stefnumótun á vegum hins opinbera. Styrkja þarf stofnanir sem sinna umhverfismálum þannig að þær geti sinnt margþættu hlutverki sínu og efla samstarf stofnana sem sinna náttúru- og umhverfisvernd. Sjálfbærni verði lögð til grundvallar við skipulagsvinnu á öllum skipulagsstigum þannig að skipulag tryggi umhverfis- og loftslagssjónarmið.

Tryggja þarf þátttöku almennings í öllum ákvörðunum er varða umhverfismál sem og rétt almennings til heilnæms umhverfis. Auka þarf möguleika almennings til þátttöku snemma í ferli ákvarðanatöku. Tryggja þarf fjárhagslega stöðu og réttarstöðu frjálsra félagasamtaka á sviði náttúru- og umhverfisverndar.

Fáar þjóðir eru jafn háðar náttúruöflunum og reiða sig í jafn miklum mæli og Íslendingar á nýtingu náttúruauðlinda. Auka þarf náttúrufræðikennslu og menntun til sjálfbærni í skólum og fræða landsmenn alla um mikilvægi náttúruarfsins og viðhald náttúrulegra ferla. Reisa þarf Náttúruminjasafn eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála. Með auknu náttúrulæsi fylgist almenningur betur með vistkerfabreytingum og getur tekið beinan þátt í vöktun náttúrunnar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.