PO
EN

Atvinnumál

Landsfundur 2024.

Markmið Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í atvinnumálum er að umbreyta atvinnulífinu í átt að sjálfbærni og stuðla að fjölbreyttri og félagslega réttlátri atvinnuuppbyggingu um land allt. Vinstri græn leggja áherslu á að þróa nýjar atvinnugreinar og skapa störf þar sem sjálfbærni, ábyrgð, og nýsköpun eru í fyrirrúmi til að tryggja vöxt atvinnugreina í sátt við náttúru og samfélag. Lögð verður áhersla á að atvinnulífið tryggi öllum aðgang að vinnumarkaði á eigin forsendum.
Uppbygging innviða og byggðaþróun eru lykilþættir í að tryggja fjölbreytt atvinnulíf og jafnvægi milli landshluta. Þá vilja Vinstri græn sérstaklega efla skapandi greinar, hugverka- og hátækniiðnað enda eru menningartengdar greinar, hátækni og nýsköpun í stafrænum iðnaði mikilvægar fyrir alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands og hluti af fjölbreyttum atvinnutækifærum til framtíðar. Með áherslu á sjálfbærni, jöfnuð og nýsköpun vilja Vinstri græn skapa atvinnulíf sem stuðlar að betri framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Fjölbreytt atvinnulíf

  • Atvinnulífið á að þróast í átt að sjálfbærni með áherslu á græn störf, skapandi greinar, sjálfbæra þróun og nýsköpun.
  • Stjórnvöld eiga að vera leiðandi í fjárfestingum sem styðja við þróun sjálfbærs atvinnulífs. Með markvissum aðgerðum í opinberum fjárfestingum er hægt að skapa grunn fyrir þróun þess. Sérstök áhersla skal vera lögð á að opinbert fé sé nýtt á ábyrgan hátt til að styðja við sjálfbær græn verkefni og samfélagslega ábyrg fyrirtæki, kolefnishlutleysi og hringrásarhagkerfið.
  • Stefnt skal að kolefnishlutleysi innan atvinnulífsins með því að draga úr losun, hvetja til orkuskipta og orkusparnaðar og styðja við sjálfbæra framleiðsluferla og virkja betur sköpunarkraftinn í þágu atvinnulífsins.
  • Grunnatvinnuvegir eiga að byggja á sjálfbærri nýtingu auðlinda og samfélagslegri ábyrgð í takt við loftlagsaðgerðir.
  • Stuðla skal að því að fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð í rekstri sínum með því að innleiða skýr, mælanleg viðmið sem tryggja umhverfis- og náttúruvernd, kolefnishlutleysi og jákvæð áhrif á nærsamfélagið.
  • Styðja þarf við hátækniiðnaðinn á Íslandi þar sem íslensk fyrirtæki hafa verið leiðandi í nýsköpun og þróun. Hátækniiðnaður gegnir lykilhlutverki í að efla alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands og skapa störf sem byggja á háþróaðri þekkingu og hugviti. Með áherslu á tæknimenntun, rannsóknir og þróunarstarf getur Ísland verið í fararbroddi í nýsköpun og tækniframförum til framtíðar.

Styrking innviða og byggðaþróun

  • Til að tryggja fjölbreytt atvinnulíf um allt land þarf að bæta innviði í hinum dreifðu byggðum, svo sem samgöngur, háhraðanettengingar, menntunartækifæri og aðra grunnþjónustu.
  • Vinstri græn vilja stuðla að fjölbreyttri uppbyggingu atvinnulífs á skilgreindum vaxtar- og atvinnusóknarsvæðum og efla byggðajafnrétti með aukinni samvinnu sveitarfélaga um allt land. Með því að styðja við skapandi lausnir og atvinnuþróun skapast meiri lífsgæði í öllum landshlutum.
  • Þróa skal fjölnota vinnurými eða klasa á landsbyggðinni til að styðja við uppbyggingu atvinnulífs og auka tækifæri til nýsköpunar. Slíkt getur aukið fjölbreytni og skapað ný störf í dreifbýli.
  • Aukinn kraft þarf að setja í að skapa staðbundin störf, efla nýsköpun og fjölga opinberum störfum um land allt með tilliti til byggðajafnréttis.

Hugverkaiðnaður, skapandi greinar og framtíðarstörf

  • Vöxtur hugverkaiðnaðar á Íslandi kallar á aukinn stuðning við sprotafyrirtæki og frumkvöðla í upplýsingatækni og hugverkagreinum. Skapa þarf betra starfsumhverfi fyrir stafræn störf og tryggja réttindi starfsmanna. Vöxtur hugverkaiðnaðar á Íslandi kallar á aukinn stuðning við sprotafyrirtæki og frumkvöðla í upplýsingatækni og hugverkagreinum. Skapa þarf betra starfsumhverfi fyrir stafræn störf og tryggja réttindi starfsmanna.
  • Menningartengdar greinar eins og kvikmyndagerð, hönnun, tónlist og listgreinar byggja á hugverkum og hugviti. Þær þarf að efla, enda eru þær mikilvægar stoðir fyrir fjölbreytt atvinnulíf innanlands og á alþjóðavísu. Leggja skal áherslu á tæknimenntun, hæfniuppbyggingu og rannsóknir til að styrkja stöðu Íslands í hugverkaiðnaði og skapandi greinum og styðja við menntastofnanir og rannsóknarverkefni sem miða að nýsköpun og þróun í hugverkagreinum.
  • Til að tryggja öllum jöfn tækifæri til að þróa nýja hæfni í breyttu atvinnulífi þarf að leggja áherslu á umfangsmikla áætlun um endurmenntun og hæfniuppbyggingu til að takast á við áhrif tæknivæðingar og sjálfvirknivæðingar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search