PO
EN

Leikskólagjöld – pólitískt ákvarðaður ójöfnuður

Deildu 

Heilsa okkar og samfélaga okkar (lýðheilsa) eru margslungin fyrirbæri, háð svokölluðum áhrifaþáttum heilsu. Mörgum þeirra ræður einstaklingurinn ekki yfir og fjöldi þeirra tilheyrir ekki heilbrigðiskerfinu, enda skýrir þjónusta þess einungis 20% lýðheilsunnar.

Hin 80 prósentin eru rakin til annarra þátta, ekki síst félagslegra. Það eru einkum pólitískar ákvarðanir sem hafa áhrif á þessa félagslegu þætti, bæði til góðs og ills og þær taka kjörnir fulltrúar á Alþingi og í sveitarstjórnum. Þess vegna eru heilbrigðismál sveitarstjórnarmál.

Barnavernd í verki

Fjölbreytileiki íbúa er styrkur sveitarfélaga, en íbúarnir búa við mjög mismunandi aðstæður. Gjöld sem samfélagið útsetur okkur fyrir eru oftast jafnhá (jafnrétti) en þau mæta okkur í alls kyns aðstæðum og íþyngja því sumum mun meira en öðrum (ójöfnuður). Leikskólagjöld eru dæmi um pólitískt ákvarðaðan ójöfnuð sem bitnar á börnum, sumum börnum og fjölskyldum þeirra. Stigin hafa verið ákveðin skref til lækkunar leikskólagjalda í Múlaþingi sem er vel. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og með hag allra barna í huga er brýnt að Múlaþing setji sér það markmið að gera leiskólann gjaldfrjálsan.

Meiri jöfnuð, barnanna vegna

VG vill stefna að gjaldfrjálsum leiskóla og í byrjun kjörtímabils marka tímasett skref í þá átt. Eðlilegt er þá að byrja á að ganga lengra en orðið er í tilviki foreldra sem eiga fleiri börn en eitt í leikskóla. VG vill líka í samráði við kennara leita leiða til að hækka enn frekar hlutfall kennara í leikskólunum, þó margt hafi þegar verið vel gert í þá veru.

Ég hvet ykkur ágætu sveitungar til að nýta kosningarétt ykkar 14. maí nk. og sömuleiðis og sérlega foreldra, ömmur og afa til að nýta þann mikilvæga rétt ekki síst í þágu barna, ALLRA barna.

Höfundur er læknir, fulltrúi VG í umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþingsog skipar 3. sæti á lista VG í Múlaþingi fyrir kosningar

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search