Í Kópavogi hefur lengi verið vilji meðal íbúanna að þjónusta við eldra fólk sé góð. Það sýna kannanir og greinaskrif og fleira í gegnum tíðina. Því miður hefur þessi vilji ekki alltaf verið eins augljós hjá stjórnkerfi bæjarins eða kjörnum fulltrúum. Margt hefur þó verið gert mjög vel og með miklum sóma, en við þurfum að gera betur.
Á forsendum eldra fólks
Ein af grunnforsendunum er að þjónusta eða framboð á þjónustu sé á forsendum þeirra sem nota. Þá þarf hún líka að einhverju leiti að vera eftir þörfum, þ.e. til reiðu þegar okkur hentar en ekki kerfinu. Það er ekki gefið að við viljum öll alltaf fá aðstoð við heimilisþrif á sama tíma eða með sama hætti. Það gæti alveg eins hentað að það væri á miðvikudegi þessa vikuna en föstudegi þá næstu. Eða ef við þurfum aðstoð við persónulega hirðu getur verið að stundum viljum við bara sofa út, eða fara seinna að sofa. Með nútíma tækni ætti að vera einfaldara en áður fyrir bæinn að bregðast við breytileika í þjónustunni. Það má senda rafræn boð um að nú henti annar tími en í gær. Á stofnanamáli er þetta stundum kallað velferðartækni. En sú tækni verður að vera á forsendum notendanna.
Frumkvæði bæjarins
Síðastliðin 20 ár hefur Kópavogsbær haft frumkvæði að byggingu 10 hjúkrunarrýma. Ég held að við getum öll verið sammála um að það er frekar lítið. Sem betur fer hefur Hrafnista byggt 44 rými í Boðaþingi, en á móti var lokað um 20 rýmum í Gullsmára og á Skjólbraut. Hvernig sem er talið er nettó niðurstaðan alltof lág tala. Á sama tíma og eldra fólki hefur fjölgað um meira en 3000 hefur hjúkrunarrýmum fjölgað um fáeina tugi (34stk). Með öðrum orðum, á sama tíma og fjöldi 67+ hefur vaxið um 127% hefur fjölgun rýma verið um 40%. Eldra fólki hefur fjölgað á þreföldum hraða miðað við fjölgun þjónustuúrræða. Þetta lýsir hvorki metnaði né frumkvæði bæjarins, nema þá á frekar neikvæðan hátt. Þessu þarf að breyta.
Auðlind
Öfugt við það sem margir virðast halda er eldra fólk verðmæti fyrir hvert samfélag, rétt eins og aðrir íbúar. Eldra fólk er fjölbreyttur hópur sem flest nýtir frekar litla þjónustu, en leggur töluvert með sér í formi skatta og gjalda. Bærinn þarf að ganga um þessa auðlind af virðingu og ekki taka henni sem gefnum hlut. Bærinn á að hafa frumkvæði að því að bæta þjónustuna, fjölga úrræðum og gera það í samvinnu við eldra fólk sjálft. Við eigum að bjóða samtökum eldra fólks að borðinu og spyrja: Hvað finnst ykkur, hvað viljið þið?
Kópavogur á að vera samfélag fyrir okkur öll. Göngum lengra með VG.
Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir er odddviti Vinstri grænna í Kópavogi í kosningunum 14.maí