Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir vísindamanna um afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum undanfarna áratugi hafa stjórnvöld á heimsvísu verið treg til að bregðast við. Nú er svo komið að þrátt fyrir stórátak í viðbrögðum síðustu ára og samkomulag um að reyna eftir fremsta megni að halda hlýnun jarðar við eða undir 1,5°C þá þurfa samfélög að sinna tveimur stórum verkefnum í málaflokknum. Mælingar sýna raunar að það líður hratt að því að markmiðið um að takmarka hlýnun við 1,5°C verður utan seilingar á allra næstu árum nema til komi mjög árangursríkar aðgerðir. Í fyrsta lagi þarf að draga sem allra mest úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda hlýnuninni en auk þess þarf að auka seiglu samfélaga gagnvart þeim breytingum sem þegar eru orðinar og sjást glöggt í náttúrunni og á vistkerfum jarðar. Þær breytingar sem þegar eru komnar fram ganga ekki svo glatt til baka, sérstaklega ekki ef við missum takmarkið um 1.5°C úr greipum okkar.
Aðlögun samhliða samdrætti í losun
Aðlögun að loftslagsbreytingum getur í eyru einhverra hljómað eins og uppgjöf, en það er misskilningur. Aðlögun er verkefni sem þarf að vinnast samlhiða samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Hún snýst um að takmarka skaðan af þeim breytingum sem þegar hafa orðið á veður og náttúrufari og aðalaga samfélög að nýjum veruleika. Á Íslandi skortir rannsóknir á því hvernig nákvæmlega veðurfar á landinu breytist með hlýrri lofthjúp og hlýnandi sjó, en við vitum þó að úrkomumagn eykst með hlýrra lofti og aukin úrkoma getur valdið náttúruhamförum, allan ársins hring. Lofthiti eykst, sem bræðir jökla og sífrera og eykur því einnig skriðuhættu og vistkerfin geta átt í högg að sækja vegna nýrra ágengra tegunda sem koma sér nú fyrir norðar á hnettinum samfara hlýnandi veðri. Þá benda hnattrænar rannsóknir eindregið til þess að veðuröfgar verði meiri, og engin ástæða til að halda annað en að sú verði raunin á Íslandi líka.
Breytingar á hæð sjávaryfirborðs og súrnun sjávar eru breytingar sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland, og þá er talið líklegt að með bráðnun jökla og minna farg á sumum af virkustu eldstöðvum landsins geti valdið tíðari eldgosum. Augljóst verður að teljast að til mikils að vinna við að takmarka áhrif þeirra loftslagsbreytinga sem þegar hafa orðið og hnattræna verkefnið um að hætta alveg að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið er mikilvægasta verkefnið sem mankynið hefur staðið frami fyrir.AUGLÝSINGhttps://static.airserve.net/hvita-husid/framsokn/reytkjavik-2022/metas/1018/manifest.html
Í sjöttu skýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) kemur fram að samræmdar aðgerðir og aðgerðapakkar stjórnvalda hafa meiri áhrif en einstakar aðgerðir, og að það sé hagkvæmt að nýta stjórntæki s.s. kolefnisskatta ásamt reglugerðarbreytingum samhliða til að ná sem mestum árangri. Fyrst og fremst þarf að draga úr útblæstri með því að umbylta orkuöflun, draga úr mengun frá iðnaði, byggingargeiranum og samgöngum en samtímis þurfum við að byggja seiglu samfélagsins gagnvart breytingunum sem þegar eru hafnar. Við þurfum að aðlaga fráveitukerfi meiri úrkomu, styrkja ofanflóðavarnir, auka vöktun á óstöðugum hlíðum og vöktun á öllum vistkerfum þar sem breytingar eru kvikari og hraðari núna en nokkurntíman áður.
Reykjavík í forystu
Reykjavík á að vera í forystu í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og hefur til þess tækifæri sem ein af 100 loftslagsborgum Evrópu. Orkuskipti í samgöngum, öflugar almenningssamgöngur og öflugt hringrásarhagkerfi þar sem við nýtum allar þær auðlindir sem finna má í úrgangi, hvetjum borgarbúa, fyrirtæki og einstaklinga til að nýta betur og nota minna eru allt verkefni sem þegar eru á borði borgarinnar og unnið að. Borgin á að bæta kostnaði kolefnisútblástur við allar framkvæmdir og taka þannig upplýsta ákvörðun, bæði fjárhagslega og loftslagslega áður en gengið er að tilboðum. Bjóða upp á vistvænan mat í mötuneytum borgarinnar og efla matvælaframleiðslu í heimabyggð. Verndun náttúrulegra svæða sem þegar taka upp og geyma kolefni er líka mjög mikilvæg ásamt því að auka skipulagða skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Hverfi borgarinnar þurfa að vera nægilega stór til að bera þjónustu svo borgarbúar þurfi ekki að keyra um langan veg eftir grunnþjónustu og áfram mætti telja.
Við megum engan tíma missa, sýnum frumkvæði, elju og seiglu og gerum borgina okkar kolefnishlutlausa sem allra allra fyrst.
Elín Björk Jónasdóttir er veðurfræðingur, skipar 3. sæti á lista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar 14. maí.