PO
EN

Aðgerðir kynntar um meira öryggi og aukið framboð á húsnæðismarkaði

Deildu 

Starfshópur um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði sem skipaður var í febrúar sl. kynnti tillögur sínar á fundi Þjóðhagsráðs í morgun. Á grundvelli tillagnanna munu stjórnvöld nú þegar leggja áherslu á aukna uppbyggingu íbúða, endurbættan húsnæðisstuðning og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Í skýrslu starfshópsins eru settar fram 28 tillögur í sjö málaflokkum. Hópnum var falið að fjalla um leiðir til að auka framboð á húsnæði til að mæta uppsafnaðri og fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa til lengri og skemmri tíma, stuðla að auknum stöðugleika auk annarra aðgerða til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði.

Í skýrslu starfshópsins er lögð áhersla á að auka framboð íbúða til að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði og aukið húsnæðisöryggi. Gerð er tillaga um húsnæðisáætlun fyrir allt landið og sérstök áhersla lögð á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins og endurskoðun opinbers húsnæðisstuðnings. Þá er í skýrslunni að finna tillögur um virkan og heilbrigðan leigumarkað sem raunverulegan valkost, tillögur um skilvirkt regluverk, stjórnsýslu og framkvæmd í skipulags- og byggingarmálum og um samþættingu uppbyggingu íbúða og samgönguinnviða.

Til að fylgja eftir tillögum starfshópsins mun stjórnvöld nú þegar hefja eftirtalin verkefni:

Aukin uppbygging íbúða

Ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga munu nú þegar hefja viðræður um rammasamning um byggingu 4.000 íbúða árlega á landsvísu næstu fimm árin og 3.500 íbúða árlega næstu fimm ár þar á eftir. Horft verður sérstaklega til þeirra markmiða sem sett eru fram í tillögum starfshópsins, m.a. um að félagslegt húsnæði nemi að jafnaði 5% nýrra íbúða og hagkvæmt húsnæði sé sem næst 30% með sérstakri áherslu á almenna íbúðakerfið.

Endurbættur húsnæðisstuðningur

Settur verður á fót starfshópur ríkis og sveitarfélaga með aðilda aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á húsnæðisstuðningskerfum í samræmi við markmið og greiningar í skýrslu starfshópsins. Starfshópurinn skal taka til starfa eigi síðar en 1. júní nk. og skila tillögum sínum eigi síðar en 30. september nk.

Réttindi og húsnæðisöryggi leigjenda

Ákvæði húsaleigulaga verða endurskoðuð með það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Þar verður m.a. horft til tillagna átakshóps frá janúar 2019 sem áréttaðar eru í skýrslu stafshópsins sem skilar skýrslu sinni nú. Frumvarp þess efnis verði lagt fram á Alþingi á haustþingi 2022.

Samstaða í starfshópnum

Mikil samstaða var í starfshópnum um mikilvægi þess að tryggja aukið framboð íbúða til að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Nauðsynlegt sé að bregðast við ástandinu sem nánast fordæmalaus hækkun íbúðaverðs undanfarið ár hafi skapað og verja þannig efnahag heimilanna og húsnæðisöryggi landsmanna, einkum þeirra tekjulægri. 

Eftirtaldir skipuðu starfshóp um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði:

  • Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS, formaður án tilnefningar
  • Gísli Gíslason, formaður án tilnefningar
  • Bjarni Þór Sigurðsson, f.h. Alþýðusambands Íslands
  • Eyjólfur Árni Rafnsson, f.h. Samtaka atvinnulífsins
  • Fannar Jónasson, f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, f.h. félags- og vinnumarkaðsráðherra
  • Henný Hinz, f.h. forsætisráðherra
  • Ingilín Kristmannsdóttir, f.h. innviðaráðherra
  • Ólafur Heiðar Helgason, f.h. fjármála- og efnahagsráðherra
  • Regína Ásvaldsdóttir, f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir f.h. BSRB, BHM og KÍ.

Skoða niðurstöður í skýrslu starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði

Glærur frá kynningu á tillögum starfshópsins

Fylgiskjöl með skýrslu starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search