Rithöfundurinn Nassim Taleb skrifaði í einni bók sinni um kalkún á kalkúnabúi. Frá sjónarhóli kalkúnsins er líf hans í góðum málum, hann fær að borða á hverjum degi, stækkar og verður öflugri. Ekkert bendir til þess að hann sé í háska. Vingjarnlegt mannfólk fóðrar hann og hugsar um velferð hans. Þannig gengur það, þar til á miðvikudeginum fyrir þakkargjörðarhátíð. Þá breytist sitthvað og hann þarf að endurskoða gildismat sitt. En það er of seint og hann er étinn.
Taleb notaði þessa líkingu til þess að sýna fram á að skírskotun til sögunnar hefur lítið spágildi ef við tökum ekki tillit til allra breytna. Hefði kalkúnninn þekkt allar breyturnar sem skipta máli, hefði hann kannski lagt annað mat á framtíðarhorfur sínar. Þess vegna beitum við aðferð vísindanna, til þess að vera ekki eins og þessi kalkúnn. Það getur verið erfitt að samþykkja vísindalega ráðgjöf, sérstaklega þegar hún hentar okkur ekki eða hún fer gegn okkar sannfæringu. Áratugir liðu frá því að fyrsta svarta skýrslan um ástand nytjastofna á Íslandsmiðum birtist, árið 1975, þar til farið væri að mestu eftir vísindalegri ráðgjöf. Í skýrslunni voru spilin lögð á borðið, Íslendingar þyrftu að minnka sóknina eða stofninn myndi að endingu hrynja. Þetta reyndist erfitt, eins og gefur að skilja, þar sem miklir hagsmunir voru að veði og engin stjórntæki fyrir hendi.
Í dag er þessi staða breytt. Farið hefur verið eftir ráðgjöf um talsverða hríð, þó það hafi kostað miklar fórnir. Vandasamt verk er að telja fiskana í sjónum en árangurinn hefur verið mikill. Stofnmat þorsksins lítur vel út. Samkvæmt samtölum mínum við sjómenn og útgerðarmenn, er þeirra upplifun sú að auðveldara sé að veiða þorskinn en var í þá daga sem við ofveiddum stofninn. Við veiðum lægra hlutfall af stofninum en við gerðum. Auðveldara er að ná í fiskinn og hann er stærri. Sá samdráttur sem varð á ráðgjöf Hafró fyrir síðasta fiskveiðiár, byggðist á því að aðferðafræði stofnmatsins var breytt í því skyni að taka tillit til þess að meira er nú af eldri og stærri þorski en áður. Vegna þess að sveiflujöfnun er beitt í aflareglunni, kemur nú aftur skerðing sem leiðir af þessu breytta stofnmati.
Hafrannsóknir eru kerfislega mikilvægar fyrir Ísland. Á auðlindum hafsins byggjum við drjúgan hluta af útflutningstekjum þjóðarinnar og þúsundir fjölskyldna eiga lífsviðurværið undir. Hafrannsóknir eru besta mögulega aðferðin sem við höfum til þess að meta nytjastofna. Þær eru þannig besta stjórntækið sem við höfum þegar gefa á út heildarafla fyrir hvert fiskveiðiár. Ég mun byggja ákvarðanir mínar á vísindalegri ráðgjöf, hér eftir sem hingað til.
Svandís Svavarsdóttir er matvælaráðherra.