Bregðast verður við grein eftir fulltrúa Landverndar og Ungra umhverfissinna í Fréttablaðinu (29.06), þótt seint sé.
Í stöðuskýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum frá 1. mars sl. (stundum kölluð grænbók) var gerð grein fyrir öllum sviðsmyndum, sem til voru þá, um orkuskipti. Líka sviðsmynd þriggja náttúruverndarsamtaka. Sex sviðsmyndir spanna allt frá litlum orkuskiptum til fullra orkuskipta. Þau miða að því að fasa út yfir einni milljón tonnum af olíu, bensíni og steinolíu. Það þarf mikið rafafl, mun meira en nokkur hundruð megawött sem ná má með orkusparnaði, glatvarma stóriðju, fráhvarfi bitcoin-samninga, auknu rennsli jökulvatna eða betri varmanýtingu í núverandi orkuverum. Til þess þarf sambland vatnsorku, jarðvarma og vindafls umfram það sem fengist með fyrrgreindum hætti. Þverpólitísk orkustefna frá 2020 byggir á sjálfbærni og síendurskoðuðum markmiðum loftslagsstefnu. Niðurstaða skýrslunnar eru 30 ábendingar um brýn verkefni til stjórnvalda, m.a. um mikilvægi hringrásarhagkerfis.
Sviðmyndir orkuskipta gera ráð fyrir allt frá litlum vexti/breytingum í hagkerfinu til mikillar uppbyggingar græns iðnaðar, nýsköpunar, sjávartengds iðnaðar og landbúnaðar með óvissu langtíma mati á orkuþörf. Í skýrslunni er einnig fjallað um þann möguleika að einhver stór málmiðjuver hætti starfsemi og orka losni þar til fullra orkuskipta. Samtímis er bent á að lítill pólitískur vilji er til að segja upp samningum við þau. Ég get giskað á að það sé m.a. vegna stærðar þeirra í hagkerfinu, afleiddrar starfsemi og þess að álverin stefna að niðurdælingu koldíoxíðs og jafnvel kolefnislausum rafskautum. Nýjasta skrefið gæti verið varmaframleiðsla með vatni og bráðnu áli er breytir málminum í súrál sem nota má aftur.
Sviðsmyndir fullra orkuskipta eru gróflega degnar upp vegna þess að átján ár eru til stefnu miðað við sett markmið 2040. Á næstu árum breytir tækniþróun orkuskipta, einkum á sjó og í lofti, auðvitað miklu um framfarir og eftirspurn eftir raforku. Hitt er um leið augljóst að heildarlosun Íslands, að frátaldri losun frá uppþurrkuðu, breyttu og illa förnu landi, nemur eftir sem áður 4 til 5 milljónum tonna af kolefnisígildum. Losun í bílasamgöngum (þar er árangur þegar nokkur), frá vinnutækjum, í sjávarútvegi (þar er árangur þegar nokkur), landbúnaði, o.fl. greinum minnkar enn of hægt, miðað við Parísarsamkomulagið 2030. Flug og siglingar milli landa og orkufrekur iðnaður lúta ytri kvótakerfum. Þar er of hæg þróun á okkar könnu.
„Biðflokkurinn er stór vegna þess að í honum eru virkjanakostir sem samkomulag er um að endurskoða“
Full orkuskipti ná til allrar losunar úr jarðefnaeldsneytisvélum í íslenskri notkun. Það samsvarar varla 12% losunar Íslands, eins og segir í greininni. Sú tala gæti átt við öku- og vinnutæki á landi. Losun frá rúmlega 1.000.000 tonnum af jarðefnaeldsneyti á ári, í lofti, á sjó og landi er miklu hærra hlutfall heildarlosunar en 12%. Samtímis er líka tekist á við kolefnislosun úr lausum, þurrum, votum og skemmdum jarðvegi og sífrera (alls milljónir tonna á ári), en sú barátta er löng og ströng.
Töluvert er fjallað um rammaáætlun í skýrslunni. Lögin eru eina nothæfa, sýnilega verkfærið til þess að tryggja sem mesta sátt um heildarskipulag raforkuframleiðslu í meðförum faghópa, almennings og Alþingis. Á það hefur reynt árum saman. Frá 2010 að telja hafa komið nýjar breytur í orkumál og rammaáætlun: Breytt loftslagsmarkmið, full orkuskipti, möguleg vindorka og tillögur um að lækka aflviðmið virkjana og loks að tekið skuli tillit til allra þriggja þátta sjálfbærni. Það merkir að endurmeta ber náttúruþáttinn í ljósi þróunar t.d. umhverfis- og ferðamála. Enn fremur að draga skuli samfélagsþáttinn betur inn í mat ásamt efnahagslega þættinum. Biðflokkurinn er stór vegna þess að í honum eru virkjanakostir sem samkomulag er um að endurskoða. Ný verkefnisstjórn er tekin við og vinnur faglega eins og hinar. Það er ekki ósigur náttúruverndar, sem er önnur grunnundirstaða samfélagsins, að færa kosti inn eða úr flokknum. Eða vega þá að nýju með víðtækari eða breyttum forsendum sjálfbærni en lengst af var gert, þ.e. á meðan umhverfisviðmið voru fyrst og fremst höfð til hliðsjónar. Hin grunnundirstaða samfélagsins eru náttúrunytjar sem eru ekki sjálfvirkt og fyrirfram samnefndar eyðileggingu náttúrunnar. Á milli þessara tveggja undirstaða þarf að vera jafnvægi og um þær sæmileg sátt í landinu. Einnig um að beita sjálfbærni sem leiðarljósi við náttúrunytjar. Það snertir eðlilega alla náttúruvernd og fyrrnefnt jafnvægi.
Ari Trausti Guðmundsson, fyrrverandi þingmaður og einn þriggja höfunda stöðuskýrslunnar.