PO
EN

Hátíðarræða Guðmundar Inga á Hinsegin dögum 2022

Deildu 

Hinsegin dagar 2022 – opnunarhátíð 2. ágúst 2022
Hátíðarræða Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Elskulega hinsegin samfélag.

Ég ólst upp í litlu en góðu samfélagi úti á landi. En hinsegin fyrirmyndir voru ekki til staðar. Ég gekk í heimavistarskóla. Þegar ég var níu eða tíu ára gerist það að karlkyns kennari hættir um miðjan vetur, eða þannig er það í minningunni, og það er gert grín að honum af eldri strákunum í skólanum á kvöldvöku, þar sem greinilega kom fram að hann var hommi.

Þarna skynjaði ég að skilaboð samfélagsins voru að það var eitthvað rangt við að vera hommi en upplifun mín var líka að það var rangt að gera grín að því. Seinna fattaði ég að þetta hafði sært mig. Og þessar tilfinningar hafa lifað með mér alla tíð síðan.

Við eigum örugglega öll svona sögur, mörg ykkar örugglega miklu alvarlegri sögur en ég þar sem margvíslegu og grófu ofbeldi var beitt, andlegu sem líkamlegu, eitthvað sem hvorki börn né fullorðin eiga að þurfa að lifa við.

Grundvallaratriðið er að við höfnum einfaldlega slíku samfélagi mismununar. En því miður stendur heimurinn á krossgötum.

——

Samkvæmt óháðum sérfræðingi Sameinuðu þjóðanna í málefnum hinsegin fólks, þá hefur orðið skörp aukning í ofstækisfullri orðræðu af hálfu öfgafullra stjórnmálaleiðtoga og trúarhópa í heiminum gegn hinsegin fólki. Hér er um að ræða vel skipulagðar og fjármagnaðar áætlanir sem hafa það að markmiði að skaða þá sjálfsögðu viðurkenningu og draga úr þeim réttindi sem náðst hafa og tengjast bæði hinsegin fólki og konum.

Í júní síðastliðnum heimsótti ég skrifstofu ILGA World í Genf. ILGA vinna daglega að því að auka skilning á málefnum hinsegin fólks, gæta réttinda okkar og viðhafa sýnileika í alþjóðlegri samvinnu. ILGA hafa sömu sögu að segja frá hagsmunagæslu sinni á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.

Það er því alveg kýrskýrt að réttindabarátta okkar hinsegin fólks stendur frammi fyrir sögulegri og skipulagðri mótstöðu sem gengur út á að grafa undan hornsteinum mannréttinda okkar.

Já, „mannréttindi okkar eru bara þunn skán“, eins og Ragnhildur Sverrisdóttir orðaði það svo ágætlega í tímariti Hinsegin daga í ár.

Það hefur því miður orðið bakslag víða um heim. Líka á Íslandi.

——

Ég mun aldrei halda því fram að ég geti sett mig í spor þeirra sem leiddu réttindabaráttu okkar í upphafi, en ég er þeim óendanlega þakklátur og virðing mín fyrir ykkur er mikil.

Ég hélt að baráttan hér heima á Íslandi snerist núna fyrst og fremst um réttindi og viðurkenningu trans fólks og intersex fólks, við værum einfaldlega komin með hitt að mestu. En árásin í Osló, gelt að ungu fólki og samkynja pörum færði manni aðrar fréttir og færði bakslagið nær, að minnsta kosti mér, hinum miðaldra forréttindahomma sem ég auðvitað er.

Og, síðan stígur fram maður í valdastöðu og talar gegn hinsegin flóttafólki og finnst nóg af hommum á Íslandi. Tja, þar er ég klárlega ekki sammála!

Ég var staddur í Osló helgina sem árásin á hinsegin samfélagið var gerð. Fyrsta tilfinningin mín var sjokk, svo hræðsla og loks reiði. Sjokkið líður tiltölulega hratt hjá, hræðslan fékk mann til að vilja helst bara vera inni á hótelherbergi en reiðin dreif mig út til að sýna samstöðu og halda áfram að vera til þó svo að gamli óttinn hafi gert vart við sig.

Og, spurningar sem hlaðast upp í kollinum á manni við atburði síðustu missera eru ótal margar. Er ég allt í einu orðinn annars flokks vegna þess að ég hneigist til sama kyns? Verð ég kannski bara laminn fyrir utan Kíki? Er ég sem valdamaður í samfélaginu sérstakt skotmark, eins og hinsegin leikarar og tónlistafólk? Verð ég viðkvæmari fyrir öllu öráreitinu sem Bjarni Snæbjörns fór svo vel yfir í sýningunni „Góðan daginn faggi“? Og margar, margar fleiri spurningar.

Ég á því miður ekkert einfalt svar við þessum spurningum. En það sem ég veit er að samstaða, sýnileiki og fyrirmyndir eru grundvallaratriði í réttinda- og viðurkenningarbaráttu okkar hinsegin fólks.

——

Á Íslandi hefur náðst árangur í að bæta réttindi hinsegin fólks á undanförnum árum undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þetta sést best á því að við höfum færst upp á regnbogakorti ILGA. Nægir hér að nefna nýja löggjöf um kynrænt sjálfræði sem eykur sérstaklega réttindi trans fólks og intersex fólks. En hér má líka nefna lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og löggjöf um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Í vor samþykkti síðan Alþingi fyrstu aðgerðaáætlun Íslands í málefnum hinsegin fólks. Á alþjóðavettvangi stöndum við líka vaktina og höfum á síðustu árum gert málefni hinsegin fólks mun sýnilegri í málflutningi Íslands.

Samtökin 78 hafa eflst mikið á undanförnum árum og halda úti markvissu, faglegu og öflugu starfi fyrir okkur hinsegin fólk og samfélagið allt. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum stóraukið fjármagn til samtakanna og þurfa áfram að styðja dyggilega við þau. Af heilum hug þakka ég fyrir ykkar góða starf.

Eitt af forgangsmálum stjórnvalda núna er að vinna tillögur til að sporna gegn hatursorðræðu í samfélaginu og hefur forsætisráðherra falið nýjum starfshópi það verkefni.

En auðvitað leysa ekki tillögur eins starfshóps allar okkar áskoranir. Við verðum öll sem samfélag að leggjast á eitt. Við viljum ekki að lítil börn upplifi það sem eitthvað rangt að kennarinn þeirra sé hinsegin eins og ég upplifði í gamla daga eða að það sé gelt að okkur fyrir það eitt að vera við sjálf. Það er auðvitað galið!

——

Kæru hátíðargestir!

Að lokum vil ég þakka stjórn og sjálfboðaliðum Hinsegin daga fyrir óeigingjarnt starf í þágu hinsegin samfélagsins.

Og það er á laugardag sem hinsegin dagar ná hámarki með gleðigöngunni. En ég minni okkur á að þetta er ekki skrúðganga. Þetta er ekki skemmtiganga, þó það sé allt í lagi að hafa gaman. Þetta er og verður kröfuganga. Þetta er mótmælaganga og þetta er samstöðuganga.

Við skulum gera hornstein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna að grundvallarkröfu okkar: Að „við erum öll fædd frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum“. Og, við mótmælum því misrétti sem margt hinsegin fólk verður enn fyrir.

Verum róttæk. Verum stolt. Verum sýnileg. Verum hugrökk og blásum hvert öðru hugrekki í brjóst.

Gleðilega hinsegin daga!

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search