Kæru félagar!
Það er gott að vera kominn vestur á Ísafjörð. Takk fyrir að taka á móti okkur kæru Ísfirðingar.
Ég man alltaf eftir því þegar ég kom hingað fyrst, fjögurra ára gamall með mömmu og pabba, en móðir mín er fædd og uppalin hér á Hlíðarveginum – var og er Hlíðarvegspúki. Þær eru ófáar sögurnar sem maður gleypti í sig sem krakki. Fyrir strák úr sveit var það talsvert ævintýralegt að heyra af uppvexti móður sinnar sem ólst upp í kaupstað, þar sem var draumkennt bakarí og þar sem krakkar byrjuðu að vinna í verksmiðju, þ.e.a.s. í rækjuvinnslunni, átta eða níu ára gömul. Þegar ég kom hingað að kenna við Háskólasetrið einum 30 árum síðar, þá var enn sama bakarí og Ruth, þá nærri hundrað ára gömul, stóð enn vaktina. Þegar ég kynnti mig fyrir henni og sagði á mér deili, þá bað hún mig um að færa mömmu minni kringlur frá sér, en börn fengu ókeypis kringlur á sunnudögum í bakaríinu á Ísafirði þegar mamma ólst upp. Sumt breytist ekki með tímanum meðan annað tekur stökkbreytingum.
Það hefur margt breyst hér síðan mamma mín var lítil stelpa fyrir 70 árum og það á örugglega margt eftir að breytast á næstu árum og áratugum. Eitt af því sem við ætlum að ræða hér um helgina er byggðastefnan og framtíðin og hvernig VG getur og á að marka spor og leiða vagninn. Ég hlakka til þeirrar umræðu, en á síðasta landsfundi samþykktum við nýja byggðastefnu sem fjöldi félagsmanna mótaði saman.
——————————————————-
Kæru félagar!
Þegar stríð geysa þá brotna prinsipp mannréttinda hratt niður og mennskan dofnar eða jafnvel deyr. Þess vegna er friður svo óskaplega mikilvæg undirstaða. Undirstaða fyrir mannréttindi, fyrir mennsku og gæsku, og fyrir velferð okkar. En líka undirstaða umhverfisverndar og blómstrandi menningar og menntunar. Stríð lama allt. Í mínum huga þarf Ísland að vera boðberi friðar á öllum tímum, og þar finnst mér Katrín Jakobsdóttir hafa skorið sig úr á alþjóðavettvangi.
En ekki bara hefur brotist út stríð í Evrópu á ný, heldur er vegið að grundvallarmannréttindum ákveðinna hópa, sérlega kvenna og hinsegin fólks.
Samkvæmt óháðum sérfræðingi Sameinuðu þjóðanna í málefnum hinsegin fólks, þá hefur orðið skörp aukning í ofstækisfullri orðræðu af hálfu öfgafullra stjórnmálaleiðtoga og trúarhópa í heiminum gegn hinsegin fólki og réttindum kvenna, sérlega er snúa að þungunarrofi. Þessi orðræða er ekki tilviljunarkennd heldur er hér um að ræða vel skipulagðar og fjármagnaðar áætlanir sem hafa það að markmiði að skaða þá sjálfsögðu viðurkenningu og draga úr þeim réttindum sem náðst hafa og tengjast bæði okkur hinsegin fólki og konum.
Ísland mun ekki stoppa stríð heimsins. En Ísland hefur mikið fram að færa á alþjóðavettvangi þegar kemur að mannréttindum. Framsækin þungarrofslöggjöf og lög um kynrænt sjálfræði, ásamt aðgerðaáætlunum í kynferðisbrotamálum, ofbeldismálum og málefnum hinsegin fólks. Þetta er allt eitthvað sem gerist fyrir tilstilli VG í ríkisstjórn. Gleymum svo ekki heldur að leikskólastigið og nýju fæðingarorlofslögin tryggja stóraukin jöfnuð milli kynja og aðgang kynjanna að vinnumarkaði. Í mörgum öðrum löndum, meira að segja í kringum okkur, er þessu ekki að dreifa. Þetta eru bara nokkur dæmi um hvað Ísland getur lagt af mörkum til mannréttindamála og jafnréttis kynjanna á alþjóðavísu.
——————————————
Kæru félagar!
Stærsta verkefni efnahagsstjórnunar á Íslandi í dag er að ná niður verðbólgu. Það er sameiginlegt verkefni. Kjarasamningar eru brátt lausir og aðilar vinnumarkaðarins farnir að brýna kutana. Kaupmáttur hefur aukist mikið á undanförnum árum og Lífskjarasamningarnir færðu láglaunafólki raunverulega betri kjör, ásamt skattkerfisbreytingum með þriggja þrepa skattkerfi sem gerðist fyrir tilstilli VG. En, of margt fólk berst í bökkum, getur ekki látið enda ná saman í lok mánaðar og þarf að neita börnunum sínum um nauðsynjar.
Mín pólitíska sýn er að halda þurfi áfram að bæta kjör láglaunafólks, kjör örorkulífeyrisþega og eldra fólks sem er með lægstu tekjurnar. Það einkennir þau fátækustu í þessum hópum að þau búa á leigumarkaði, oft einstæðir foreldrar. En mig svíður líka undan því kerfisbundna óréttlæti sem felst í að stórar kvennastéttir eru á lægri launum, konurnar í umönnunarstörfunum. Í mikilvægustu störfunum. Hér er aðgerða þörf.
Vel hefur gengið að ná niður atvinnuleysi á undanförnum mánuðum og skortur er á vinnuafli. Innflytjendum fjölgar mjög hratt, auðvitað mestmegnis vegna stríðsins í Úkraínu. Vel hefur gengið að finna vinnu fyrir það ágæta fólk. Eitt af stóru verkefnunum er að sporna gegn félagslegum undirboðum og launaþjófnaði. Launaþjófnaður er auðvitað ekkert annað en grimmileg illska sem bitnar fyrst og fremst á innflytjendum og þeim sem lægst hafa kjörin. Hér er verk að vinna, að ná sameiginlega utan um þetta með aðilum vinnumarkaðarins, og sú vinna heldur áfram.
——————————————
Kæru félagar!
Í takti við dagskrá flokksráðsfundar langar mig að velta upp spurningunni um erindi VG í pólitík dagsins í dag og fyrir framtíðina. Ég hef hugsað talsvert um þetta í tengslum við veru okkar í ríkisstjórn, nú á öðru kjörtímabili. En það er sama hvernig ég sný þessu, og það meikar auðvitað alveg sens, en mér finnst í raun erindi okkar ekki hafa breyst. Við erum enn málsvarar mannréttinda, réttlátara samfélags, og náttúrunnar – og síðan friðar og umhverfisverndar sem eru forsenda alls hins fyrrnefnda.
Kannski er réttara að spyrja hvers vegna við erum í ríkisstjórn, eða í þeirri ríkisstjórn sem við erum í núna. En mikilvægast er hvernig við ætlum og hvernig við erum að tryggja að erindi okkar í pólitíkinni skili sér í ríkisstjórnarsamstarfinu og þar með í jákvæðum breytingum á samfélaginu.
Við erum í pólitík til að hafa áhrif. Og, hin pólitíska lína var heldur betur færð til í rétta átt á síðasta kjörtímabili, auðvitað sérstaklega í þeim málaflokkum sem við í VG bárum ábyrgð á, en líka út fyrir þá. Og, við reyndum að tryggja eins og hægt er að erfitt sé að taka þau skref sem stigin voru til baka. Núna er komið að því að gera slíkt hið sama í fleiri málaflokkum, koma að sterkum vinstri áherslum og sterkum grænum áherslum. Þess vegna erum við í ríkisstjórn.
Ef við byrjum á vinstri málunum, þá færði Svandís Svavarsdóttir hina pólitísku línu svo um munar í þeim hluta velferðarmála sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið, á síðasta kjörtímabili. Þar er hægt að horfa til eflingar heilsugæslunnar, eflingar geðheilbrigðismála, minni greiðsluþátttöku sjúklinga, ekki síst eldra fólks og örorkulífeyrisþega, og margt fleira mætti telja til. Og á yfirstandandi kjörtímabili munum við færa línuna í hinum hluta velferðarmálanna, í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Og, sú vinna er hafin.
Það má spyrja: Hvers vegna stendur fólki með þroskahömlun bara til boða diplómanám í háskólanum? Hvert er réttlætið í því? Börn innflytjenda eru líklegri til að detta út úr námi. Þeim bíða því frekar láglaunastörf. Hvers vegna er ekki regla að vinnustaðir bjóði innflytjendum upp á íslenskunám á vinnutíma? Tungumálið er jú lykillinn að aðlögun í samfélaginu. Það mega ekki verða hér til tvær þjóðir í landinu, önnur láglauna innflytjendur og svo við hin. Við getum virkjað kraftinn, þekkinguna og reynsluna í þeim sem hingað sækja. Fyrir sterkara Ísland. Fyrir sterkara samfélag.
Með vinstrið að vopni í félagsmálunum ætlum við Vinstri græn að ráðast í löngu nauðsynlegar breytingar á örorkulífeyriskerfinu, sem mun gera kerfið sanngjarnara, skiljanlegra og einfaldara. Við ætlum að stórbæta og endurskoða þjónustu við eldra fólk. Við ætlum að auka réttindi fatlaðs fólk með lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og með gerð landsáætlunar í málaflokknum. Og, ég vil sjá vinnumarkað sem er opinn fyrir fjölbreytileika mannlífsins, viðurkennir að við erum ekki öll eins og að við höfum mismunandi þarfir, mismunandi getu, en að við öll eigum okkur vonir og drauma. Ég vil leggja mitt að mörkum til að draumar fleira fólks rætist og horfi ég þar sérstaklega til fatlaðs fólks, örorkulífeyrisþega og innflytjenda.
Í stuttu máli sagt: Samfélagið okkar þarf að tryggja betur jafnræði borgaranna og vera fyrir okkur öll, hvort sem horft er til náms, atvinnu eða annarrar virkni.
Við þessa vinnu er leiðarljósið að vinna að hag þeirra sem minnst hafa, jafna réttindi og tækifæri fólks, hafna mismunun og stuðla að því að fólk geti lifað með reisn. Þess vegna erum við í VG í ríkisstjórn.
——————————————
Kæru félagar!
Það er ekkert launungarmál að það var okkur öllum erfitt að láta umhverfisráðuneytið af hendi. Margir kjósendur mínir hafa spurt mig hvers vegna við gerðum það. Og það er ágætt að fá að svara því hér í hópi félaganna.
Þetta var ekki gert í blindni. Allt síðasta kjörtímabil unnum við að því að færa víglínuna í umhverfismálunum. Loftslagsmálin voru dregin upp úr lágdeyðu undanfarinna ára á undan og komust efst á dagskrá í samfélagsumræðunni. Fjármagn var sett í málaflokkinn, aðgerðaáætlanir unnar og aðgerðum komið til framkvæmda, markmið endurskoðuð og hert, og kolefnishlutleysi lögfest sem fá önnur ríki hafa gert. Og, við byrjuðum að sjá árangur aðgerða.
En, þar með var ekki allt unnið og það vantar sárlega upp á í ákveðnum geirum, geirum sem ekki heyra undir umhverfisráðuneytið, en þar eru sjávarútvegur og landbúnaður efst á blaði. Þess vegna var mikilvægt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, nú matvælaráðuneyti, yrði undir stjórn VG því þarna þarf að taka til og koma aðgerðum í gang. Þetta eru geirar þar sem tæp 40% losunar á beinni ábyrgð Íslands liggja, og með því að færa landnýtingarmálin yfir í þetta ráðuneyti skapast mikil tækifæri til að halda áfram þeirri sókn sem hófst í umhverfisráðuneytinu á síðasta kjörtímabili og snýr að endurheimt vistkerfa, nú í betri tengingu við landbúnaðinn.
Og ef ég vík að náttúruverndinni, þar sem við friðlýstum fjölda svæða, efldum landvörslu og jukum fjármagn til friðlýstra svæða til muna á síðasta kjörtímabili. Stóra baráttumálið okkar, Hálendisþjóðgarðurinn er kominn langt í undirbúningi og kyrfilega um hann búið í stjórnarsáttmála. En okkur varð hins vegar lítið ágengt þegar kemur að verndarsvæðum í hafi. Þar hafa Íslendingar dregið lappirnar í alltof, alltof mörg ár og því verður bara snúið við í sjávarútvegsráðuneytinu sjálfu.
Ég veit ekki með ykkur, en ég treysti VG ráðherra best til að koma skikki á, þar sem mest stendur út af.
Af þessu sést að það er mikilvægt að halda utan um stjórnartaumana í fleiri ráðuneytum en þeim sem við sinntum á síðasta kjörtímabili. Það þarf að færa pólitískar línur, koma vinstri og grænum áherslum til framkvæmda víðar um stjórnarráðið. Og, VG þarf að gera það. Það gera það engin önnur. Þess vegna erum við í ríkisstjórn og þess vegna erum við ekki með sömu ráðuneyti og síðast.
En gleymum því heldur ekki að við erum líka í ríkisstjórn til að passa upp á að hlutir gerist ekki. Við erum varðhundar ákveðinnar hugmyndafræði og stöndum vörð um hana.
Að þessu sögðu, þá er draumaríkisstjórnin mín með stjórnmálahreyfingum sem eru lengra til vinstri og grænni. Og, þar vil ég sjá okkur í framtíðinni.
——————————————
Kæru félagar!
Á morgun munum við ræða í vinnuhópum um VG og framtíðina. Hvar viljum við að Ísland verði eftir 10-20 ár? Hvar sækjum við fram sem stjórnmálaafl?
Ég ætla að leyfa mér að nefna nokkur mikilvæg mál sem ég brenn fyrir, en hlakka annars til umræðunnar á morgun.
Í fyrsta lagi. Við verðum dæmd af komandi kynslóðum fyrir aðgerðir okkar í loftslagsmálum í dag. Sá dómur þarf að verða jákvæður. Fyrir plánetuna okkar. Fyrir okkur mennina og fyrir annað líf á jörðinni. Ef vistkerfi jarðar breytast eins og spáð er vegna loftslagsbreytinga þá mun það hafa í för með sér hörmungar og eyðileggingu á vistkerfum jarðar og þar með möguleikum okkar mannanna til framfærslu. Þurrkar og flóð, tilfærsla tegunda og útdauði, mun fleira umhverfisflóttafólk, o.s.frv., o.s.frv. Um þetta er engum blöðum að fletta. Það að halda loftslagsbreytingum í skefjum og stöðva þær að lokum er því stærsta velferðarmál 21. aldarinnar. Og, lesum nú stjórnarsáttmálann, en í honum kemur fram að við ætlum að setja okkar sjálfstæðu metnaðarfullu markmið, banna olíuleit í efnahagslögsögunni og koma á fullum orkuskiptum og kolefnishlutleysi á næstu 20 árum. Þess vegna erum við í ríkisstjórn.
Í öðru lagi. Ísland eftir 10 ár þarf að hafa náð mun lengra í mannréttindamálum en í dag. Við þurfum að skipa eitt af efstu sætunum á regnbogakortinu, launamunur kynjanna að heyra sögunni til og hvers kyns ofbeldi að hafa minnkað til muna, ekki síst kynferðislegt ofbeldi, en nauðgunarmenning er auðvitað ómenning sem feðraveldið verður að horfast í augu við. Skrefin sem við stígum í dag móta framtíðina og hér höfum við beitt okkur ríkulega í fyrri ríkisstjórn og höldum því áfram í þessari. Þess vegna erum við í ríkisstjórn.
Í þriðja lagi. Þó svo að á Íslandi mælist ein minnsta fátækt í heiminum þá á fátækt ekki að líðast í ríku landi. Börn eiga aldrei að þurfa að líða fyrir fátækt foreldra sinna. Og eftir 10 ár og eftir 20 ár þarf að hafa náðst marktækur árangur. Já, við þurfum áætlun um að draga úr og útrýma fátækt líkt og áætlun í loftslagsmálum. Ég hyggst taka þessi mál til sérstakrar skoðunar á næstu misserum. Þess vegna erum við í ríkisstjórn.
Í fjórða lagi. Eftir 10 og eftir 20 ár verðum við að hafa náð að búa til samfélag sem rúmar okkur öll, samfélag sem tryggir jöfn tækifæri til náms, atvinnu og launa, hvort sem við erum innflytjendur, hinsegin, konur, fatlað fólk, örorkulífeyrisþegar eða aðrir. Samfélagið okkar er ekki þannig í dag. Og, við verðum að breyta því. Þess vegna erum við í ríkisstjórn.
Ég hlakka til umræðunnar um framtíðina á morgun. Maður verður nefnilega að vita hvert maður stefnir til að geta siglt á réttan stað.
Að lokum vil ég þakka starfsfólki VG og Sigríði Gísladóttur, formanni VG á Ísafirði kærlega fyrir skipulagningu og undirbúning fundarins. Ég vil líka þakka VG félögum öllum sem komið hafa um langan veg, sum þvert yfir landið og fórnað hafa vinnudögum og lagt út í umtalsverðan kostnað til að geta mótað stefnu okkar góðu hreyfingar. Þetta er sjálfboðastarf af bestu gerð. Nú er það okkar félagsmanna að nýta fundinn til góðrar umræðu, ígrundunar, sóknar og góðrar samveru.
Ég segi flokksráðsfund Vinstri grænna á Ísafirði settan og býð formanni VG, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að halda hér ræðu sína.