PO
EN

Svandís Svavarsdóttir. Stefnuræða

Deildu 

Virðulegi forseti! Góðir tilheyrendur!

Ráðherra undir forystu Katrínar Jakobsdóttur hefur ekki skort verkefnin. Helstu verkefni mín á síðasta kjörtímabili í heilbrigðisráðuneytinu voru bæði mörg og mikilvæg og þeirra sér víða stað. Erfiðast var þó að eiga við agnarsmáa veiru sem þrátt fyrir smæðina hafði ógnarmikil áhrif. Núna eru úrlausnarefnin á mínu borði önnur en ekki síður þýðingarmikil og teygja sig frá fjöllum, út á haf og niður í undirdjúpin.

Í nýju matvælaráðuneyti er ekki bara fjallað um sjávarútveg, landbúnað, landgræðslu og skógrækt heldur beinum við athyglinni að fæðu og þeim stóru umhverfisþáttum sem voru líka verkefni mitt þegar ég gegndi embætti umhverfis- og auðlindaráðherra á árunum eftir Hrun. Land, loft og lögur eru grundvöllur matvælaframleiðslu og allrar okkar tilveru.

Við höfum stillt saman krafta í ráðuneytinu og vinnum að mörgum spennandi málum: stefnumótun í fiskeldi, endurskoðun búvörusamninga, samþættingu landgræðslu og skógræktar, endurheimt landgæða og mörgu fleiru.

Rauði þráðurinn í öllum okkar störfum er að flétta græna hugsun um árangur í loftslagsmálum inn í alla ákvarðanatöku, auka fæðuöryggi í ljósi átaka á alþjóðavettvangi, stuðla að endurheimt vistkerfa, tryggja gæði og efla nýsköpun í framleiðslu og þróun matvæla.

Við þetta tækifæri langar mig að ræða sérstaklega málefni sjávarútvegsins. Ég hef talað um mikilvægi þess að auka samfélagslega sátt um sjávarútveg og það var í því skyni sem ég setti af stað metnaðarfulla stefnumótun í sjávarútvegsmálum.

Þessi vinna er í fullum gangi og í fyrramálið verður kynnt í samráðshópi um sjávarútveg ítarleg skýrsla um eflingu hafrannsókna. Rannsóknir á hafinu og öllu lífríki þess eru bæði nauðsyn og skylda fyrir þjóð sem ræður yfir einu gjöfulasta hafsvæði heims og við þurfum að skilja betur áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi hafsins til að geta brugðist við þeim.

Þá er mikilvægt að við ræðum gagnsæi, bæði í eignatengslum og í stjórnunartengslum í sjávarútvegi. Ráðstöfun almannagæða og dýrmætra veiðiheimilda verður að vera hafin yfir allan vafa. Hvað þýðir það?

Það þýðir það að fara verður að lögum um hámarksaflahlutdeild, að það sé hafið yfir vafa hverjir séu tengdir aðilar og hvað af því leiðir. Það sé hafið yfir vafa að umgengni um auðlindina sé lögum samkvæmt.

Vafi vekur tortryggni og grefur undan trausti á kerfinu okkar, á stjórnvöldum og á sjávarútveginum sjálfum. Þess vegna kynni ég innan skamms metnaðarfulla vinnu þar sem farið verður vandlegar í saumana á stjórnunar- og eignatengslum en áður hefur verið gert.

En aftur að gagnsæinu: Það er líka mikilvægt að stefnumótun sé gagnsæ og að almenningur eigi þar aðkomu. Ég finn það sem ráðherra málaflokksins, hversu gott það er að fá tækifæri til að  hitta um allt land fólk sem hefur skoðanir og þekkingu á sjávarútvegi. Við þurfum öll sjónarmið að borðinu.

Starfshóparnir sem eru nú að störfum munu í október og nóvember halda opna fundi úti um land þar sem öllum gefst tækifæri til að ræða þessi mál við hópana augliti til auglitis. Og fyrir þau ykkar sem ekki sjá sér fært að mæta þar verður í næstu viku opnuð vefsíða þar sem hægt er að senda hópunum athugasemdir og tillögur. Um leið er safnað á einn stað því mikla efni sem þegar liggur fyrir um sjávarútvegskerfið.

Fyrstu tillögur hópanna munu liggja fyrir á þessu ári og ég hlakka til  að vinna úr þeim. Við blasa ótal áskoranir og sjávarútvegurinn þarf að ná árangri í loftslagsmálum eins fljótt og auðið er. Við þurfum að ræða hversu stórum hluta aflans eigi að ráðstafa á félagslegan hátt og við þurfum að fara yfir gjaldtökuna af sjávarútvegi.

Samfélagsleg sátt um auðlindina hlýtur alltaf að vera síkvik en stuðla þarf að henni með öllum ráðum. Við þurfum að spyrja okkur hvort að gjaldtakan sé sanngjörn, hvort una megi því að greiddur sé út stórkostlegur arður af auðlind okkar og rekstri stórra sjávarútvegsfyrirtækja á sama tíma og lykilstofnunum á borð við Hafró er of þröngur stakkur skorinn. Þessa umræðu þurfum við að vera óhrædd að taka.

Góðir landsmenn, ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur tekist á við stór verkefni undanfarin misseri og tekist margt svo vel að eftir er tekið á alþjóðavísu. Við erum öll með uppbrettar ermar og metnaðarfull markmið. Stórum og stefnumarkandi verkefnum hefur verið ýtt úr vör í mínu ráðuneyti við ætlum að sigla þeim í höfn með hagsmuni ykkar allra að leiðarljósi.

Góðar stundir!

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search