PO
EN

Félagsmálaráðherra styrkir táknmálstúlkun í leikhúsi

Deildu 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt O.N. sviðslistahópi styrk til að standa straum af kostnaði við táknmálstúlkun vegna leiksýningarinnar Eyju sem fer fram bæði á íslensku táknmáli og íslensku raddmáli. Sviðslistahópurinn samanstendur af heyrnarlausu og heyrandi listafólki og setur upp tvítyngdar sýningar – aðgengilegar jafnt fyrir þau sem hafa íslenska tungu og íslenskt raddmál að móðurmáli. Eyja er fyrsta leiksýning sinnar tegundar sem sýnd er í Þjóðleikhúsinu.

Þar sem sviðslistahópurinn er blandaður heyrandi og heyrnarlausu listafólki reyndist nauðsynlegt að hafa táknmálstúlka á öllum æfingum. Styrknum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, 2,4 milljónir króna, er ætlað að standa straum af túlkuninni.

Eyju er lýst sem leikverki um samskipti, föðurmissi og sorgarferli systkina sem tilheyra ólíkum menningarheimum. Óvæntur atburður verður síðan til þess að veröld þeirra snýst á hvolf. Efni verksins er þekkt stef í heimi heyrnarlausra; útskúfun á grundvelli tungumáls og skilningsleysi á ólíkum menningarheimum, um leið og það fjallar um hið sammannlega: Sorgina.

Í verkinu eru skapaðar aðstæður sem heyrnarlausir upplifa oft en þeim snúið við og yfirfærðar á þau sem eru heyrandi. Í einstaka köflum verksins, gefst áhorfendum tækifæri til að setja sig í spor þeirra sem upplifa útskúfun á grundvelli tungumáls og heyrnarlausum áhorfendum gefst afar fágætt tækifæri til að vera þau einu í salnum sem skilja allt sem fram fer, á meðan aðrir skilja ekki. Móðurmálið þeirra verður ráðandi um stund, ólíkt því sem þau upplifa oft í samfélaginu.

Leikverkið er sem fyrr segir sýnt í Þjóðleikhúsinu.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search