Nú á dögunum var fimm ára afmæli núverandi stjórnarsamstarfs. Stjórnartíð ríkisstjórna Katrínar Jakobsdóttur hefur markast af stórum atburðum, örlagastundum. Fyrst og fremst er þar auðvitað heimsfaraldur kórónaveiru, atburður sem setti líf allrar heimsbyggðarinnar í uppnám. Glíma íslensks samfélags við þennan vágest gekk vel. Eftir því var tekið bæði hér heima og víða um heim að okkur lánaðist sem samfélag að halda hópinn í gegnum verkefnið og er full ástæða til að við séum stolt af þeim eiginleikum sem íslenskt samfélag sýndi á þessum örlagatímum. Einhugur undir álagi, einhugur um að vernda líf og heilsu almennings.
Félagslegur stöðugleiki
Fleiri atburðir hafa verið stórir á þessum tíma. Þannig voru lífskjarasamningarnir sem undirritaðir voru árið 2019 tímamótasamningar. Fyrir allan þorra almennings eru kjarasamningar einhverjar mikilvægustu ákvarðanir sem teknar eru. Ákvarðanir um kaup og lífskjör almennings, skipting milli vinnandi fólks og fjármagns. Stjórnvöld höfðu aðkomu að lífskjarasamningum á sínum tíma og lögðu sitt af mörkum til að aðilar vinnumarkaðarins næðu saman. Með kjarasamningum sem tryggja viðvarandi kaupmáttaraukningu á Íslandi er félagslegur stöðugleiki best tryggður. Það tókst. Réttlátar breytingar á skattkerfi færðu líka þeim hópum sem höfðu lægstar atvinnutekjur kaupmáttaraukningu umfram tekjuhærri hópa. Um þessar breytingar var einhugur í ríkisstjórn, að tryggja félagslegan stöðugleika til lengri tíma. Mikilvægar vörður hafa verið reistar í þágu mannréttinda á Íslandi á síðustu árum, með bættri réttindastöðu hinsegin fólks og sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama.
Styðjum réttlátan málstað
Á nýju kjörtímabili birtust svo nýjar áskoranir og nýir atburðir. Fólskuleg innrás Rússa í Úkraínu hefur sett heimshagkerfið úr hlutlausum í bakkgír með tilheyrandi áhrifum á íslenskt efnahagslíf. Kúvending er að eiga sér stað í alþjóðastjórnmálum og heimsmyndin hefur breyst hraðar síðustu mánuði en nokkurn óraði fyrir ári áður. Á þessum tímapunkti er ógjörningur að segja til um hver áhrifin verða til lengri tíma annað en að þau verða mikil. Þessir atburðir hafa haft mikil áhrif á hagstjórn hér innanlands og er til mikils að vinna fyrir íslenskan almenning að verðbólgudraugurinn verði kveðinn niður sem fyrst. En það mikilvægasta af öllu er að styðja við réttláta frelsisbaráttu úkraínsku þjóðarinnar í orði og á borði. Um það er einhugur.
Í bakgrunninum hljómar svo stigvaxandi bumbusláttur loftslagsbreytinga. Teiknin eru á lofti og tíminn er á þrotum. Ef við ætlum ekki að dæma komandi kynslóðir til verri lífskjara þurfum við að vinna hratt og vinna saman. Það verkefni er of stórt til að mistakast. Um það verður líka að vera einhugur.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.