Search
Close this search box.

Ljósleiðarinn. Ræða í borgarstjórn.

Deildu 

Forseti, ágæta borgarstjórn.

Fyrir rétt rúmum 100 árum eignðust Reykvíkingar rafmagnsveitu, þegar bæjarstjórnin lét virkja Elliðaárnar og veitti orkunni til bæjarins. Það var alls ekki sjálfgefið árið 1921 að líta svo á að rafmagnsframleiðsla fyrir heimili og fyrirtæki væri samfélagslegt verkefni sem væri á verksviði sveitarfélags. Raunar voru slík rök alls ekki notuð til að réttlæta fjárfestinguna. Smásala á rafmagni var fyrst og fremst talin myndu gefa fyrirtækinu hagnaðarvon sem aftur gæti staðið undir virkjuninni. Hið óumdeilda hlutverk bæjarfélagsins (og þar með réttlætingin fyrir virkjuninni) var hins vegar götulýsingin. Götur Reykjavíkur væru óumdeilt á ábyrgð bæjarstjórna og þar af leiðandi bæri henni að tryggja að um þær væri fært í myrkri.

Reykvíkingar voru ekki ókunnir rafmagni þegar straumurinn frá Elliðaánum tók að berast. Í bænum voru allnokkrar einkarafstöðvar – oftar en ekki starfræktar í tengslum við atvinnufyrirtæki á borð við trésmiðjur eða vélsmiðjur. Sumar sáu fyrst og fremst eigendum sínum fyrir orku, en aðrar voru hreinlega reknar eins og fyrirtæki: með stóran viðskiptavinahóp, hátt þjónustustig og flóknar verðskrár. Þessum einkastöðvum var gert að hætta rekstri í tengslum við stofnun Rafmagnsveitunnar og byggðist það á ákvæðum sem sett höfðu verið inn í starfsleyfi þeirra af mikilli framsýni.

Stærri hindrun í veginum var þó rekstur Gasstöðvarinnar, sem var í höndum þýsks einkafyrirtækis er fengið hafði einkaleyfi frá bænum til gasframleiðslu og -sölu. Virkjun Reykjavíkur stangaðist á við gildandi samninga og var því gripið til þess ráðs að Reykjavíkurbær nýtti heimildir til að leysa til sín Gasstöðina árið 1916 – sem varð auðveldara en ella þar sem fyrri heimsstyrjöldin stóð hvað hæst og þýska fyrirtækið átti erfitt með að uppfylla skyldur sínar vegna stríðsins.

Því er þetta rifjað hér upp í umræðum um málefni Ljósleiðarans að tæknisaga Íslands í meira en heila öld hefur alla tíð einkennst af togstreitu og síbreytilegum hugmyndum um hver séu eðlileg mörk einkareksturs eða samfélagslegs reksturs. Það er ekki innbyggt í tæknikerfi að þau hljóti að vera álitin samfélagsleg og því eðlilegt viðfangsefni ríkisvalds og sveitarfélaga eða hvort þau séu talin betur stödd í höndum markaðarins og einkaframtaksins. Það er áhugavert að fyrstu íslensku vatnsveiturnar, sem eru líklega það tæknikerfi sem flest telja sjálfsagt að sé í samfélagsrekstri, voru í höndum einkarekinna vatnsveitufélaga. Sama gildir um símann, þar sem einkafyrirtækið Telefónfélag Reykjavíkur hafði verið starfrækt um innanbæjarkerfi og línu til Hafnarfjarðar áður en Landsíminn kom til sögunnar. Og áður en ríkissjóður hóf rekstur útvarps árið 1930 höfðu heilar tvær einkareknar útvarpsstöðvar verið starfræktar hér á landi – og sú síðarnefnda var raunar þvinguð til að láta af störfum þegar Ríkisútvarpið kom til.

Frá einu landi til annars hafa tæknikerfi þróast með ólíkum hætti. Þegar kemur að raforkukerfum komust meginlandsbúar og þá Þjóðverjar sérstaklega mjög snemma að þeirri niðurstöðu að miðstýrt raforkukerfi í opinberri eigu væri málið á meðan Bretar og Bandaríkjamenn kusu fremur að veðja á einkafyrirtæki, jafnvel fjölmörg í einu og sömu borginni sem ráku veitukerfi sín hvert í kapp við annað. Mótun og yfirbragð tæknikerfanna á hverjum stað tóku mið af þeim ákvörðunum sem teknar voru á hverjum stað varðandi rekstrarform.

Það var gæfa Reykvíkinga og til marks um framsýni stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur á síðustu öld þegar ákveðið var að líta á ljósleiðaranet sem kerfislægt innviðakerfi sem myndi innan skamms tíma verða jafnmikilvægt fyrir þorra almennings og fyrirtækja og þau veitukerfi sem fyrirtækið rak þá þegar. Þetta var ekki óhjákvæmileg niðurstaða því á sama tíma var við völd hægristjórn í landinu sem leynt og ljóst vann að því að koma ríkinu út úr rekstri á þessu sviði og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sá um langt árabil ofsjónum yfir starfsemi þessari, fann henni allt til foráttu og notaði hvert tækifæri til þess að kalla eftir niðurlagningu eða einkavæðingu.

Það er auðvitað alltaf erfitt að fullyrða um hver þróun mála hefði orðið ef aðrar tæknilegrar ákvarðanir hefðu verið teknar í fortíðinni, en raunin er þó sú að á Íslandi hefur kostnaður við fjarskiptaþjónustu verið samkepnishæfur við nágrannalöndin, sem á vægast sagt ekki við á öllum sviðum efnahagslífsins. Staða ljósleiðaravæðingar hér á landi samanborið við nágrannalöndin, Norðurlöndin jafnt sem Evrópusambandið sem heild, er Íslendingum mjög í hag. Hlutfall heimila með ljósleiðara alla leið inn á heimilið hefur verið hæst hérlendis og langtum hærra en t.d. í Danmörku. Þetta hefur leitt til aukinna lífsgæða almennings og styrkt stöðu atvinnufyrirtækja á fjölmörgum sviðum.

Ég tel að við Reykvíkingar megum vera stolt af Ljósleiðaranum og þætti þessa fyrirtækis okkar í því að koma fjarskiptakerfi lansins á þann stað sem nú er. Þeir sigrar sem unnist hafa eru mikilvægir og um þá ber að standa vörð. Og sú varðstaða hefur ekki alltaf verið auðveld því samkeppnisaðilar Ljósleiðarans hafa í sífellu sótt að honum fyrir dómstólum og eftirlitsstofnunum.

Því miður verð ég að segja að þær slitróttu fréttir sem borist hafa af áformum Orkuveitunnar um hlutafjáraukningu í Ljósleiðaranum, sem myndi að öllum líkindum leiða af sér blandað eignarhald sveitarfélaganna í gegnum Orkuveituna annars vegar og nýrra fjárfesta – hverjir sem þeir kunna að vera – hins vegar, valda áhyggjum. Ljóst er að áformin eru ekki til komin af nauðsyn í tengslum við að styrkja þjónustu á starfsvæði Orkuveitunnar.

Hlutafjáraukningin virðist nefnilega nær alfarið hugsuð til þess að ráðast í ljósleiðaraverkefni utan starfssvæðis Orkuveitunnar og þeirra sveitarfélaga sem að henni standa. Kveikjan að þeim verkefnum virðist fyrst og fremst vera sú að mæta raunverulegum eða ímynduðum óskum eftirlitsstofnanna um að fyrirtækið taki að sér að vera samkeppnislegt aðhaldsafl við Mílu sem er komin í eigu fransks fjárfestingarsjóðs.  Fyrirtækið á þannig að fórna sér í það verkefni að bæta úr þeim einkavæðingarmistökum sem hægristjórnir áranna í kringum aldamót stóðu fyrir.

Afar óvíst er að þessar landsbyggðarfjárfestingar muni bera sig, enda – ef sú væri raunin – myndi liggja beinast við að sjálfstætt félag yrði stofnað um þann hluta. En sú leið virðist ekki njóta hylli sem er skýr vísbending um að verkefnið þyki ekki fýsilegt. Hin rökin sem færð hafa verið fyrir þessari rástöfun ganga helst út á efasemdir um að eftirlitsstofnanir hérlendis eða erlendis muni til lengdar fella sig við að fyrirtæki á borð við Ljósleiðarann muni til langframa vera í eigu fyrirtækis í opinberri eigu og sem hefur fjárhagslegan styrk frá samkeppnisrekstri.

Þarna teljum við í Vinstri grænum í fyrsta lagi að um sé að ræða uppgjöf, þar sem verið sé að gefa sér óhagstæða niðurstöðu í þrefi sem nú þegar hefur staðið um langt árabil og þar sem sjónarmið þeirra sem styðja núverandi fyrirkomulags hafa til þessa einatt orðið ofan á. Og hins vegar þá myndu þessi rök einungis leiða að þeirri niðurstöðu að rétt sé að selja Ljósleiðarann að öllu leyti – því öll rökin um að aðkoma opinberra aðila sem bakhjarl að rekstrinum eiga jafnmikið við þótt að minnihluti félagsins sé kominn í eigu einkaaðila og raunar enn frekar, þar sem ljóst er að minnihlutaeigendurnir væru í þessum rekstri útfrá hreinum gróðasjónarmiðum. Ef hugsunin á bak við hlutafjáraukninguna er í raun að koma félaginu alfarið úr samfélagslegri eigu væri heiðarlegra að segja það hreint út!

Það klingja viðvörunarbjöllur í kringum þetta mál allt saman og þær minnka ekki við þá leynd sem verið hefur í kringum það. Það er vont í samfélagslegum rekstri ef ekki er hægt að ræða málefni viðkomandi félaga frjálst og fyrir opnum tjöldum á vettvangi kjörinna fulltrúa eigenda þerra. Og ef horft er til reynslunnar af þessu tiltekna máli, hvernig halda menn þá að staðan yrði ef búið væri að hleypa öðrum hluthöfum að félaginu og taka yrði tilllit til verndar minnihlutaeigenda að auki? Hætt er við að jafnvel ennþá minna fengist rætt hér í þessum sal tengt fyrirtækinu.

Ég spyr mig einnig hvort staðan sem við okkur blasir sé ekki vísbending um að boðleiðirnar séu orðnar of langar milli borgarstjórnar og dótturfyrirtækja Orkuveitunnar, sem lúta stjórnum sem eru mikið til skipaðar starfsmönnum fyrirtækisins sjálfs? Og hvort þær stjórnir séu ekki farnar að ganga ansi langt í að ákveða sjálfar hvenær ákvarðanir þeirra kunna að ganga gegn eigendastefnu fyrirtækisins? Í þessum efnum líkt og í barnauppeldi gildir að setja börnunum þá skýru reglu að það er betra að koma of oft en of sjaldan til að biðja um leyfi.

Stefán Pálsson, varaborgarfulltrúi VG í Reykjavík.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search