PO
EN

Skilvirkara eftirlit með brottkasti

Deildu 

Ný­lega samþykkti ég til­lögu Fiski­stofu um að gera kerf­is­bundið mat á um­fangi brott­kasts á Íslands­miðum. Fram til þessa hafa gögn um um­fang þess verið tak­mörkuð. Kallað hef­ur verið eft­ir úr­bót­um í þess­um efn­um. Mat­væla- og land­búnaðar­stofn­un Sam­einuðu þjóðanna (FAO) hef­ur gagn­rýnt að tak­mörkuð gögn liggi fyr­ir um hversu mikl­um afla sé hent á Íslands­miðum. Stofn­un­in áætl­ar að brott­kast hafi verið 10,8% af al­heimsafla árin 2010 til 2014. Fiski­stofa og Haf­rann­sókna­stofn­un hafa átt í sam­starfi um sýna­tök­ur vegna stærðartengds brott­kasts síðan árið 2001 og benda niður­stöður til að brott­kast sé um 3-5%. Það kann að vera van­mat.

Gögn skort­ir

Í út­tekt sem Rík­is­end­ur­skoðun gerði árið 2018 á starf­semi Fiski­stofu kom m.a. fram að eft­ir­lit stofn­un­ar­inn­ar með brott­kasti væri veik­b­urða og ómark­visst og raun­veru­leg­ur ár­ang­ur þess óljós þar sem hvorki liggi fyr­ir skýr ár­ang­urs­mark­mið eða ár­ang­urs­mæli­kv­arðar. Rík­is­end­ur­skoðun benti jafn­framt á að Haf­rann­sókna­stofn­un hefði ekki rann­sakað teg­unda­háð brott­kast í rúm­an ára­tug og að auki hefði gagna­söfn­un um lengd­ar­háð brott­kast dreg­ist sam­an und­an­far­in ár. Einnig hef­ur eft­ir­lit með brott­kasti verið tak­markað og því erfitt að meta um­fang þess.

Fiski­stofa brást við gagn­rýni FAO og Rík­is­end­ur­skoðunar og hóf eft­ir­lit með drón­um árið 2021. Við það fjölgaði brott­kasts­mál­um ört eða úr u.þ.b. 10 mál­um á ári í 142 mál fyr­ir lok nóv­em­ber 2021. Brott­kast er ekki sér­ís­lenskt viðfangs­efni. Að mati FAO er brott­kast veru­leg áskor­un á alþjóðavett­vangi og hef­ur áhrif á þá slæmu stöðu sem marg­ir fiski­stofn­ar eru í á heimsvísu. Á tím­um þar sem fjöldi fólks sem býr við skert fæðuör­yggi fer í sögu­leg­ar hæðir er aug­ljóst að draga þarf úr brott­kasti og búa þarf til verðmæti úr öll­um fiski sem veiðist. Við höf­um ekki efni á mat­ar­sóun í heimi þar sem millj­arður sofn­ar svang­ur á hverj­um degi.

Skil­virk­ara eft­ir­lit skil­ar ár­angri

Með þessu nýja verk­efni verða stig­in næstu skref, töl­fræði verður nýtt til þess að þróa skil­virk­ari aðferðafræði til að leggja mat á raun­veru­legt um­fang brott­kasts. Þó að ekki liggi fyr­ir bein­ar mæl­ing­ar á brott­kasti má áætla það með því að kanna mun á veiðiferðum með og án veiðieft­ir­lits­manna. Niður­stöður munu einnig nýt­ast öðrum stofn­un­um, t.d. Haf­rann­sókna­stofn­un, í því að meta áhrif brott­kasts á stofn­stærð. Þá munu koma fram vís­bend­ing­ar um hvort brott­kast sé mis­mun­andi eft­ir veiðarfær­um, svæðum eða teg­und­um. Gagn­sæi og gagna­drif­in ákv­arðana­taka verða til þess að varpa ljósi á hvar við get­um gert bet­ur. Í bráðabirgðatil­lög­um „Auðlind­ar­inn­ar okk­ar“ er lögð áhersla á að skapa hvata til þess að all­ur fisk­ur komi að landi. Til þess að geta skapað hvata þurf­um við að vita um­fangið. Skil­virkt eft­ir­lit skil­ar ár­angri.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search