Við Hafnfirðingar erum ekki ríkir af votlendi. Það sem einkennir bæjarlandið er hraun, holt og melar, en nánast ekkert votlendi. Segja má að Hafnarfjörður sé heldur þurr á yfirborðinu þótt við vitum að vatnið renni undir hrauninu. Þó er að finna leifar af fornum mýrum í Bleiksmýri og Krýsuvíkurmýri í Krýsuvík sem báðar eru framræstar að mestu. En annað votlendi eru nú að mestu horfnar undir byggðina; götur, hús og önnur mannvirki, fyrir utan Ástjörn auðvitað.
Vernd og endurheimt votlendis er lykilaðgerð íslenskra stjórnvalda í baráttunni gegn hlýnun loftslags. Þar gegna sveitarfélögin lykilhlutverki og Hafnarfjörður er þar engin undatekning. Fyrir fáeinum árum var hafist handa við að endurheimta lítinn hluta mýranna í Krýsuvík við Arnarfell. Vonandi hefur vel tekist til en við þurfum að ganga lengra og ljúka verkinu með því endurheimta það sem unnt er á svæðinu. Jafnframt þarf að verja annað votlendi innan bæjarmarkanna fyrir frekara raski og leitast við að tryggja heilbrigði þess.
Varðandi Ástjörn. Hún er friðlýst sem einstakt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Okkur Hafnfirðingum er falið að gæta hennar en hún er að sjálfsögðu ekki einkamál okkar. Og nú er sótt að Ástjörn með byggingaráformum sem ógna lífríki hennar. Þau áform á vitanlega að stöðva og leggja fremur drög að stækkun friðlandsins og helgunarsvæði þess. Öðruvís bregðumst við hlutverki okkar.
Ágætu Hafnfirðingar til hamingju með alþjóðlegan dag votlendis.
Davíð Arnar Stefánsson, sérfræðingur á sviði sjálfbærni og loftslags hjá Landgræðslunni og oddviti VG í Hafnarfirði.