PO
EN
Search
Close this search box.

Ræða á flokksráðsfundi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Deildu 

Kæru félagar.

Stór hluti hins almenna vinnumarkaðar samdi til rúmlega eins árs núna fyrir áramótin. Það var virkilega ánægjulegt. Hins vegar geysar nú hörð kjarasamningsdeila milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, sem ekki sér fyrir endann á. Barátta fólks fyrir bættum kjörum, ekki síst þeirra sem minnst bera úr bítum er og verður ávallt mikilvæg. Samkomulag Eflingar og ríkissáttasemjara um að bíða niðurstöðu Landsréttar er mikilvæg að mínu mati, og að sama skapi að leikreglur séu virtar.

Ég hef lagt á það áherslu sem vinnumarkaðsráðherra að bæta þurfi kjör hinna lægst settu, leiðrétta launamun kynjanna og vinna gegn félagslegum undirboðum og launaþjófnaði. Þetta þurfa ráðherrar og ríkisstjórn að gera með því að breyta lögum og stuðningskerfum. Við höfum stigið mikilvæg skref í þá átt nú þegar á þessu kjörtímabili, með umtalsverðri hækkun húsaleigubóta á síðasta ári og aftur um síðustu áramót, hækkun barnabóta og áframhaldandi öflugri uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu sem er mikilvægur liður í að tryggja húsnæðisöryggi tekjulægri heimila. Í forsætisráðuneytinu er vinna í gangi varðandi launamun kynjanna og ég hef lagt fram frumvarp á Alþingi sem tekur á félagslegum undirboðum og launaþjófnaði.

Mig langar hins vegar til að sjá vinnumarkaðinn mun opnari fyrir margbreytileika fólks. Vinnumarkaður sem lítur til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, til samnings Sþ um réttindi fatlaðs fólks og vinnumarkaður sem er tilbúinn til að leggja það á sig að taka eitt skref í viðbót til að fleiri geti tekið þátt.  

Kæru félagar.

Þjóðin er að eldast. Í dag eru um 6.000 manns 85 ára og eldri en eftir 30 ár verða það 22.000 manns. Ljóst er að ekki verður hægt að mæta þeirri fjölgun með sífellt fleiri hjúkrunarrýmum, enda er það gegn stefnu okkar um að fólk fái að eldast heima hjá sér, það er dýrt og það er óhagkvæmt. Starfshópur er að störfum undir stjórn Ólafs Þórs Gunnarssonar og núna í vor munum við heilbrigðisráðherra leggja fram þingsályktunartillögu undir heitinu Gott að eldast, sem varðar veginn til breytinga á þjónustu við eldra fólk. Markmiðið er að fólk geti búið lengur heima hjá sér, að þjónusta verði fjölbreyttari, meðal annars aukin dagþjálfun og endurhæfing, auknar forvarnir og heilsuefling fyrir líkama og sál.

Þetta verkefni, góðir félagar, er umfangsmikil kerfisbreyting sem hefur alla burði til að breyta þjónustu við eldra fólk til langs tíma og svo um munar til batnaðar. Það eru svona breytingar sem Vinstri græn ráðast í. Vegna þess að þær skipta máli fyrir fólk og fyrir samfélagið.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search