PO
EN
Search
Close this search box.

Ályktanir flokksráðsfundar VG 11. febrúar 2023

Deildu 

Almenn stjórnmálaályktun

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði þann 11. febrúar, áréttar mikilvægi þess að stjórnvöld móti stefnu um nýtingu vindorku sem byggir á breiðri sátt, virðingu fyrir viðkvæmri náttúru og samfélagslegum áhrifum og sem kveði á um gjaldtöku af þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar. Mikilvægt er að arður af þessari auðlind renni í sameiginlega sjóði þjóðarinnar eins og önnur auðlindagjöld. Vindorkuver eiga að falla undir lög um rammaáætlun og brýnt að ekki verði ráðist í uppbyggingu vindorkuvera, annarra en þeirra tveggja sem þegar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, fyrr en stefna um nýtingu vindorku liggur fyrir. Þá þarf að tryggja að öll viðbótarorka sem kann að verða framleidd renni til innlendra orkuskipta. Leggja skal áherslu á að opinber orkufyrirtæki á borð við Landsvirkjun njóti forgangs þegar kemur að nýtingu orkuauðlinda okkar. Tryggja þarf afhendingaröryggi sem og neytendavernd til að koma í veg fyrir hækkun raforkuverðs til almennra neytenda og smærri og meðalstórra innlendra fyrirtækja.

Fundurinn brýnir stjórnvöld í baráttunni gegn loftslagsvánni, þar sem orkuskipti gegna mikilvægu hlutverki en nægja ekki ein og sér til að Ísland nái metnaðarfullum markmiðum sínum um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040 og 55% samdrátt í losun á eigin ábyrgð fyrir 2030. Ísland á að vera leiðandi í baráttunni, innleiða hringrásarhagkerfi sem kallar á breyttar neyslu- og ferðavenjur og sækja fram í kolefnisbindingu með náttúrulegum lausnum. Eins þarf að styðja við hraða tækniþróun lausna við föngun og förgun koltvísýrings á landi og sjó. Fundurinn lýsir yfir ánægju með samvinnu stjórnvalda og atvinnulífsins í að setja markmið um samdrátt í losun í hverri atvinnugrein fyrir sig og minnir á nauðsyn þess að allar aðgerðir í baráttunni miði að réttlátum umskiptum og félagslegu réttlæti. Fundur ítrekar mikilvægi þess að banna olíuleit og olíuvinnslu í íslenskri efnahagslögsögu sem allra fyrst.

Fundurinn fagnar áherslum sem birtust í stuðningsaðgerðum ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í desember sl. og endurspegla áherslur sem birtust í stuðningi stjórnvalda vegna aukinnar verðbólgu í sumar og í fjárlögum þessa árs og styðja við lífskjör lág- og millitekjufólks, barnafjölskyldur og verja viðkvæmustu hópa samfélagsins. Fundurinn fagnar sérstaklega breytingum á húsnæðis- og barnabótakerfum sem kynntar voru í tengslum við kjarasamninga og efla bæði kerfin til muna með hærri greiðslum og minni skerðingum auk þess sem barnabætur munu ná til meira en 3000 fleiri fjölskyldna en áður. Þá eru markvissar aðgerðir í húsnæðismálum mikilvægar, með uppbyggingu í almenna íbúðarkerfinu í gegnum aukin stofnframlög, og ekki síður sú langtímasýn sem birtist í gerð fyrsta rammasamkomulagsins í húsnæðismálum á milli ríkis og sveitarfélaga sem kveður á um byggingu meira en 30.000 íbúða á næstu árum. Aukið framboð íbúða fyrir alla tekjuhópa er forsenda þess að hægt sé að tryggja meiri jöfnuð og öryggi fólks í húsnæðismálum.

Fundurinn lýsir yfir ánægju með skref sem tekin voru til að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda á Alþingi fyrir jól en ítrekar afstöðu sína að ganga verði lengra í að tryggja öryggi og stöðu leigjenda, en nauðsyn þess sást skýrt í nýlegri umræðu um gífurlegar hækkanir Ölmu leigufélags og ljóst er að það er ekki eina leigufélagið sem fer fram með óverjanlegum hætti gagnvart lífskjörum og stöðu fólks á leigumarkaði. Á þessu þarf að taka og fundurinn hvetur til þess að settar verði skýrari lagareglur um leigumarkaðinn þar sem verði meðal annars kveðið á um bremsu á hækkun leiguverðs. Vinstrihreyfingin – grænt framboð styður baráttu þeirra sem berjast fyrir bættum kjörum, ekki síst þeirra sem vilja hækka lægstu launin í samfélaginu. Launaþjófnað verður að gera refsiverðan eins og annan fjárdrátt og þjófnað.

Fundurinn lýsir yfir stuðningi við vinnu félags- og vinnumarkaðsráðherra í endurskoðun á þjónustu og afkomutryggingarkerfi endurhæfingar- og örorkulífeyrisþega og fagnar skrefi sem þegar hefur verið tekið með tvöföldun frítekjumarks sem ekki hafði verið hækkað frá 2009. Það er fagnaðarefni að loks hreyfist þessi mál áfram eftir áratugalanga kyrrstöðu sem bitnað hefur á lífskjörum örorkulífeyrisþega. Þá er mikilvægt að ljúka vinnu við heildstæða stefnu um bætta þjónustu við eldra fólk.

Almannaþjónustan hefur aldrei verið mikilvægari og brýnt er að haldið verði áfram að efla hið opinbera heilbrigðiskerfi, stytta biðlista eftir nauðsynlegri læknisþjónustu og draga úr kostnaði sjúklinga. Áfram þarf að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu. Mönnun í kerfinu verður eitt stærsta viðfangsefni komandi ára og þar þarf að tryggja samvinnu menntakerfisins- og heilbrigðiskerfisins. Hraða þarf innleiðingu farsældarlaganna og tryggja þannig hag allra barna í íslensku samfélagi.

Fundurinn lýsir áhyggjum af fjármögnun íslenskra háskóla. Háskólarnir eru undirstöðustofnanir í þekkingarsamfélagi og á sama tíma og vel hefur tekist til með að styðja við samkeppnissjóði í rannsóknum og nýsköpun og stuðningur við atvinnulífið á þessu sviði hefur verið stóraukinn þarf að huga að undirstöðunum.

Fundurinn fagnar að málefni íslenskrar tungu séu tekin föstum tökum með stofnun ráðherranefndar um íslensku. Áframhaldandi stuðningur við þróun máltækni og að við getum talað við tækin okkar á íslensku er lykilþáttur í vernd tungumálsins. Þá er nauðsynlegt að auka aðgang innflytjenda að íslenskukennslu, á kostnað atvinnurekenda, á vinnutíma án launataps. Fundurinn brýnir bæði hið opinbera og atvinnulífið til að sinna þessum málum af ábyrgð og að gefa innflytjendum raunveruleg tækifæri til að nýta menntun og reynslu sína þegar ráðið er í störf. Íslenskt samfélag fer á mis við að njóta hæfileika fólks sem hingað flytur til fulls eins og sést á tölum um menntun og atvinnuþátttöku innflytjenda. Hlutfall innflytjenda með háskólapróf er talið vera 40% eða hærra en á sama tíma er talið að um 45% erlendra kvenna sinni störfum þar sem menntun þeirra nýtist þeim ekki. Fundurinn fagnar vinnu sem hafin er við heildstefnumótum í málefnum innflytjenda og ítrekar mikilvægi þess að finna leiðir sem gefa fólki sem hingað flytur til að taka þátt í samfélaginu tækifæri til að blómstra á eigin forsendum. Þá er nauðsynlegt að auka tækifæri fólks sem býr utan EES-svæðisins á að flytjast til Íslands með því að rýmka reglur um dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku fyrir þann hóp.

Miklu skiptir að koma fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga í farsælan farveg og þörf er á heildarendurskoðun á fyrirkomulagi þeirra, þar með talið Jöfnunarsjóði og tekjustofnum. Ljúka þarf fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fundurinn fagnar fyrirætlunum um sjálfstæða Mannréttindastofnun.

Fundurinn telur stefnumótun matvælaráðherra undir formerkjum Auðlindarinnar okkar vera stærstu skref í átt að aukinni sátt um sjávarútveg í langan tíma. Fundurinn hvetur matvælaráðherra til að halda áfram að byggja stefnumótun á grundvelli sjónarmiða sjálfbærrar þróunar, vísinda og þekkingar. Þannig sé best komið til móts við þá djúpstæðu tilfinningu um óréttlæti sem ríkt hefur um fiskveiðistjórnun Íslendinga um áratugaskeið. Auka þarf aflaheimildir í 5,3% hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins með byggðatengdum heimildum og strandveiðum.

Fundurinn brýnir stjórnvöld til að vinna gagngerar og heildstæðar umbætur í fiskeldismálum. Fundurinn lýsir ánægju með ákvörðun matvælaráðherra að óska eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar og nýta hana til þess að kafa ofan í stöðu málaflokksins og búa til grundvöll til að ráðast í úrbætur og byggja þannig upp atvinnugrein sem rekin er á grundvelli sjálfbærni – í sátt við umhverfi, samfélag og efnahag.

Ályktun um útlendingamál

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn þann 11. febrúar 2023 fagnar því að heildarstefnumótun í málefnum innflytjenda sé hafin. Mikilvægt er að henni verði flýtt og að henni lokinni verði skoðaðar breytingar á löggjöf um útlendinga og löggjöf um málefni innflytjenda. Skal sú vinna fara fram í þverpólitísku samráði, líkt og þegar núgildandi lög um útlendinga voru sett á sínum tíma.

Flokksráðsfundur leggur til að lögum um atvinnuréttindi útlendinga verði breytt eins fljótt og auðið er þannig að þau sem fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fái jafnframt atvinnuleyfi. Jafnframt hvetur flokksráð þingmenn VG til að vinna að frekari breytingum á frumvarpi dómsmálaráðherra sem nú liggur fyrir Alþingi.

Ályktun um stofnun þjóðgarðs á hálendinu

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn þann 11. febrúar 2023 leggur áherslu á að vinnu við stofnun þjóðgarðs á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu verði flýtt eins og hægt er.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: ,,Stofnaður verður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð…“. Ríkisstjórnin sem nú situr er að nálgast það að vera hálfnuð með kjörtímabilið og því mikilvægt að stofnun þjóðgarðsins komist á dagskrá sem allra fyrst.

Ályktun um veiðigjöld

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 11. febrúar 2023 leggur áherslu á hækkun veiðigjalda á sjávarútvegsfyrirtæki, þar sem sérstaklega er tekið tillit til smærri útgerða. Undanfarin ár hafa reynst mjög gjöful fyrir sjávarútvegsfyrirtæki og afkoma batnað verulega samkvæmt árlegum tölum Hagstofunnar. Ljóst er að staða sjávarútvegsfyrirtækja er mun betri nú en þegar núverandi hlutfall veiðigjalds var ákveðið og því tímabært að hækka það til samræmis. Sjávarútvegur gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi en það er sanngirnismál að arðinum sem sprettur af nýtingu sameiginlegrar auðlindar í eigu þjóðarinnar sé skipt á réttlátari hátt en nú er.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search