Search
Close this search box.

Stefnur samþykktar á landsfundi 2023

Deildu 

Hér að neðan eru birtar stefnur þær sem samþykktar voru á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem haldin var dagana 17.-19. mars 2023 í Hofi á Akureyri. Stefnurnar verða birtar á forsíðu vg.is undir liðnum „Stefnumál“ hér að ofan á næstu dögum.

Birt með fyrirvara um lokayfirlestur ritstjórnar þ.e. það gætu verið einstaka innsláttarvillur í skjölunum.

Málefni hinsegin fólks

Fólk á að njóta fullra réttinda í samfélaginu óháð því hvernig það skilgreinir sig. Í mörgu hefur réttarstaða hinsegin fólks verið löguð og réttindi þess aukin en margt er enn óunnið. Gera þarf gangskör til að uppræta fordóma, útskúfun og ofbeldi í garð hinsegin fólks og það á að vera metnaðarmál að ráðast í kerfislegar og samfélagslegar breytingar sem bæta líf og tilveru þess. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur höfuðáherslu á jafnræði fólks í millum og að vera í virku samtali við hinsegin samfélagið í þeirri vinnu. Markmið íslenskra stjórnvalda á að vera að koma Íslandi efst á Regnbogakort ILGA-Europe.

Rík áhersla hefur verið lögð á í vinnu hreyfingarinnarað bæta stöðu hinsegin fólks með ýmiss konar lagasetningu eins og t.d. lög um kynrænt sjálfræði og lög um atvinnuöryggi trans fólks og skal áfram haldið á sömu braut. Málefni hinsegin fólks skulu ávallt höfð með í þeim samfélagsbreytingum sem hreyfingin vinnur að enda verður jöfnuði ekki náð fyrr en hinsegin fólki verða tryggð aukin tækifæri og sjálfsögð réttindi á Íslandi.

  • Stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, eiga að setja sér skýra stefnu í málefnum hinsegin fólks og gera tímasetta aðgerðaráætlun. Stefnumótunin á að vera í góðu samstarfi við hinsegin samfélagið á Íslandi enda er málaflokkurinn fjölbreyttur og í mikilli mótun. Mikilvægt er að stjórnvöld geti brugðist hratt og örugglega við til að tryggja réttindi hinsegin fólks.
  • Hverskyns hatursorðræða og hatursglæpir í garð hinsegin fólks eiga aldrei að líðast. Setja þarf skýran lagaramma um hatursorðræðu og hatursglæpi gegn hinsegin fólki. Viðbragðsaðilar þurfa að geta spornað gegn og brugðist við slíku á grundvelli skýrra laga og viðbragðsáætlana.
  • Auka þarf vernd intersex fólks enn frekar og sér í lagi intersex barna. Á þeim skulu aldrei gerðar ónauðsynlegar aðgerðir til þess eins að „lagfæra“ líkama þeirra sbr. lög um kynrænt sjálfræði.
  • Stjórnvöld eiga að leita allra leiða til að taka á móti fleira hinsegin fólki á flótta. Móta þarf stefnu um móttöku hinsegin fólks sem leitar að alþjóðlegri vernd.
  • Blóðgjafir karla sem stunda kynmök með öðrum körlum verði heimilaðar.
  • Bæta þarf þjónustu við trans börn, foreldra þeirra og forsjáraðila. Tryggja þarf jafnan aðgang að þjónustu við þennan hóp óháð búsetu og efnahag.
  • Hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi gegna lykilhlutverki í réttindabaráttu hinsegin samfélagsins. Innan þeirra vébanda eru sérfræðingar í málefnum hinsegin fólks og nauðsynlegt er að leitað sé til þeirra við alla stefnumótun.
  • Tryggja þarf virkt samtal, þátttöku og aðkomu hagsmunasamtaka í opinberri stefnumótun um hinsegin mál og framkvæmd hennar með stuðningi við rekstur og fræðslustarf.

Innflytjendur og fólk á flótta

Samfélag fyrir okkur öll

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að fjölbreytileiki sé styrkur hvers samfélags og því á íslenskt samfélag að taka þeim fagnandi sem hingað koma, óháð uppruna þeirra eða þeim forsendum sem dvölin byggir á. Fólk sem sest að á Íslandi á að hafa sömu tækifæri og aðrir íbúar svo sem til atvinnuöryggis, húsnæðisöryggis og tryggrar heilbrigðisþjónustu. Réttlátt og öflugt samfélag nýtur hæfileika og þekkingar allra óháð uppruna. Þá væri mikill styrkur af aukinni þátttöku innflytjenda í stjórnmálum. Fordómar sem byggja á uppruna og trúarbrögðum verða ekki liðnir á Íslandi, né heldur orðræða og framkoma sem felur í sér hatur og tortryggni gagnvart innflytjendum. Við fögnum þeim áföngum sem nú þegar hafa náðst t.a.m. Móttökustöð flóttafólks og að heildarstefnumótun í málaflokknum sé farin af stað.

Opinber þjónusta og upplýsingagjöf

Opinberum aðilum ber að gæta jafnræðis við veitingu grunnþjónustu. Einstaklingar skulu ekki líða fyrir tungumálakunnáttu sína og uppruna í samskiptum við stjórnvöld og stofnanir.

  • Öflug upplýsingagjöf um íslenskt samfélag, réttindi, skyldur, félags- og heilbrigðisþjónustu, menntun og menningu, atvinnu og húsnæði eflir fólk til virkrar samfélagsþátttöku, veitir því öryggi, bætir réttindi þess og stöðu í samfélaginu og vinnur gegn einangrun og jaðarsetningu. Stjórnvöld skulu hafa frumkvæði að því að veita innflytjendum nauðsynlegar upplýsingar og tryggja starfsfólki fræðslu svo það geti sinnt hlutverki sínu við að miðla þeim. Mikilvægt er að auðvelt aðgengi sé að upplýsingum, þjónustu og ráðgjöf. Þeim sem ekki skilja íslensku skal standa til boða túlkun svo tryggja megi að þau fái fullnægjandi aðstoð og þjónustu.
  • Efla þarf samstarf ríkis og sveitarfélaga enn frekar vegna þjónustu við innflytjendur og fólk á flótta eins og með samræmdri móttöku flóttafólks. Nauðsynlegt er að sveitarfélög um allt land taki þátt í samræmdri móttöku fólks á flótta og fái þannig nauðsynlegan stuðning.
  • Huga þarf sérstaklega að stöðu kvenna af erlendum uppruna. #Metoo-sögur kvenna af erlendum uppruna sviptu hulunni af því að þær eru útsettar fyrir kerfisbundinni mismunun og ofbeldi. Vegna þessa skal sérstaklega gætt að réttindum þeirra í allri upplýsingagjöf, stefnumótun og aðgerðum.

Menntun og atvinna

  • Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að öllum innflytjendum sé tryggð íslenskukennsla á kostnað atvinnurekenda, á vinnutíma án launataps. Veita þarf góða íslenskukennslu fyrir innflytjendur, auka fjölbreytni og aðgengi að henni.
  • Vinnumarkaðurinn þarf að meta að verðleikum þá menntun og reynslu sem fólk kemur með hingað svo flest geti starfað við sitt fag, sjálfu sér og samfélaginu öllu til góða. Jafnframt er mikilvægt að tryggja að innflytjendur hafi sömu tækifæri til að bæta við sig menntun og aðrir.
  • Börn og ungmenni sem ekki eiga íslensku að móðurmáli eiga að geta staðið jafnfætis jafnöldrum sínum í námi og þarf ráðuneyti menntamála í samvinnu við sveitarfélögin að stórauka þjónustu, stuðning og námsframboð fyrir þennan hóp og fjölskyldur þeirra. Börn með íslensku sem annað tungumál eiga að hafa aðgang að móðurmálskennslu sem og íslenskukennslu. Efla þarf ráðgjöf til kennara og fagfólks vegna slíkrar kennslu sem og kennaramenntun á sviði fjöltyngi og fjölmenningarlegra kennsluhátta. Mikilvægt er að bjóða upp á stuðning við nám og efla til muna samskipti skóla og foreldra.
  • Berjast þarf gegn mismunun og misnotkun á vinnumarkaði af fullri hörku. Allt fólk sem starfar á Íslandi á að njóta fullra réttinda á vinnumarkaði. Mansal, launaþjófnaður, félagsleg undirboð og önnur misnotkun á vinnuafli skal aldrei líðast. Styrkja þarf lagaumhverfi og opinbert eftirlit.
  • Upplýsingar um stöðu á vinnumarkaði, réttindi og skyldur þurfa að vera aðgengilegar. Auðvelda þarf ríkisborgurum ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins að fá atvinnuréttindi. Nauðsynlegt er að opnar séu ólíkar leiðir fyrir fólk í ólíkum aðstæðum til að setjast að hér á landi.
  • Skapa þarf aðstæður og ryðja úr vegi hindrunum svo innflytjendur hafi jafnan kost á að taka þátt í stjórnmálum.

Fólk á flótta

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að málefni fólks á flótta hafi til þessa verið of lituð af því að vera stjórnsýsluverkefni frekar en þjónustu við fólk með mannúð og virðingu að leiðarljósi.

  • Aldrei hafa fleiri þurft að yfirgefa heimili sín vegna stríðsátaka, ofsókna, loftslagsbreytinga og fátæktar. Ísland á að taka vel á móti fólki á flótta og umsækjendum um alþjóðlega vernd. Mikilvægt er að fólk sem hingað leitar í skjól fái skjóta, góða og sanngjarna málsmeðferð. Skilvirkni kerfisins á aldrei að vera á kostnað mannúðar- og réttlætissjónarmiða. Fólk sem hingað leitar hefur sama rétt til mannlegrar reisnar og sömu mannréttindi og aðrir í okkar samfélagi. Þá skal tryggja hinsegin fólki á flótta sérstaka vernd í lögum um útlendinga.
  • Mikilvægt er að taka undir ítrekaðar ábendingar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um heimild ríkja til að taka umsóknir til efnismeðferðar þó svo að þau beri ekki ábyrgð á henni samkvæmt öðrum ákvæðum. Standa ber vörð um upphaflegan tilgang Dyflinnarsamstarfsins, að aðildarríki deili ábyrgð vegna komu fólks á flótta til Evrópu en varpi henni ekki yfir á önnur ríki.
  • Börn á flótta, bæði þau sem eru fylgdarlaus og þau sem eru í fylgd foreldra / forsjáraðila, eru fyrst og síðast börn og meta skal aðstæður þeirra með sjálfstæðum hætti. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmáli Evrópu, og aðrir alþjóðasamningar er varða réttindi barna og Ísland er aðili að, skulu alltaf hafðir að leiðarljósi þegar fjallað er um mál barna á flótta. Fylgdarlaust barn á flótta er í viðkvæmri stöðu og á rétt á skólagöngu og þjónustu í samræmi við hana. Tryggja þarf að húsnæði sem fylgdarlausum börnum býðst við komuna til landsins sé öruggt og barnvænt. Ef aldur barns er á reiki skal barnið ætíð njóta vafans. Sé nauðsynlegt að leggja mat á aldur barns skal gera það með heildstæðu mati og aldrei skal notast við aldursgreiningar á tönnum.

Menning og listir

Framsækin og fjölbreytt menningarstarfsemi er ein af undirstöðum íslensks samfélags og hluti af langri sögu, menningararfi og íslenskri tungu. Fjölbreytt menning án aðgreiningar er drifkraftur litríks samfélags.

Menning á að vera aðgengileg öllum hópum samfélagsins og afnema þarf hindranir sem kunna að vera til staðar svo fólk geti notið margs konar menningarforms. Að sama skapi eiga börn að hafa greiðan aðgang að menningu og listum. Efla þarf möguleika barna á að sækja menningartengda viðburði og þátttöku í hvers kyns skapandi starfi og listnámi.

Áfram þarf að styðja af krafti við menningarstofnanir, listaskóla og faglega úthlutunarsjóði og efla listnám á öllum skólastigum enda er menntun grundvöllur öflugs menningarstarfs. Víðtækt hlutverk menningar og lista í samfélaginu á að byggja á skilvirkri stjórnsýslu og þverfaglegu samstarfi innan stjórnkerfisins, milli ríkis og sveitarfélaga, í bland við starfsemi frumkvöðla í lista- og menningarlífinu.

  • Endurskoða þarf lagaumhverfi listmenntunar. Unnið hefur verið að því að tryggja samstarf ríkis og sveitarfélaga um tónlistarmenntun en það þarf að gera á fleiri sviðum eins og t.d. á sviði listdans, kvikmyndagerðar, myndlistar og leiklistar. Aðgengi að faglegu listnámi allt frá grunnnámi til háskólastigs er undirstaða blómlegs lista- og menningarlífs.
  • Hefja á byggingu nýs húsnæðis fyrir Listaháskóla Íslands í Tollhúsinu í Reykjavík. LHÍ skal verða opinber stofnun og tryggja þarf um leið að ekki verði tekin skóla- og efnisgjöld. Brýnt er að styðja bæði við menningarstofnanir og sjálfsprottna menningarstarfsemi með fjármagni og sterkri stjórnsýslulegri umgjörð. Fjárveitingar eiga að byggja á faglegum forsendum og verkefni skulu vera metin af fagaðilum. Samvinna menningarstofnana er mikilvæg til að auka nýbreytni í menningarlífinu og til að fjármunir nýtist sem best.
  • Menningarstefna á Íslandi á að snúast um þátttöku allra. Sérstaklega þarf að efla þátttöku þeirra sem síst sækja sér menningartengda upplifanir vegna hindrana í samfélaginu og aðstöðumunar.  Menning og listir eru mikilvægur hluti samfélagsins og þátttaka í menningarstarfsemi og fjölbreyttu, skapandi liststarfi bætir lýðheilsu og eflir fólk með ólíkan bakgrunn til þátttöku í samfélaginu.
  • Menning og listir hafa mikilvægu samfélagslegu hlutverki að gegna, þær eru veigamikil stoð í fjölbreyttu atvinnulífi og hagræn áhrif þeirra skipta verulegu máli. Leggja þarf aukna áherslu á að menningarstarfsemi sé fjárfesting til framtíðar, ávísun á aukna verðmætasköpun og fjölbreytt og dýrmæt störf. Efla þarf launasjóð listamanna og verkefnasjóði listgreina ásamt því að tryggja listamönnum gott starfsumhverfi og að hið opinbera greiði þeim fyrir vinnu sína.
  • Varðveisla menningarminja gerir okkur kleift að þekkja menningararf þjóðarinnar og tryggja að honum verði skilað áfram til komandi kynslóða. Styrkja þarf stöðu minja- og menningarvörslu með áframhaldandi faglegu og stjórnsýslulegu sjálfstæði og tryggja nægilegt fjármagn svo málaflokkurinn geti sinnt lögbundnum skyldum sínum. Ísland geymir fjöldann allan af menningarminjum sem brýnt er að skrá og rannsaka en víða eru merkar minjar í hættu m.a. vegna ýmissa framkvæmda, loftslagsbreytinga; jarðraskana og ágangs sjávar.
  • Fornleifasjóður og Húsafriðunarsjóður gegna lykilhlutverki í stuðningi við björgun menningararfsins. Standa verður vörð um sjóðina innan faglegrar sjálfstæðrar stofnunar með þekkingu á málaflokknum. Jafnframt þarf að tryggja faglega og góða samvinnu milli málaflokka minjaverndar og annarra málaflokka þar sem þverfaglegt samstarf kann að vera til staðar.
  • Möguleikar íslenskrar tungu í stafrænum heimi hafa verið stórefldir og brýnt er að halda áfram á þeirri braut þannig að íslensk tunga verði gjaldgeng á stafrænu formi og nothæf í öllum tölvum og tækjabúnaði. Á næstu árum þarf að vinna ötullega að því að tryggja nægar fjárveitingar til þessa verkefnis. Að auki þarf að gera gangskör að því að koma menningararfinum á stafrænt form þannig að hann verði öllum aðgengilegur, m.a. á netinu. Það á einnig við um myndir og hljóðrit í opinberri eigu.
  • Kraftur hefur verið í safnastarfi og uppbyggingu safna í landinu á undanförnum árum og nú hillir loks undir að Náttúruminjasafn Íslands eignist húsnæði við hæfi. En betur má ef duga skal. Söfnin eru ólík en verkefnið hið sama: Varðveisla menningar-, lista- og náttúruarfs þjóðarinnar, miðlun hans og rannsóknir á honum. Efla þarf höfuðsöfnin þrjú, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands og styrkja sérstaklega starfsemi annarra safna, s.s. í menningarhúsum á landsbyggðinni og sérgreindum byggða-, lista-, skjala- og náttúruminjasöfnum.
  • Menning, listir og hönnun eru vaxandi stoð í íslensku samfélagi. Tímabært er að endurskoða stjórnsýslulega stöðu þessara greina, styrkja hana og auka skilvirkni hennar. Meta þarf þá kosti sem tryggt geta þverfaglega nálgun og samstarf ráðuneyta um greinarnar, þ.m.t. að stofna sérstakt ráðuneyti rannsókna, nýsköpunar, menningar og skapandi greina. Í þeirri vinnu þarf að huga að svæðisbundnum áherslum á menningarmál s.s. í sóknaráætlunum landshlutanna og í alþjóðlegu menningarstarfi, auk þeirra þátta skapandi greina og nýsköpunar, sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti.

Menntun fyrir okkur öll

Menntun er eitt mikilvægasta jöfnunartæki samfélagsins og gegnir margþættu hlutverki fyrir hvert og eitt okkar. Öflugt og aðgengilegt menntakerfi, sem stendur öllum til boða á forsendum hvers og eins til að rækta hæfileika sína og færni, er undirstaða þess að við öll getum tekið þátt í lýðræðissamfélagi, þroskast og notið okkar. Til að jafna enn frekar aðstöðumun innan menntakerfisins skal stefnt að því að gera menntun endurgjaldslausa á öllum skólastigum.

Menntun á að vera óháð búsetu, efnahag og öðrum þáttum sem kunna að vera fyrirstaða og skulu menntastofnanir aldrei reknar í hagnaðarskyni. Menntun er ævilangt verkefni og því þarf að tryggja fjölbreytta framhaldsfræðslu og aðlaga hana að ólíkum hópum.

Þá er menntun forsenda aukinnar þekkingar, nýsköpunar og þróunar og það er samfélagslegt verkefni að byggja upp þróttmikið menntakerfi því það er undirstaða aukinnar verðmætasköpunar í víðum skilningi. Góð menntun eykur lífsgæði einstaklinga og tryggir um leið velsæld og blómlegt atvinnulíf.

Góður grunnur

  • Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla enn frekar enda mikið lífsgæðamál fyrir fjölskyldur. Taka þarf næstu skref í lengingu fæðingarorlofs í a.m.k. tvö ár. Fyrstu tvö árin í lífi barna eru þýðingarmikið þroska og mótunarskeið mikilvægt að börn fái tækifæri til að njóta samvista við foreldra og uppalendur á þessu viðkvæma tengslamyndunarskeiði. Um leið aukast líkur á að börn fái leikskóladvöl strax að loknu fæðingarorlofi foreldra og sveitarfélög geta einbeitt sér að eflingu leikskólastigsins.
  • Tryggja þarf fjármagn til innleiðingar og framkvæmdar laga um farsæld barna sem og innleiðingu aðalnámskráa. Með því bætum við hag barna sem þurfa á sértækri þjónustu að halda. Mæta þarf kröfum um aukna fræðslu í samfélagslegum áskorunum hverju sinni.
  • Kennarar og skólastjórnendur þurfa að njóta faglegs frelsis til að móta áherslur að þörfum nemenda hverju sinni. Þá er áríðandi að nemendur fái, með lýðræðislegum hætti, tækifæri til að hafa áhrif á mótun skólastarfsins.
  • Samþætta þarf listnám, íþróttir og félagsstarf frístundastarfi sveitarfélaganna. Börn og ungmenni um allt land eiga í auknum mæli að geta fengið styrki til tómstundastarfs. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir aðlögun ungra innflytjenda. Öll börn eiga að fá aðgengi að listnámi óháð efnahag.
  • Allir nemendur eiga rétt á að læra móðurmál sitt. Það á líka við um börn sem eiga táknmál að móðurmáli, innflytjendur og börn þeirra sem þurfa bæði að njóta kennslu í móðurmáli sínu og íslensku.

Nám til framtíðar

  • Í grunnskólum landsins koma öll börn og unglingar á skólaskyldualdri saman óháð ólíkum félagslegum og menningarlegum aðstæðum eða atgervi. Það á að fagna fjölbreytileika skólasamfélagsins og vinna markvisst að því að brjóta niður staðalmyndir og kveða niður fordóma. Fjölbreytileiki og síbreytilegt samfélag þarf að endurspeglast í námsefni, nálgunum og kennsluaðferðum. Með örum samfélagsbreytingum, tækniframförum og alþjóðavæðingu þarf að efla grunnmenntun barna og leggja áherslu á fræðslu sem styrkir sjálfsmynd þeirra. Tryggja þarf jöfn tækifæri til fjölbreyttrar menntunar óháð búsetu og þar þarf sérstaklega að huga að aðgengi að iðn- og listnámi. Endurskoða þarf fyrirkomulag iðnnáms með það að markmiði að fjölga útskrifuðum iðnnemum og taka þannig markviss skref í átt að aukinni samvinnu framhaldsskóla, vinnustaða, stéttarfélaga og annarra sem koma að skipulagi og framkvæmd starfsnáms.
  • Auka þarf sveigjanleika í námi á framhaldsskólastigi og tryggja að nemendur hafi svigrúm til að sinna félagslífi, íþróttum og tómstundum samhliða námi.
  • Brotthvarf úr námi er birtingarmynd ójafnra tækifæra í íslensku samfélagi. Nauðsynlegt er að sporna gegn því með aðgerðum innan menntakerfisins og ekki síður utan þess.
  • Tryggja skal fjölbreyttan stuðning í öllum framhaldsskólum með góðu aðgengi að sérfræðiaðstoð til að sporna gegn brotthvarfi úr námi og stuðla að bættri líðan námsmanna. Huga þarf sérstaklega að innflytjendum í þessu samhengi.
  • Tryggja þarf fjölbreytt háskólanám og margvíslegt viðbótarnám framhaldsskóla. Nemendum skal gefinn kostur á að stunda slíkt nám í fjarnámi um land allt.
  • Áfram þarf að efla fjármögnun háskólastigsins. Stefna skal að því að halda gjaldtöku í algjöru lágmarki til að tryggja jafnt aðgengi að háskólanámi. Sérstaklega þarf að horfa til náms sem eingöngu er aðgengilegt gegn háu gjaldi eins og listnám á háskólastigi.
  • Tryggja þarf fjölbreytt háskólanám og margvíslegt viðbótarnám framhaldsskóla. Nemendum skal gefinn kostur að stunda slíkt nám í fjarnámi um land allt.
  • Grunnrannsóknir eru undirstaða nýsköpunar og þekkingariðnaðar. Atvinnustefna í sátt við umhverfið byggist á því að virkja hugvit fremur en náttúruauðlindir og til þess þarf að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun.
  • Háskólar þurfa fjárveitingar til að sinna rannsóknum jafnt sem kennslu. Þeim fjármunum, sem eru utan við rannsóknafjárveitingar háskólanna, skal úthluta úr samkeppnissjóðum þar sem jafningjamat er notað við mat á rannsóknum. Nýta þarf ívilnanir til að styðja við þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki.
  • Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu með tilliti til samfélagsbreytinga og þess að sett verði aðalnámskrá um framhaldsfræðslu. Öflug framhaldsfræðsla er mikilvægt jöfnunartæki sem gerir fólki kleift að sækja sér ný tækifæri, hreyfa sig til á vinnumarkaði og tileinka sér nýja þekkingu. Styrkja þarf raunfærnimat enn frekar m.a. með menntun innflytjenda og fólks á flótta í huga.

Menntasjóður námsmanna

  • Námslánakerfið á að auka jöfnuð. Meta þarf árangur af nýjum Menntasjóði þar sem hluti námslána er nú orðinn styrkur til námsmanna. Þá þarf áfram að huga að því að tryggja mannsæmandi grunnframfærslu fyrir námsmenn svo jafnrétti til náms verði tryggt. Hækka þarf frítekjumark til þess að tryggja rétt efnaminni nemenda til námslána óháð starfshlutfalli síðasta árs.

Rammi menntunar

Starfsaðstæður nemenda, kennara og annars starfsfólks menntastofnana eiga að vera í fremstu röð og nauðsynlegt að mikilvægi skólastarfsins endurspeglist í launum og öðrum kjörum.

  • Vinna þarf markvisst áfram að því að útskrifa fólk með kennsluréttindi og bæta aðstæður og kjör kennara svo tryggja megi öflugt skólastarf til framtíðar. Þá þarf að jafna aðgengi kennara að sí- og  endurmenntun til að kennsla geti þróast í takt við samfélagslegar breytingar.
  • Skólabókasöfn sinna markvissu hlutverki í grunn- og framhaldsmenntun allra barna og ungmenna. Þau þurfa áfram að vera órjúfanlegur hluti skólastarfsins. Tryggja þarf sérstaklega fjárveitingar skóla til bókakaupa þannig að ávallt sé aðgengi að nýjum bókum fyrir nemendur.
  • Jafna þarf aðgengi skóla að tækjabúnaði og styðja þannig við nám í samfélagi sem er í örri og stöðugri þróun.
  • Endurskoða þarf skimunarpróf og staðlaða mælikvarða til að styðja við einstaklingsmiðað nám og áherslur aðalnámskráa.

Landbúnaður

Landbúnaður á Íslandi á að verða kolefnishlutlaus, stundaður í sátt við náttúruna með sjálfbæra nýtingu lands og velferð dýra í forgrunni. Hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla á diskum landsmanna verði hærra en nú er. Búseta í dreifbýli hafi styrkst og fleiri stoðir verði undir landbúnaði en nú eru. Landbúnaður verði órjúfanlegur þáttur í sjálfbæru samfélagi á Íslandi og verðmætasköpun í hinum dreifðu byggðum. Tengsl bænda og neytenda séu góð sem endurspeglist í því að bændur hafi sanngjarna afkomu og neytendur borgi sanngjarnt verð fyrir afurðir þeirra. Til að ná þessari framtíðarsýn þarf að stíga ákveðin skref í átt að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Loftslagsmál og náttúruvernd

  • Draga þarf úr losun og auka bindingu svo landbúnaður á Íslandi verði kolefnishlutlaus. Bæta þarf kolefnisbókhald og beita hagrænum hvötum til þess að hvetja bændur til að taka upp búskaparhætti í þágu loftslagsins. Auka þarf enn frekar fjármuni til þess að mæta þessari áskorun og tímasetja vörður á leiðinni að settu marki.
  • Stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði kemur frá búfé. Efla þarf rannsóknir og þróun aðferða í búfjárrækt, svo sem við að bæta fóðrun, svo draga megi úr losun frá iðragerjun.
  • Orkuskipti þurfa að eiga sér stað í landbúnaði.
  • Til að draga úr losun og auka bindingu kolefnis þarf að auka enn frekar hvata til endurheimtar vistkerfa s.s. með endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt.
  • Viðvarandi viðfangsefni er að nýting beitarlands sé með sjálfbærum hætti og uppfæra þarf reglugerðir um gæðastýringu til þess að taka mið af bestu vísindalegri þekkingu í þeim málum. Beita þarf hagrænum hvötum í búvörusamningum til að bæta beitarstýringu í úthaga, heimalöndum og afréttum. Brýnt er að koma upp beitarhólfum og friða land sem ekki er hæft til beitar.
  • Við skipulag lands þarf að huga að því að fjölþætt markmið geti verið með skógrækt, hvort sem þar er um að ræða endurheimt vistkerfa, ræktun kolefnisskógar til bindingar eða skógrækt til iðnaðarnota. Huga þarf að jafnvægi milli þessarar markmiða, samræmi við náttúruverndarsjónarmið og framtíðarásýnd og nýtingu lands.
  • Ágengum og framandi tegundum skal ekki dreift í óspilltri náttúru.
  • Gæta verður fyllsta öryggis þar sem unnið er með erfðabreyttar lífverur, örverur, plöntur og dýr, til að fyrirbyggja hvers kyns blöndun eða óæskilega mengun við umhverfi og lífríki Íslands. Brýnt er að lágmarka áhættu fyrir íslenska náttúru og líffræðilega fjölbreytni landsins og til þess þurfa stjórnvöld að móta heildarstefnu um notkun erfðabreyttra lífvera með aðkomu vísindafólks, framleiðenda og annarra hagsmunaaðila. Náttúran skal njóta vafans og tryggja verður að framleiðsla og notkun erfðabreyttra lífvera fari fram á siðferðilega og samfélagslega ábyrgan hátt. Ræktun erfðabreyttra lífvera skal ekki skaða eða hamla ræktun annarra, s.s. ræktun lífrænna afurða.
  • Landbúnaður sem atvinnugrein má ekki vera á kostnað líffræðilegrar fjölbreytni. Vinna skal að því að endurheimta upprunaleg vistkerfi og sporna gegn því að raska frekar heilbrigðum vistkerfum þar sem líffræðileg fjölbreytni er mikil.
  • Bændur eru vörslumenn lands og því þarf að skapa tækifæri og styrkja möguleika þeirra til að byggja afkomu sína á náttúruvernd, t.a.m. með varðveislu og endurheimt landgæða fyrir komandi kynslóðir og eða umsjón friðaðra svæða.
  • Sóknarfæri eru í hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, m.a. til lífrænnar framleiðslu. Draga þarf úr notkun tilbúins áburðar vegna stórs kolefnisspors og mikilvægt er að auka hlutfall lífræns áburðar með betri nýtingu á auðlindastraumum.

Starfsumhverfi landbúnaðarins

Stuðningur við landbúnað þarf að miða að því í ríkari mæli að efla innlenda framleiðslu í þágu fæðuöryggis, uppfylla neysluþörf á innanlandsmarkaði og að landbúnaður sé stundaður með sjálfbærum hætti með umhverfis- og loftslagsmál að leiðarljósi.

  • Samfélögum í dreifbýli verður ekki viðhaldið nema nýliðun sé tryggð. Styðja þarf nýliða með skilvirkum hætti. Stuðningur við landbúnað þarf að vera framsækinn og grundvallast á því að styrkja fjölskyldubú og að dregið verði úr stuðningi með aukinni stærð búa.
  • Tækifæri eru til aukinnar akuryrkju á Íslandi sem mikilvægt er að nýta með markvissum hætti.
  • Tryggja þarf hagræna hvata til loftslagsvænni búskaparhátta með umbótum á fyrirkomulagi stuðnings í landbúnaði.
  • Tryggja þarf að garðyrkjubændur fái raforku á sambærilegu verði og aðrir stórkaupendur til lýsingar gróðurhúsa. Beina þarf þegar framleiddri orku í aukna grænmetisrækt.
  • Lífræn framleiðsla og afurðir með lítið vistspor ættu að skipa stærri sess hjá neytendum. Til þess má beita opinberri stefnumótun og mælanlegum markmiðum, s.s. í innkaupastefnu ríkis og sveitarfélaga.
  • Greina þarf hvort umhverfisgjöld á innflutt matvæli með stór vistspor geti stuðlað að kolefnishlutleysi og séu raunhæf í framkvæmd. Gæta þarf að hagsmunum framleiðenda og neytenda við gerð viðskiptasamninga þannig að innlendum hagsmunum sé ekki fórnað s.s. með ójafnræði í inn- og útflutningsheimildum.
  • Halda verður áfram þeirri mikilvægu vinnu sem staðið hefur yfir við að reisa skorður við samþjöppun á landi í hendur fárra. Jarðnæði er auðlind og mikilvægt að gætt sé almannahagsmuna við nýtingu þeirrar auðlindar sem og annarra.

Ný hugsun – ný tækifæri

  • Til þess að treysta fæðuöryggi þurfa stjórnvöld að setja sér metnaðarfull markmið í að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla. Með tryggu aðgengi að matvælum úr innlendri framleiðslu getum við stuðlað að heilnæmi matvara og auknu matvælaöryggi, t.a.m. í ljósi sýklalyfjanotkunar.
  • Stórauka þarf hlutfall innlendrar framleiðslu á grænmeti, bæði útiræktað grænmeti og ylræktað.
  • Með aukinni tæknivæðingu hefur bændum í hefðbundnum búskap fækkað. Til þess að búseta í dreifbýli dragist ekki enn meira saman með keðjuverkandi áhrifum á byggðafestu þarf að skjóta fleiri stoðum undir landbúnað. Nýsköpun og rannsóknir gegna lykilhlutverki í að styrkja stoðir landbúnaðarins.
  • Mikilvægt er að starfsmennta- og háskólar í landbúnaði séu öflugir og í fararbroddi í rannsóknum á sviði landbúnaðar og umhverfismála, s.s. í þágu loftslagsmála, náttúruverndar, landgæða og nýsköpunar í framleiðslu. Brýnt er að rannsóknir séu stundaðar þar sem kennsla fer fram.
  • Ræktun nýrra tegunda nytjajurta, sér í lagi í grænmetisframleiðslu, ásamt uppbyggingu akuryrkju í sátt við náttúruna getur dregið úr þörf á innfluttum aðföngum, minnkað kolefnisspor og treyst fæðuöryggi.
  • Lífræn ræktun er í sátt við náttúruna og í henni felast sóknarfæri. Móta þarf heildstæða aðgerðaáætlun til að auka lífræna framleiðslu. Beina þarf fjármagni í búvörusamningum í auknum mæli til lífrænna búskaparhátta með viðbótarstuðningi og auka hlutfall ræktunarlands í vottaðri lífrænni ræktun svo það verði 10% árið 2030. Efla þarf rannsóknir, ráðgjöf og fræðslu um lífræna framleiðslu.
  • Skapa þarf skilyrði fyrir nýsköpun í framleiðslu á landbúnaðarvörum og starfrækja minni sláturhús vítt og breitt um landið, t.d. færanleg sláturhús, svo ekki þurfi að flytja dýr um langan veg. Skapa þarf betri skilyrði fyrir sölu afurða beint frá býli þar sem rekjanleiki er alger.

Matvælastefna

Öll matvælaframleiðsla á Íslandi á að verða kolefnishlutlaus árið 2040 og stuðla að bættri lýðheilsu þjóðarinnar. Leiðin að þessum markmiðum er skilvirk innleiðing hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins en árangursrík innleiðing þess dregur úr losun við framleiðslu og neyslu matvæla. Matvælaframleiðsla á Íslandi á að tryggja fæðu- og matvælaöryggi landsmanna ásamt því að vera í fremstu röð í framleiðslu úrvals matvæla. Stefnumörkun á sviði matvæla á ávallt að vera samræmd annarri stefnumótun stjórnvalda sérstaklega m.t.t. loftslagsmála og verndar líffræðilegrar fjölbreytni.

Stjórnvöld eiga að styðja markvisst matvælaframleiðendur sem hafa góð áhrif á umhverfið og lýðheilsu með framleiðslu sinni og upplýsa neytendur um mikilvægi þess að velja hollan og umhverfisvænan mat. Þannig má bæta afkomu framleiðenda samhliða því að ná markmiðum í lýðheilsu- og loftslagsmálum og tryggja matvælaöryggi til framtíðar.

Sjávarútvegur og landbúnaður standa undir öflugri matvælaframleiðslu á Íslandi. Verkefni næstu áratuga er að treysta fæðuöryggi á Íslandi en jafnframt stuðla að því að matvælaframleiðsla verði kolefnishlutlaus líkt og stefnt er að í samfélaginu öllu. Stærsta framlag Íslands til fæðuöryggis í heiminum er sjálfbær nýting auðlinda hafsins og íslenskrar náttúru, hvort sem um er að ræða fiskveiðar, landbúnað eða fiskeldi. Til grundvallar þarf að vera hringrás næringarefna og heilnæmi matvæla.

  • Auka þarf framleiðslu grænmetis innanlands. Til þess að það megi verða þarf að jafna dreifingarkostnað raforku og þannig lækka rafmagnskostnað hjá framleiðendum í dreifbýli.
  • Finna þarf fjölbreyttari prótíngjafa sem hægt er að rækta á Íslandi með því að styðja við öflugt rannsóknarstarf í matvælaframleiðslu til að mynda á skordýrum, einfrumungum, nytjaplöntum og þörungum..
  • Draga verður úr matarsóun með réttum hvötum á öllum stigum framleiðslu og neyslu m.a. með fræðslu og upplýsingum til neytenda. Sérstaklega þarf að huga að því að auka árstíðarbundna neyslu innlendra matvæla og snúa frá neysluhyggju sem leiðir til flutnings á matvælum heimshorna á milli. Mikilvægt er að draga úr brottkasti og sóun hvers konar.
  • Matvælaframleiðsla á að byggja á fullnýtingu afurða þannig að virðisaukning þeirra verði sem mest og umhverfisáhrif af framleiðslunni sem minnst.
  • Með því að framleiða áburð úr lífrænum úrgangi mætti gera stærstan hluta innlendrar landbúnaðarframleiðslu sjálfbæran. Jafnframt þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við flutning matvæla.

Hollur matur er heilbrigðismál

Mataræði er einn af megináhrifaþáttum hinna ýmsu lífsstílssjúkdóma. Mikilvægt er að auðvelda almenningi að velja hollari valkost í verslunum, mötuneytum og á veitingahúsum.

  • Innihaldslýsingar og kolefnisspor matvæla þurfa að vera skýrar á umbúðum. Mikilvægt er að stórauka rannsóknir á kolefnisspori innlendra matvæla.
  • Móta þarf reglur um hvernig takmarka má markaðssetningu óhollra matvæla, sérstaklega gagnvart börnum. Hvetja þarf til neyslu á hollum matvælum á kostnað óhollari matvæla. Draga þarf úr neyslu kjöts sem framleitt er með ósjálfbærum hætti.
  • Stórauka þarf innlendar rannsóknir á næringargildi matvæla og eftirlit með heilbrigði þeirra. Til að hvetja til heilbrigðari neysluhátta gætu stjórnvöld lækkað verð á hollum og umhverfisvænum mat á borð við grænmeti og hækkað verð á óhollum mat og matvælum með stórt kolefnisspor.
  • Brýnt er að sveitarfélög setji sér matvælastefnu sem styður við framleiðendur í héraði.

Nýsköpun í hringrásarhagkerfinu

Hringrásarhagkerfið er forsenda fyrir sjálfbærri þróun á komandi áratugum. Öflugir sjóðir þurfa að vera til staðar fyrir bæði vísindamenn og frumkvöðla. Leggja þarf sérstaka áherslu á það að aðstoð við frumkvöðla sé í boði um land allt. Nýsköpun í framleiðslu, úrvinnslu og tækni mun efla verðmætasköpun hringinn í kringum landið og búa til græn störf framtíðarinnar. Með fjölbreyttari atvinnuháttum verða til öflugri samfélög sem aftur leiða af sér frekari suðupott hugmynda og nýsköpunar.

  • Stórauka þarf framleiðslu á lífrænum matvælum á Íslandi enda er lífræn ræktun í sátt við náttúruna og nýtir auðlindir vel. Eitt af meginmarkmiðum lífræns búskapar er að vernda og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni.
  • Innleiða þarf hugmyndafræði lífræns landbúnaðar um að loka hringrásum næringarefna með heildrænum hætti í allri matvælaframleiðslu þannig að næringarefni verði endurnýtt eins og kostur er á öllum stigum framleiðslu, flutninga og neyslu.
  • Stefna ber að því að endurnýta næringarefni enda má með því móti stíga stórt skref í átt að því að gera innlenda matvælaframleiðslu lífræna í sem mestum mæli.
  • Fullvinnsla afurða og næringarefna í matvælaframleiðslu er kjarninn í hringrásarhagkerfinu. Það sem ekki sem nýtist til mann- eða dýraeldis getur nýst sem lífrænn áburður. Regluverk þarf að tryggja fullnýtingu allra næringarefna og má ekki verða hindrun í þróun nýrra matvæla- og fóðurefna.

Matvælaöryggi

  • Matvæli eiga að vera örugg og aðgengileg öllum. Neytendur eiga að geta treyst því að matvæli sem þeir kaupa séu örugg og næringarrík. Framleiðsla og viðskipti með þau eiga að fara fram með sanngjörnum hætti (e. Fairtrade) og hafa góðan aðbúnað verkafólks og bænda og dýravelferð að leiðarljósi.
  • Mikilvægt er að tryggja innlendar rannsóknir og þjónustu á sviði dýraheilbrigðis- og dýravelferðar.
  • Tryggja þarf örugga og aðgengilega dýralæknaþjónustu um allt land.
  • Upprunamerkingar matvæla eiga að vera öruggar og rekjanlegar og endurskoða þarf reglur um þær.
  • Leggja þarf meiri áherslu á fræðslu um heilnæmi matvæla svo að mataræði og lýðheilsa þróist í farsæla átt.
  • Gæta þarf að því að allir í samfélaginu hafi völ á því að fá næringarríkan mat, óháð tekjum. Sérstaklega þarf að gæta að því að matur í skólum, öldrunarþjónustu og öðrum stofnunum taki mið af ráðleggingum embættis landlæknis og neysla hans stuðli að minna kolefnisspori.
  • Viðhalda þarf sterkri stöðu Íslands við að lágmarka áhættuna sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum á grundvelli hugmyndafræði Einnar heilsu.

Efnahagsmál

Heilbrigt efnahagslíf og fjármálakerfi er grunnurinn að öflugu velferðarkerfi og samtvinnað skýrri sýn um sjálfbæran vöxt og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Farsælasta undirstaða þróttmikils efnahagslífs er blandað hagkerfi þar sem hinir efnamestu eru skattlagðir umfram hina tekjulægri en sú stefna hefur skilað mestri hagsæld og mestum jöfnuði.

Þó að tekjujöfnuður á mælikvarða launatekna sé meiri á Íslandi en víðast hvar annars staðar er eignastaðan mjög ójöfn. Ríkustu tíu prósentin eiga um þrjá fjórðu allra eigna en eignaminnstu þrjátíu prósentin eiga nánast ekkert eða minna en ekkert. Endurdreifing fjármagns, með því að draga úr tekjumun og styrkja stöðu hinna tekjulægstu, skilar sér hratt og örugglega út í samfélagið og eykur hagsæld.

Eins þarf að nást sátt um nýja mælikvarða, velsældarmælikvarða sem meta hagsæld, félagslegan auð, kynjasjónarmið og loftslagsmarkmið en ekki eingöngu hagvöxt. Slíkir mælikvarðar gera það kleift að byggja efnahagsstjórn á fjölbreyttari sjónarmiðum en áður hefur verið gert og leggja grunn að skilvirku, réttlátu og grænu skattkerfi sem stuðlar að jöfnuði. Stjórnvöld eiga að auka verðmæta- og nýsköpun á öllum sviðum til að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf og tryggja að íslenskt samfélag og atvinnulíf sé sem best í stakk búið til að takast á við áskoranir tæknivæðingar, loftslagsbreytinga og annarra fyrirsjáanlegra samfélagsbreytinga.

Skattkerfið þarf sífellt að vera til skoðunar og í víðtæku samráði stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og fjölbreytt heildarsamtök. Skoða þarf sérstaklega breytingar vegna aukinnar sjálfvirkni og tæknivæðingar sem á eftir að hafa róttæk áhrif á íslenskan vinnumarkað og greina til hvaða aðgerða þarf að grípa til að tryggja mannsæmandi kjör launafólks. Þá á að uppræta skattaskjól og aflandsfélög enda eru þau til þess fallin að koma hagnaði undan eðlilegri skattlagningu sem síðan bitnar á jöfnuði og velferð samfélagsins alls.

Ríkisfjármál og skattar

Ríkisfjármál eru í raun reikningshald samneyslu og samhjálpar. Þau verða að samræmast markmiðum samfélagsins og því er það pólitísk ákvörðun hver útgjöldin eiga að vera og hverjar tekjurnar. Skattkerfið byggist því á félagslegum og efnahagslegum markmiðum. Skattkerfið er langáhrifamesta tæki samfélagsins til að auka jöfnuð og sanngirni í samfélaginu. Jöfnuður er í sjálfu sér ekki aðeins réttlætismál heldur líka mikilvægt hagstjórnarmarkmið. Um það vitnar fjöldi alþjóðlegra rannsókna og skýrslna sem allar sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti og veldur óánægju og óstöðugleika.

  • Efnahagsstefnan á að draga úr ójöfnuði sem leiðir til réttlátara og auðugra þjóðfélags. Styrkja þarf enn betur kynjaða hagstjórn og kynjaða fjárlagagerð. Skattar og virk hagstjórnartæki eiga að tryggja öflugt velferðarsamfélag og stuðla að jöfnuði.
  • Aðgerðir í skattamálum eiga að þjóna markmiðum um öflugt velferðarsamfélag, aukinn jöfnuð og önnur samfélagsleg markmið, svo sem í umhverfismálum, lýðheilsu og byggðamálum.
  • Persónuafsláttur á að nýtast lág og millitekjuhópum sem best og fylgja þróun verðlags. Tryggja þarf að tekjulægstu hóparnir, sem eru undir markmiðum um grunnframfærslu, séu undir skattleysismörkum.
  • Innleiða skal hóflegan auðlegðarskatt á eignir einstaklinga, að undanskildu íbúðarhúsnæði, og einnig þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt. Halda skal tekjuskatti eðlilega þrepaskiptum eins og nú er og ætti skattprósentan á ofurtekjur að vera umtalsvert hærri en á lægri tekjur og venjulegar launatekjur. Tryggja þarf aukið jafnræði með því að loka leiðum til að fela tekjur og einkaneyslu í einkahlutafélögum.
  • Grænar skattaívilnanir geta nýst til að ná markmiðum í umhverfismálum. Nýfjárfestingar eiga að uppfylla loftslagsmarkmið og ekki skulu gerðir frekari ívilnandi fjárfestingasamningar um mengandi starfsemi. Skattaívilnunum ætti einnig að beita til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum sem og til matvælaframleiðslu sem uppfyllir loftslags- og sjálfbærnimarkmið.
  • Innheimta á gjald af nýtingu auðlinda og skal það renna í sameiginlega sjóði samfélagsins og endurspegla að auðlindirnar eru eign þjóðarinnar. Auðlindagjald er greiðsla til að nýta takmörkuð gæði til afmarkaðs tíma. Lykilatriði er að auðlindagjöld séu arðgreiðslur en ekki skattar.
  • Fjármagnstekjuskattur eða einskonar ígildi útsvars á að renna til sveitarfélaga sem fá ekki tekjur af þeim sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt. Gjaldendur fjármagnstekjuskatts dreifast misjafnlega á sveitarfélögin en jafna mætti dreifingu þeirra tekna milli sveitarfélaganna t.d. í gegnum Jöfnunarsjóð sveitafélaga.
  • Stórefla þarf skattaeftirlit og skattrannsóknir til að stemma stigu við skattaundanskotum einstaklinga og fyrirtækja á kostnað velferðarsamfélagsins. Nýtingu aflandsfélaga í skattaskjólum á að banna eða takmarka sem kostur er. Ísland á að leggja sitt lóð á vogarskálar í alþjóðlegri viðleitni til að koma böndum á fjölþjóðafyrirtæki og auðhringa sem koma sér undan eðlilegum skattgreiðslum með klækjabrögðum.
  • Ísland á að vera virkur þátttakandi alþjóðlegu samstarfi í skattamálum um upplýsingaskipti og aukið gagnsæi. Vextir, þóknanir og þjónustugreiðslur til aðila á lágskattasvæðum verði skattlögð sérstaklega og þannig markvisst unnið gegn aflandsfélögum í skattaskjólum.

Lög um opinber fjármál

Lög um opinber fjármál, fjármálareglur og fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga þarf að endurskoða í ljósi reynslunnar eftir heimsfaraldur kórónuveiru. Reglurnar settu skynsamlegri hagstjórn og beitingu opinberra fjármála til sveiflujöfnunar á erfiðleikatímum of þröngar skorður eins og kom í ljós þegar þjóðin var að glíma við efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins.

  • Lög um opinber fjármál og fjármálareglur þurfa áfram að tryggja vandaða áætlanagerð og sjálfbærni, en mikilvægt er að læra af reynslu síðustu ára. Of hröð niðurgreiðsla skulda eftir að efnahagsáföll eru um garð gengin getur beinlínis skaðað mikilvæga samfélagsinnviði svo sem heilbrigðis- og menntakerfið.
  • Fjármálareglur mega ekki binda hendur stjórnvalda um of og takmarka möguleika þeirra til hagstjórnar, hvort sem er á þenslu- eða samdráttartímum. Hefja þarf vandaða vinnu við endurskoðun þessa regluverks sem taki einnig til þess hvernig nýjar og raunhæfari reglur taki gildi á nýjan leik.
  • Lagður hefur verið grunnur að heilbrigðara og sterkara innlendu fjármálakerfi frá Hruni. Má í því sambandi nefna umfangsmiklar lagabreytingar og margvíslegar ráðstafanir um bankastarfsemi og viðskiptavenjur fjármálafyrirtækja. Brýnt er að slá hvergi slöku við í að tryggja að svo megi áfram vera.
  • Ríkið á áfram að vera eigandi Landsbankans. Gera þarf nauðsynlegar lagabreytingar til að skapa umgjörð um starfsemi samfélagsbanka sem starfa samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum.
  • Greina þarf umfang svokallaðrar skuggabankastarfsemi í íslensku efnahagslífi og hættur sem þar kunna að geta byggst upp. Skoða þarf lánveitingar lífeyrissjóða og ýmiskonar fjártæknifyrirtækja, bæði frá sjónarhóli neytendaverndar og kerfisáhættu.
  • Húsnæði eru grundvallarmannréttindi og eðlilegt að áfram verði til félagslegur húsnæðislánasjóður sem tryggi meðal annars lán til kaupa á húsnæði um land allt. Fara þarf heildstætt yfir húsnæðisstuðningskerfi hins opinbera og meta hvert eigi að stefna til framtíðar þannig að húsnæðisstuðningur hins opinbera verði efldur og nýtist fyrst og fremst lág- og meðaltekjuhópum.
  • Draga þarf áfram úr vægi verðtryggingar með auknu framboði á óverðtryggðum lánum en einnig með því að fjölga þeim tækjum sem eru fyrir hendi til að fylgja eftir peningastefnu stjórnvalda og lækka þannig vaxtakostnað almennings.

Samspil efnahagsstjórnar og vinnumarkaðar

Mikilvægt er að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði. Sá stöðugleiki má ekki snúast um að halda láglaunahópum niðri og grafa undan velferðarkerfinu. Sátt á vinnumarkaði byggist á sátt um velferðarkerfið. Þjóðhagsráð er mikilvægur vettvangur til að fjalla um félagslegan og efnahagslegan stöðugleika og þar þarf verkalýðshreyfingin að hafa sterka rödd.

  • Skoða þarf kosti þess að komið verði á laggirnar sjálfstæðri Þjóðhagsstofnun og unnar séu langtíma þjóðhagsáætlanir til þess að forðast kollsteypur í íslensku efnahagslífi.
  • Efla þarf bæði skattaeftirlit og vinnueftirlit með markvissum aðgerðum til að unnt verði að skapa almenna sátt um eðlilega launaþróun í landinu. Þannig verði spornað gegn launastuldi og markvisst barist gegn mansali og þrælahaldi sem er svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði.
  • Skoða þarf hvort unnt sé að skylda vinnuveitendur til að upplýsa um launabil innan fyrirtækja í ársreikningum og efna til víðtæks samtals um hvað sé ásættanlegur launamunur í samfélaginu, svo sem hvort hann eigi að vera þrefaldur eða fjórfaldur.
  • Stefnt skal að því að minnka launabilið og útrýma launamun kynjanna. Slíkar aðgerðir, ásamt skýrri framtíðarsýn um skattkerfið og velferðarsamfélagið, eru grundvöllur þess að unnt verði að ná og viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði.

Gjaldmiðilsmál

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur ríka áherslu á samstarf við önnur Evrópulönd en telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Hins vegar er hreyfingin reiðubúin að leggja það mál í hendur þjóðarinnar enda er um afdrifaríka ákvörðun að ræða sem eðlilegt er að allur almenningur hafi skoðun á.

  • Leggja þarf mat á þá raunhæfu valkosti sem eru taldir bjóðast í gjaldmiðilsmálum. Annars vegar áframhaldandi sjálfstæð peningastefna með íslenskri krónu og hins vegar innganga í Evrópusambandið og aðild að Myntbandalagi Evrópu, með upptöku evru og þátttöku í samevrópskri peningastefnu.
  • Ljóst er að Ísland mun nýta sér krónuna sem gjaldmiðil næstu árin og því þarf að tryggja að peningastefnan fari saman við ríkisfjármálastefnu og taki mið af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika.

Skýringar sem munu birtast í sprettgluggum við stefnu um efnahagsmál

Sérstakt hátekjuþrep í tekjuskatti

Til að taka á svokölluðum ofurtekjum, til dæmis í kaupaukum, ætti að setja á sérstakt hátekjuþrep í tekjuskattskerfinu sem tekur á mjög háum tekjum en kemur við tiltölulega fáa aðila.

Umhverfisskattar

Kolefnisgjald er ein áhrifamesta skattlagningin til að draga úr notkun óendurnýjanlegra orkugjafa. Kolefnisgjald og skattar ájarðefnaeldsneyti eru almennt lægri hér á landi en hjá öðrum Norðurlöndum. Með því að hækka gjöldin og afnema undanþágur frá kolefnisgjaldi væri hægt að draga úr losun mengunar og gróðurhúsalofttegunda og tekjur myndu renna í ríkissjóð.

Lýðheilsuskattar

Skattar á óholla mat- og drykkjarvöru eru áhrifarík leiði til að bæta heilsu fólks. Vöruflokka sem innihalda sykraða mat- og drykkjarvöru á að skattleggja , t.d. með því að færa þá í hærra þrep virðisaukaskatts.

Komugjöld og gistináttaskattur

Setja á komugjöld á farþega og breyta gistináttaskatti þannig að hann sé í hlutfalli við verð gistinátta. Ennfremur á gistináttaskattur eða hluti hans  að renna til sveitarfélaga, eftir atvikum í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Auðlegðarskattur

Auðlegðarskattur er nauðsynlegur hluti af tekjuskattkerfinu til að draga úr ójafnri skiptingu auðs. Eðlilegt er að húsnæði fjölskyldna í neðri skattþrepum séu undanþegnar en stóreignafólk borgi sanngjarnan hlut sinn til samfélagsins.

Þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur

Fjármagnstekjuskattur leggst á skuldabréfaeign, tekjur af vöxtum, leigu á húsnæði og hagnað af sölu fasteigna og verðbréfa. Annaðhvort ætti að hafa fjármagnstekjuskatt þrepaskiptan eða þá hækka frítekjumarkið/skattleysismörk á fjármagnstekjur og skattleggja síðan miklar tekjur í takt við almennar launatekjur.

Lýðræðislegt samfélag

Öll eiga að hafa tækifæri til að móta samfélag sitt óháð fjárráðum, heilsu, menntun eða stöðu að öðru leyti. Svigrúm til þátttöku í lýðræðislegum verkefnum ásamt aðgengi að traustum og gagnreyndum upplýsingum, staðreyndum og samhengi þeirra, er hverri manneskju mikilvægt. Sérstaklega þarf að huga að valdeflingu minnihluta- og jaðarhópa. Það á að standa vörð um almannahagsmuni gegn sérhagsmunum og vinna gegn spillingu. Ljúka þarf heildstæðri endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Kjölfesta Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er þátttaka almennra félaga hennar um land allt, í starfi, stefnumótun og ákvörðunum. Starfið einkennist af opnum samræðum í raunheimum og netheimum þar sem félagar koma saman, móta hugmyndir, leysa úr álitamálum og koma stefnu hreyfingarinnar á framfæri og í framkvæmd.

Ávallt skal leitast við að ná samhljóða niðurstöðu í ákvarðanatöku og taka skal sérstakt mið af hagsmunum jaðar- og minnihlutahópa með valdeflingu þeirra að markmiði.

Fulltrúar hreyfingarinnar framfylgja stefnu hennar og ákvörðunum og haga störfum sínum í samræmi við þær.

Stjórnkerfi og fjölmiðlar

  • Aðgangur að traustum upplýsingum er forsenda upplýstrar umræðu. Mikilvægt er að efla miðla- og upplýsingalæsi, sporna gegn upplýsingaóreiðu og tryggja að miðlað sé á aðgengilegan hátt til allra samfélagshópa.
  • Gagnsæi, opin stjórnsýsla og faglegar ráðningar skulu ávallt viðhöfð hjá stjórnvöldum.
  • Tryggja skal opinber og fyrirsjáanleg framlög til stjórnmálahreyfinga.
  • Lögbinda skal hámarks hlutfall framlaga lögaðila af heildarframlögum til stjórnmálaflokka.
  • Fjölga þarf tækifærum almennings til þess að taka ákvarðanir í þágu samfélagsins alls og skapa vettvang fyrir rökræður, samráð og sameiginlega ákvarðanatöku, meðal annars með aðferðafræði slembivals.
  • Almenningur á að geta lagt fram tillögur til Alþingis og sveitarstjórna sem taka skal til umfjöllunar. Miða má við að 2% kosningabærra geti sett mál á dagskrá.
  • Tryggja skal lýðræðislega þátttöku nemenda í skólastarfi þar sem þau læra lýðræðisleg vinnubrögð og eru upplýst um réttindi sín og skyldur.
  • Kosningaaldurinn skal lækkaður í 16 ár.
  • Framfylgja þarf betur ákvæðum upplýsingalaga og auka aðgang fólks með aðgengilegum hætti að upplýsingum sem varða almannahagsmuni.
  • Verja skal sjálfstæði fjölmiðla og ritstjórnarlegt frelsi. Styðja skal fjölmiðla sem sinna óháðri fréttaöflun, greinandi blaðamennsku og halda úti lýðræðislegri samfélagsumræðu.
  • Uppljóstrarar eiga að hafa leiðir til að koma upplýsingum til réttra aðila án þess að óttast um sinn hag.
  • Ríkisútvarpið skal áfram vera öflugur fjölmiðill í almannaþágu, rekinn fyrir útvarpsgjald og sjálfsaflafé.

Umbætur á stjórnarskrá

  • Ljúka skal heildstæðri endurskoðun stjórnarskrárinnar og breytingar á henni skulu tryggja lýðræði og mannréttindi á tímum mikilla samfélagsbreytinga.
  • Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar skal endurskoðaður með sérstöku tilliti til loftslagsvárinnar og hraðra tæknibreytinga, þ.m.t. notkun gervigreindar.
  • Umhverfis- og náttúruvernd á að vera hluti af stjórnarskránni og tryggja skal rétt fólks til þeirra mikilvægu mannréttinda sem heilnæmt umhverfi er.
  • Réttur fólks til frjálsrar farar um landið skal vera virtur enda hefur almannarétturinn verið í íslenskri löggjöf allt frá Jónsbók.
  • Ákvæði um auðlindir í þjóðareign er grundvallaratriði við endurskoðun stjórnarskrárinnar.
  • Endurskoða á kjördæmaskipan og vægi atkvæða.

Vinnumarkaður og tækniþróun

  • Styðja þarf framgang lýðræðislegra fyrirtækja og styrkja atvinnulýðræði með löggjöf.
  • Greiða þarf götu fyrirtækja og félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Hægt væri að efla samvinnufélagaformið í þessu tilliti.
  • Hið opinbera á að geta rekið stofnanir og félög á samfélagslegum forsendum, einnig á samkeppnismarkaði.
  • Upplýsingar um raunverulega eigendur, krosseignatengsl og ársreikninga skulu vera aðgengilegar almenningi.
  • Starfsfólk á að geta átt hlutdeild í stjórnum fyrirtækja og hafa ráðgjafarétt auk upplýsingaréttar um fjárhagslega stöðu og framtíðaráform.
  • Starfsfólk sem starfar hjá fyrirtækjum á að fá til sín tiltekið hlutfall ágóða eða arðgreiðslna úr þeim.
  • Launafólk á að njóta virðisauka sem fæst með notkun gervigreindar og sjálfvirknilausna, til að mynda með styttri vinnutíma, hærri launum, auknu starfsöryggi, bættu vinnuumhverfi og betri kjörum.
  • Tryggja þarf að gervigreind sé notuð á þann hátt að hún ýti ekki undir eða viðhaldi mismunun, að höfundar- og sæmdarréttur sé virtur í hvívetna við notkun hennar og að komið verði í veg fyrir að hún sé notuð í stafrænu kynferðisofbeldi, til valdníðslu eða til að ýta undir hatursorðræðu.

Orkumál

Orkunýting á Íslandi á að byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, þar sem orka landsins er nýtt til að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Náttúran skal ávallt njóta vafans við orkuöflun og flutning. Orka telst til grunnþarfa í nútíma samfélagi rétt eins og hreint vatn, húshitun og fjarskipti. Flutningskerfi hennar á að vera hluti af sameiginlegum innviðum sem almenningur getur treyst á. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á sjálfbæra forgangsröðun þegar framleiddrar orku. Greiða þarf tilhlýðilegt afgjald þegar auðlindir í eigu þjóðarinnar eru nýttar. Orkuöflun þarf að lúta lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Orku til allra landsmanna

  • Allir landsmenn eiga að búa við gott aðgengi að raforku, fullnægjandi afhendingaröryggi og jafnan dreifingarkostnað. Samræma þarf í lögum og reglugerðum skilgreiningar á afhendingaröryggi og setja þarf lagaákvæði um ábyrgð orkufyrirtækja til að uppfylla orkuþörf fólksins í landinu.
  • Krafa skal gerð til stórnotenda að greitt sé tilhlýðilegt verð fyrir orkuna sem og allan kostnað við flutning og afhendingu hennar. Eigendastefna Landsvirkjunar, sem og annarra orkufyrirtækja í opinberri eigu, þarf að taka mið af þessu.
  • Styrkja þarf flutningskerfi raforku til að tryggja afhendingaröryggi og jafnt aðgengi til orkuskipta um allt land.
  • Við verðlagningu raforku þarf að tryggja neytendavernd orkuverðs gagnvart heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Slík verðlagning á ekki að taka mið af hagnaðarkröfu opinberra orkufyrirtækja og annarra orkuframleiðenda.
  • Leggja verður sérstaka áherslu á að lækka raforkukostnað innlendrar matvælaframleiðslu svo sem garðyrkju til að auka sjálfbærni samfélagsins og matvælaöryggi þjóðarinnar.
  • Íslensk stjórnvöld og fyrirtæki í opinberri eigu skulu ekki stunda sölu upprunaábyrgða til aðila innan ESB. Þá þurfa þau að leggja áherslu á raunverulegt gagnsæi í kolefnisbókhaldi.
  • Ekki skal greiða götu erlendra fyrirtækja að orkuauðlindum Íslands.

Orkuöflun í sátt við samfélag og náttúru

  • Umhverfisrannsóknir og náttúruverndarsjónarmið eiga að vera grundvöllur fyrir ákvörðunum um uppbyggingu orkumannvirkja. Sjálfbærni skal höfð að leiðarljósi í orkuöflun og gæta verður varúðar- og verndarsjónarmiða við hana.
  • Taka ber viðmið um svokallaðar smávirkjanir til gagngerrar endurskoðunar og breyta þannig að við ákvarðanir um þær verði horft til mögulegra umhverfisáhrifa í stað uppsetts afls.
  • Horfa skal sérstaklega til mikilvægis óbyggðra víðerna, náttúruminja og ásýndar lands við ákvarðanir um uppbyggingu orkumannvirkja. Byggja þarf þær ákvarðanir á landupplýsingum og afla gagna fagaðila um viðmið og forsendur verndar óbyggðra víðerna og vistkerfa. Á svæðum þar sem miklir náttúruverndarhagsmunir eru undir ber að friða svæðið fyrir orkuvinnslu og línulögnum.
  • Stórvirkjanir í þágu mengandi stóriðju samrýmast ekki sjálfbærri orkustefnu. Herða þarf kröfur á stóriðjuver hérlendis um að taka meiri ábyrgð og draga verulega úr orkunotkun og mengun á öllum sviðum.
  • Vinna skal gegn öllum hugmyndum varðandi orkusölu um sæstreng til annarra landa en slíkur strengur og útflutningur á rafeldsneyti kallar á fleiri virkjanir og raskar þannig verðmætum víðernum, náttúruminjum og ógnar líffræðilegri fjölbreytni. Það er forgangsmál að framleiðsla á raforku sé til uppbyggingar á grænu og kolefnishlutlausu samfélagi innan lands í þágu orkuskipta. Útflutningur á raforku mun gera grænni starfsemi á Íslandi erfitt að afla sér orku á samkeppnishæfu verði.
  • Eigi nýjar virkjanir að ná markmiðum Íslands um full orkuskipti fyrir árið 2040 verður að ríkja sátt um það hvernig og hvar orkunnar er aflað. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í sátt við samfélagið. Kalla þarf eftir afstöðu almennings og félagasamtaka m.t.t. náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiða vegna þessa.
  • Áhersla skal vera á betri orkunýtingu og minna orkutap í kerfum, bæta þarf nýtingu í virkjunum sem fyrir eru og horfa til nýrrar tækni og aðferða við orkuöflun.
  • Leita þarf sjálfbærari leiða við nýtingu vatnsafls, efla rannsóknir á nýjum orkulindum og taka þátt í þróun og framleiðslu vetnis, metans og lífeldsneytis sem mögulegs orkugjafa til framtíðar að teknu tilliti til náttúruverndar.
  • Gera skal þá ófrávíkjanlegu kröfu við áætlanagerð, skipulagningu og uppbyggingu orkumannvirkja að sveitarfélög og framkvæmdaaðilar sýni samfélagslega ábyrgð.
  • Brýnt er að framkvæmdir skapi ekki sundrungu og togstreitu meðal heimamanna.
  • Rafmyntargröftur og önnur orkufrek starfsemi sem ekki nýtist til uppbyggingar græns og sjálfbærs samfélags er orkusóun sem minnka þarf í áföngum og hætta fyrir árið 2030.

Orkuskipti

  • Meta þarf orkuþörf landsins til framtíðar af aðilum sem ekki hafa hagsmuna að gæta.
  • Tryggja þarf forsendur hraðra orkuskipta á landinu með nauðsynlegu fjármagni, skipulagningu og vísindarannsóknum.
  • Forgangsraða þarf orkunýtingu í þágu innlendra orkuskipta og flýta þarf útfösun á jarðefnaeldsneyti svo Ísland verði óháð því eigi síðar en 2040.
  • Binda skal framleiðslu á rafeldsneyti við innanlandsmarkað til að tryggja innlend orkuskipti.
  • Áhersla skal vera á að öll samgöngutæki í almannaeigu gangi fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum. Fækka þarf verulega farartækjum sem knúin eru með hefðbundnu jarðefnaeldsneyti.
  • Taka verður upp hvatakerfi með það í huga að vinnuvélar og stórir bílar geti skipt yfir í hreinni orkugjafa og flýta þarf sérstaklega rafvæðingu hafna með sérstakri gjaldtöku á skemmtiferðaskip til að mæta þeim kostnaði. Fylgja þarf eftir reglugerð um bann við notkun svartolíu í landhelgi Íslands.
  • Þá verður að flýta orkuskiptum í flugi. Setja þarf innanlandsflugi raunhæf tímamörk í orkuskiptum.

Vindorka

  • Marka þarf stefnu hið fyrsta um nýtingu vindorku á landi og hafi í íslenskri lögsögu og setja þarf skýrar reglur um innheimtu auðlindagjalds af vindorkuvirkjunum sem renna á til samfélagsins alls. Skýrar reglur þurfa að gilda um vindorkuver t.d. um stærð þeirra, efni, lit og annað eftir því hver áhrif þeirra eru á umhverfið.
  • Vindorka skal áfram heyra undir rammaáætlun. Framkvæmdir verða að lúta lögum og reglum um mat á umhverfisáhrifum. Aðlaga skal reglur um mat á umhverfisáhrifum að byggingu vindorkuvera.
  • Leyfi til undirbúningsframkvæmda eða tilrauna vegna vindorkuvera skal ekki veita fyrr en skýrar reglur um uppbyggingu þeirra liggja fyrir. Útgefin leyfi verða að kveða á um ábyrgð á niðurrifi og förgun úrsérgenginna vindorkumannvirkjana.
  • Afleiðingar orkuöflunar með vindi þarf að rannsaka nánar á Íslandi og kynna fyrir almenningi áður en teknar eru óafturkræfar ákvarðanir. Gera skal ríka kröfu til þess að sýnt sé fram á hvort vindorkuver samræmist og falli að íslenskum aðstæðum, náttúru, lífríki, víðernum, samfélagi og orkuinnviðum.
  • Þegar kemur að úthlutun takmarkaðra sameiginlegra gæða eins og virkjanaleyfa skulu fyrirtæki í almannaeigu hafa forgang.
  • Vindorkuver á landi eiga aðeins heima á þegar röskuðum svæðum með tengingu við orkuinnviði sem fyrir eru í almannaeigu.

Velferðarsamfélagið

Velferðarsamfélagið er samfélag félagslegs réttlætis og velferðar einstaklinga og fjölskyldna, þar sem ríkir virðing fyrir fjölbreytileika og almannaþjónusta mætir þörfum hvers og eins. Velferð og félagslegt réttlæti eru ein af grunnstoðum sjálfbærrar þróunar. Árangur í baráttunni við loftslagsbreytingar og vernd líffræðilegrar fjölbreytni er grunnforsenda fyrir velferðarsamfélaginu.

Lykilþættir velferðarsamfélags eru öflug félags-, velferðar- og heilbrigðisþjónusta, aðgengi að öruggu húsnæði og að framfærsla fólks dugi til að lifa heilbrigðu og valfrjálsu lífi. Aðgengi að velferðarþjónustu eru mannréttindi. Mikilvægt er að forgangsraða þjónustu til fyrir þau sem njóta ekki sömu tækifæra vegna aðstæðna sinna. Forvarnir, snemmtæk þjónusta og samþætting þjónustu ólíkra kerfa eru lykilatriði til framtíðar.

Félags- og velferðarþjónusta

Sterk og fagleg félags- og velferðarþjónusta er grundvallarstoð í réttlátu og öflugu samfélagi. Íbúar allra sveitarfélaga þurfa að hafa gott aðgengi að félagslegri ráðgjöf og þjónustu sem mætir þörfum þeirra í ólíkum áskorunum á lífsleiðinni. Heildarsýn, virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings, hjálp til sjálfshjálpar og stuðningur til fullrar þátttöku í samfélaginu skal vera markmið góðrar velferðar- og félagsþjónustu.

  • Réttur fólks til grunnþjónustu á að vera tryggður með skilgreiningu á lámarksþjónustuviðmiði ríkis og sveitarfélaga. Samþætta þarf þjónustu ólíkra kerfa til að mæta sem best þörfum einstaklinga og fjölskyldna með virðingu fyrir fjölbreytileika og mismunandi þörfum og styrkleikum fólks. Réttur til þjónustu á ávallt að byggja á þörfum hvers og eins, óháð aldri og stöðu og skal rauði þráðurinn í allri þjónustu vera valdefling.
  • Öll börn eiga að hafa jafnt aðgengi að frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.
  • Brýnt er að endurskoða lög og bæta aðstæður langveikra og alvarlega fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra.
  • Það þarf að styðja betur og valdefla þolendur hvers kyns ofbeldis og koma á viðeigandi laga- og reglugerðarumhverfi fyrir þjónustu vegna ofbeldis, með áherslu á forvarnir og stuðning við þolendur og gerendur ofbeldis.
  • Samþætta og efla skal þjónustu sveitarfélaga og heilbrigðiskerfis við eldra fólk svo það geti búið heima eins lengi og kostur er og draga þannig úr þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma. Leggja ber áherslu á fjölgun endurhæfingar- og dagþjálfunarrýma.

Heilbrigðisþjónusta

Greiður aðgangur að heilbrigðisþjónustu er meðal mikilvægustu réttinda einstaklinga og jafnframt hagur samfélagsins í heild. Þjónustan skal miða að bættum lífsgæðum og jöfnuði óháð efnahag, búsetu eða aðstæðum. Heilbrigðisþjónusta skal vera fjármögnuð með skattfé og starfrækt á opinberum grunni. Einkarekstur í ágóðaskyni á ekki heima í heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að Heilbrigðisstefnu til ársins 2030 verði fylgt og aðgerðaáætlanir hennar verði fjármagnaðar að fullu. Horfa þarf heildstætt á alla velferðarþjónustu og tryggja samþættingu ólíkra kerfa.

  • Gott aðgengi að heilnæmu umhverfi er lýðheilsumál og efla þarf forvarnir með fræðslu í heilbrigðisþjónustu hins opinbera. Bak við allar þýðingamiklar breytingar sem snerta lýðheilsu þjóðarinnar þarf að liggja mat í samræmi við velsældarhagkerfið sem stefnt er að.
  • Heilbrigðisútgjöld þurfa að lækka sem hlutfall af tekjum heimila og sjúklingagjöld í heilsugæslu og á sjúkrahúsum skulu afnumin. Lágmarka á gjöld fyrir sérfræðiþjónustu og lækka lyfjakostnað sjúklinga með hagkvæmari innkaupum.
  • Aðgengi að lyfjum má ekki ráðast af öðru en faglegu mati lækna og alls ekki af fjárráðum viðkomandi sjúklings eða þeim fjölda sem þarf á sama lyfi að halda. Lyf fyrir börn og ungmenni skulu vera endurgjaldslaus.
  • Heilsugæslan sinnir grunnþjónustu við íbúa í nærumhverfi með þverfaglegu teymi heilbrigðisstétta og hana þarf að efla frekar. Það á líka við um heilbrigðisþjónustu í öllum landshlutum þar sem áhersla skal lögð á heilsueflingu, endurhæfingu, bráðaþjónustu og gott aðgengi að öruggri fæðingarþjónustu.
  • Marka þarf skýra stefnu um það hvaða þjónusta önnur en hefðbundin heilsugæsluþjónusta, s.s. þjónusta sérgreinalækna, teljist til nærþjónustu og skuli veita reglulega í öllum heilbrigðisumdæmum.
  • Sjúkrahúsið á Akureyri á að verða fullgilt háskólasjúkrahús sem getur gegnt enn stærra hlutverki í menntun heilbrigðisfagfólks, sjúkraflugi og almannavörnum á landsvísu.
  • Brýnt er að ljúka við byggingu nýs Landspítala og jafnframt efla hann í að sinna sínu fjölþætta hlutverki sem háskólasjúkrahús með öflugum vísindarannsóknum á heilbrigðissviði. Skýra þarf hlutverk spítalans gagnvart landsbyggðinni og fjárveitingar til hans þurfa að taka tillit þess, s.s. vegna mönnunar og tæknibúnaðar tengdum fjarþjónustu.
  • Bætt vinnuaðstaða og kjör heilbrigðisstarfsfólks getur orðið til þess að fleiri sækja menntun á heilbrigðissviði. Eins þarf að bregðast við brotthvarfi heilbrigðisstarfsfólks úr starfi og leita leiða til að fá nýútskrifað fólk til starfa. Því er mikilvægt að skilgreina umfang og eðli verkefna í mönnunarlíkani og tryggja með því aukin gæði og öryggi allra.
  • Biðlistar eftir greiningum og þjónustu við börn þurfa að styttast og fræðsla til umönnunaraðila þarf að vera tryggð. Efla þarf frekar geðheilbrigðisþjónustu í nærsamfélaginu þar sem batahugmyndafræðin er höfð að leiðarljósi. Samhliða eflingu þjónustunnar þarf að tryggja réttindi geðsjúkra, vinna gegn fordómum um geðsjúkdóma og hrinda í framkvæmd stefnumörkun í geðheilbrigðismálum. Mikilvægt er að auka áhrif notenda á þjónustuna á öllum stigum.
  • Þörf er á markvissri stefnu í áfengis-, tóbaks- og vímuvarnarmálum og festa hana í sessi í lögum og reglugerðum.
  • Vöntun er á meðferðarúrræðum um allt land fyrir fólk með áfengis- og vímuefnavanda og stuðningsúrræðum eftir að meðferð lýkur. Fyrir fólk í neyslu þurfa úrræði skaðaminnkunar og almenn heilsuvernd að vera aðgengileg.

Húsnæðismál

Grundvallarþáttur í velferð einstaklinga og fjölskyldna er að geta eignast öruggt heimili. Það á að tryggja aðgengi allra að öruggu og heilsusamlegu húsnæði á viðráðanlegu verði. Sjálfbær og fjölbreyttur húsnæðismarkaður með félagslegri blöndun, sterkum innviðum og náttúrunni umlykjandi þarf að vera meginstef í allri uppbyggingu. Það á að hafna uppbyggingu húsnæðis út frá hagnaðarsjónarmiðum og koma böndum á síhækkandi húsnæðisverð og gróðradrifna uppbyggingu verktaka. Brýnt er að ná utan um kolefnisspor byggingariðnaðarins og gera áætlanir um að draga hratt og örugglega úr því svo stemma megi stigu við loftslagsbreytingum.

  • Stjórnvöldum ber að móta skýra stefnu í húsnæðismálum og hafa öflugt eftirlit með húsnæðismarkaðnum hverju sinni. Aðgerðir stjórnvalda eiga að byggja á gögnum og tryggja að hagsmunir þeirra verst settu séu hafðir að leiðarljósi.
  • Stjórnvöld eiga að skoða af fullri alvöru að endurreisa félagslega eignaíbúðakerfið til að fjölga valkostum á húsnæðismarkaði.
  • Það á að tryggja aukið framboð af fjölbreyttu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði um allt land. Til þess á að efla óhagnaðardrifin leigufélög svo auka megi möguleika á öruggri langtímaleigu á viðráðanlegu verði. Með því að auka aðgengi þeirra að lánsfé og fjölga stofnstyrkjum innan almenna íbúðakerfisins er hægt að tryggja öruggan rekstrargrundvöll þeirra.
  • Skýrari lagaramma skortir um leigumarkaðinn og aukið eftirlit. Koma þarf í veg fyrir óhóflegar hækkanir á leigumarkaði, til dæmis með því að innleiða leigubremsu- eða þak.
  • Halda skal áfram að þróa hlutdeildarlán sem ætluð eru fyrstu kaupendum til að gera fleirum kleift að komast inn á húsnæðismarkaðinn.
  • Standa þarf vörð um Húsnæðissjóð, sem stofnaður var að norrænni fyrirmynd, til að fjármagna húsnæði á samfélagslegum grunni.

Vinnumarkaðsmál

Það er hlutverk stjórnvalda að skapa umhverfi þar sem heilbrigður vinnumarkaður getur þróast. Það er gert með lagaumhverfi sem kemur í veg fyrir mismunun og misnotkun, virku eftirliti og afleiðingum fyrir þau sem brjóta gegn starfsfólki. Vinnumarkaðurinn á að vera sveigjanlegur, opinn og öruggur þar sem fólk með mismikla starfsgetu fær raunveruleg tækifæri til að njóta sín í starfi og frístundum. Verkalýðshreyfingin er sterkasta afl vinnandi fólks til að sækja fram og verja réttindi launafólks og stjórnvöld eiga að vera í virku samtali og samstarfi við verkalýðshreyfinguna um að finna leiðir til að bæta kjör fólks í landinu.

  • Lágmarkslaun eiga að duga til framfærslu.
  • Útrýma á launamun kynjanna með því að endurmeta virði kvennastarfa og brjóta upp hinn kynskipta vinnumarkað.
  • Stytta á vinnuvikuna enn frekar.
  • Launaleynd skal með öllu afnumin.
  • Innleiða á lýðræði á vinnustöðum.
  • Stöðva skal félagsleg undirboð, gerviverktöku, launaþjófnað og mansal. Launaþjófnað verður að gera refsiverðan eins og annan fjárdrátt og þjófnað.
  • Það á að tryggja ábyrgð vinnuveitanda á vinnuaðstöðu launafólks samhliða þróun í átt að aukinni fjarvinnu fólks.
  • Það á að tryggja fullnægjandi upplýsingar um íslenskan vinnumarkað til þeirra sem koma erlendis frá að vinna á Íslandi.
  • Vinnumarkaðurinn á að vera opinn fyrir fjölbreytileika fólks í samfélaginu og bjóða upp á mun fleiri hlutastörf og sveigjanleg störf en nú er. Auka á sérstaklega tækifæri fatlaðs fólks á vinnumarkaði.
  • Eldra fólk á að hafa sveigjanleika við starfslok og það á að gera því kleift að vera virkt á vinnumarkaði.
  • Meta þarf áhrif loftslags- og tæknibreytinga á íslenskan vinnumarkað og setja fram aðgerðir til að mæta þeim, þar sem réttlát umskipti eru lykilatriði. Launafólk á að njóta ávinnings af tæknibreytingum til jafns við atvinnurekendur.
  • Endurmenntun og símenntun á að vera aðgengileg fyrir fólk í öllum störfum. Vinna þarf nýja stefnu og löggjöf um framhaldsfræðslu svo betur megi takast á við samfélagsþróun og breytingar á vinnumarkaði.

Almannatryggingar

Almannatryggingakerfið er ein meginstoð velferðarkerfisins. Umbylta þarf þjónustukerfi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, bæta hag þeirra sem verst standa og auka tækifæri þeirra til atvinnu. Byggja þarf upp kerfi sem tryggir fólki sem missir starfsgetu framfærslu, tækifæri og nægan tíma til að endurheimta getu sína að hluta eða öllu leyti. Kerfið þarf einnig að tryggja að fólk sem hefur litla sem enga starfsgetu geti lifað góðu og innihaldsríku lífi án þess að hafa áhyggjur af framfærslu sinni. Almannatryggingakerfi eldra fólks þarfnast einnig endurbóta og bæta þarf kjör þeirra verst settu innan þess.

  • Grípa þarf snemma inn í þegar fólk tapar starfsgetunni og tryggja í auknum mæli þjónustu og stuðning strax á fyrstu stigum, m.a. með öflugri starfsendurhæfingu, svo auka megi möguleika á endurkomu á vinnumarkað.
  • Með bættri framkvæmd í þjónustu hins opinbera má auka traust fólks til almannatryggingakerfisins. Það þarf að fjölga tækifærum fólks innan þess til aukinnar virkni og einfalda greiðslukerfi almannatrygginga fyrir endurhæfingar- og örorkulífeyrisþega. Með því að draga úr tekjutengingum og gera það gagnsærra, skilvirkara og réttlátara er hægt að auka traust á kerfi sem á að taka utan um fólk sem hallast stendur fæti. Að sama skapi þarf að halda áfram að bæta afkomu eldra fólks og fólks á örorkulífeyri þannig að framfærsla verði aldrei lægri en lágmarkslaun.

Málefni fatlaðs fólks

Fatlað fólk er hluti af fjölbreytileika samfélagsins sem samanstendur af mannlegum margbreytileika. Til fatlaðs fólks teljast m.a. þau sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eðavitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun. Fatlað fólk verður fyrir ýmiss konar hindrunum vegna umhverfis og viðhorfa sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku þess til jafns við aðra. Hindranir samfélagsins valda fötluðu fólki vanda í daglegu lífi frekar en skerðingin sjálf og því þarf að breyta. Fatlað fólk á að hafa sömu tækifæri og annað fólk til að geta tekið þátt í samfélaginu á sínum forsendum og lifað sjálfstæðu lífi án aðgreiningar.

Aðgengi er forsenda þátttöku. Gera þarf fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum samfélagsins. Tryggja þarf aðgengi allra að hinu efnislega umhverfi, samgöngum, upplýsingum og samskiptum sem og allri annarri þjónustu eða aðstöðu sem almenningi stendur til boða, óháð búsetu. Þá á að tryggja fötluðu fólki fjölbreytt námsframboð og atvinnu.

  • Það á að lögfesta Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og tryggja jöfn réttindi til sjálfstæðs lífs án aðgreiningar.
  • Fatlað fólk á að hafa val um húsnæði og geta ráðið með hverjum það býr. Því á ekki að skilyrða rétt fatlaðs fólks til viðeigandi stuðningsþjónustu við eitthvert tiltekið búsetuform.
  • Fatlað fólk skal hafa val um hvernig sú þjónusta sem það þarfnast er veitt. Ávallt skal leggja áherslu á virðingu fyrir ólíkum einstaklingum og þörfum þeirra og viðhafa virkt notendasamráð við veitingu hvers kyns þjónustu.
  • Tryggja þarf sjálfræði fatlaðs fólks og rétt þess til frelsis, athafna og upplifunar á eigin heimili, til náms, atvinnuþátttöku sem og í tómstundum.
  • Fatlað fólk á að geta notið fjölskyldulífs til samræmis við aðra í samfélaginu.
  • Fatlað fólk er sá hópur fólks sem er berskjaldaðastur fyrir margs konar ofbeldi. Fatlaðar konur og börn verða oftar fyrir fjölþættri mismunum og ofbeldi. Ofbeldi gagnvart fötluðu fólki á aldrei að líðast og það á að leggja allt kapp á að uppræta það og fyrirbyggja að það geti átt sér stað.
  • Mismunun getur verið fjölþætt og birst ólíkum hópum með ólíkum hætti. Sérstaklega þarf að huga að fötluðu fólki sem býr við fjölþætta mismunun eins og kynhneigð, uppruna, aldur, trúarskoðanir eða atgervi.
  • Fatlað fólk og fötluð börn eiga að vera örugg og frjáls og njóta mannréttinda sinna í skilningsríku og fordómalausu samfélagi. Tryggja þarf að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og frelsis til jafn við önnur börn.
  • Vinnumarkaður á að vera sveigjanlegur og hlutastörf eiga að standa fólki með mismikla starfsgetu til boða. Veita skal viðeigandi stuðning til þátttöku á vinnumarkaði.
  • Fatlað fólk, þar með talin fötluð börn, eiga að njóta menntunar á öllum skólastigum án aðgreiningar.
  • Það þarf að efla hvers kyns endurhæfingu. Nám er hluti af atvinnutengdri endurhæfingu.
  • Stafrænar lausnir þurfa að uppfylla kröfur um aðgengi.
  • Viðbragðsáætlanir og aðgerðir Almannavarna og annarra viðbragðsaðila eiga einnig að ná til fatlaðs fólks svo sem rýmingaráætlanir vegna náttúruhamfara og sóttvarnaráætlanir.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search