PO
EN

Ályktun stjórnar VG í Kópavogi um starfsemi menningarhúsa bæjarins.

Deildu 

Ályktun stjórnar VG í Kópavogi um ákvarðanir teknar á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 25. apríl 2023 um breytingar á starfsemi menningarhúsa Kópavogsbæjar.

Stjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Kópavogi lýsir furðu sinni á þeim samþykktum sem gerðar voru á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 25. apríl síðastliðinn og varða starfsemi menningarhúsa Kópavogsbæjar.

Erfitt er að meta allar þær ákvarðanir sem þarna voru teknar með samþykkt tólf tillagna bæjarstjóra á grundvelli greiningar fyrirtækisins KPMG. En ástæða er til að vísa til bókunar minnihlutans þar sem meðal annars segir: „Allar tillögur bæjarstjóra eru ótækar til ákvörðunar í bæjarstjórn vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum.“

Af greinargerðum forstöðumanna menningarhúsanna (Náttúrufræðistofu Kópavogs, Gerðarsafns, Salarins, Bókasafns Kópavogs og Héraðsskjalasafns Kópavogs) má ráða að lítið samráð hefur verið haft við þá. Fram kemur að þeir eru ósammála ýmsu í þessum ákvörðunum þótt sumt megi skoða. Gagnrýndar eru rangfærslur í skýrslu KPMG, sagt „varhugavert að vísa til skýrslunnar við stefnumótandi ákvarðanir Kópavogsbæjar í menningarmálum“, í ljós hafi komið „að skilningur sérfræðinga KPMG á menningarmálum væri nánast enginn“ og því „eindregið beint til bæjaryfirvalda að taka ekki ákvarðanir í þessum málum í flýti“.

Svona stofnanir og starfsemi eru í sífelldri þróun þar sem fagþekking starfsmanna skiptir miklu máli. Það er eðlilegt að skoða rekstur þeirra af og til á gagnrýninn hátt en þær ákvarðanir sem hér hafa verið teknar eru á margan hátt þess eðlis að þær hefði átt að taka í náinni samvinnu við starfsmenn þessara stofnana en ekki með einhliða samþykkt bæjarstjórnar á grundvelli skýrslu endurskoðunarfyrirtækis.

Ástæða er til að geta sérstaklega róttækustu ákvarðananna. Annars vegar virðist eiga í reynd að leggja Náttúrufræðistofu Kópavogs niður þótt starfsemi hennar verði haldið að einhverju leyti áfram í öðru formi. Hér er um svo stóra ákvörðun að ræða að furðu sætir að hún sé tekin á jafn óvandaðan hátt. Sama er að segja um þá ákvörðun að leggja Héraðsskjalasafn Kópavogs niður. Rétt er að benda á að hlutverk þess er ekki aðeins menningarlegt, svo mikilvægt sem það er, heldur gegnir það „tvíþættu stjórnvalds- og menningarhlutverki, annarsvegar er það stjórnsýslulegs eðlis og hins vegar sagnfræðilegs eðlis“ eins og segir á heimasíðu þess. Góð skjalavarsla er gífurlega mikilvæg í daglegum rekstri bæjarfélagsins og forkastanlegt að leggja þessa mikilvægu stjórnsýsludeild bæjarins niður og fela starfsemi þess Þjóðskjalasafni Íslands, enda virðist enginn undirbúningur hafa verið unninn að því.

Stjórn VG í Kópavogi krefst þess að hverskyns endurskipulagning á starfsemi menningarhúsa bæjarins sé framkvæmd í samstarfi og sátt við starfsfólk þeirra og í opnu og vönduðu ferli á pólitískum vettvangi. Stjórn VG í Kópavogi tekur undir með minnihluta bæjarstjórnar sem greiddi atkvæði gegn þessari ákvörðun og skorar á meirihlutann að endurskoða hana.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search