Það var átakanlegt að horfa upp á algera uppgjöf Samfylkingarinnar í borgarstjórn sl. þriðjudag. Frá því að þessi flokkur jafnaðarmanna myndaði meirihluta með Viðreisn, Pírötum og Framsókn, hefur honum hægt og rólega tekist að glutra niður trúverðugleika sínum í mikilvægum málum sem snerta borgarbúa, og nú síðast með því að samþykkja einkavæðingu Ljósleiðarans. Hingað til hafa borgarstjóri og Samfylkingin staðið gegn því að selja Ljósleiðarann og ítrekað hafa tillögur Sjálfstæðisflokksins um sölu hans verið felldar í borgarstjórn af félagshyggjuflokkum og Pírötum. Á Alþingi var það flokkur borgarstjóra sem hæst talaði gegn því að einkafyrirtækið Síminn seldi Mílu til eins stærsta sjóðastýringarfyrirtækis í Evrópu. Nú tala þau sem vilja einkavæða samfélagsinnviði þannig að það sé allt hið besta mál, því þau leggi sig svo mikið fram við að selja til „góðra fjárfesta“ eins og lífeyrissjóðanna. En í því samhengi er gott að rifja upp orð Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, sem víti til varnaðar: „Stundum er því haldið fram að það sé alveg jafn gott að mikilvægir innviðir samfélagsins séu í eigu lífeyrissjóða og hins opinbera, ríkis eða sveitarfélaga. En það er ekki rétt, nákvæmlega eins og dæmið um fyrirhugaða sölu á Mílu sannar. Lífeyrissjóðir geta selt sína hluti þegar þeim sýnist.“
Það er líka kaldhæðnislegt að á sama tíma og ríkið er skipulega að koma fjarskiptainnviðum í almannaeigu, með m.a. kaupum á Farice, og leggur þriðja fjarskiptahringinn til landsins, þá einkavæðir borgarstjórnarmeirihlutinn Ljósleiðarann. En hefur eitthvað heyrst frá þingflokki Samfylkingar um það? Eða öllum þeim jafnaðarmönnum sem standa gegn einkavæðingu innviða í almannaeigu og -þágu? Sala borgarinnar á hlut sínum í Ljósleiðaranum mun færa hann fjárfestum, sem hafa það að markmiði að hámarka gróða sinn en ekki tryggja góða almannaþjónustu. Salan mun einnig gera fulltrúum almennings enn erfiðara um vik að hafa áhrif á stefnu félagsins og koma í veg fyrir brask með mikilvæga innviði. Núverandi fjarlægð kjörinna fulltrúa frá stjórn félagsins er nú þegar með öllu óásættanleg. Ekki verður séð fyrir endann á þeirri vegferð sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur hafið og ég óttast að þetta verði fyrsta skrefið af mörgum í átt að einkavæðingu og sölu innviða og eigna almennings.
Við Vinstri græn höfnum þessari einkavæðingu Ljósleiðarans sem var samþykkt á fundi borgarstjórnar. Við lögðum fram tillögu, ásamt Sósíalistaflokknum, um að Orkuveitan legði Ljósleiðaranum til hlutafé. Þá yrði Ljósleiðarinn áfram í eigu almennings. Sú tillaga var hins vegar felld af flokkum sem telja sig bera hag almennings fyrir brjósti og hafa hingað til fellt allar tillögur um sölu Ljósleiðarans. Ef það er ekki einhvers konar pólitískt þrot á viðsjárverðum tímum, þá veit ég ekki hvað á að kalla það.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna