PO
EN

Markvisst unnið að loftslagsmálum

Deildu 

Loftslagsmálin eru stóra málið á okkar tímum. Áður en ég varð ráðherra hafði ég lengi kallað eftir því að íslensk stjórnvöld settu fram fjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Eitt af fyrstu verkefnum mínum þegar ég kom í umhverfis- og auðlindaráðuneytið var að láta vinna slíka áætlun. Hún var kynnt sameiginlega af sjö ráðherrum síðastliðið haust. Fram komu fjölmargar umsagnir við áætlunina með góðum ábendingum sem nýtast vel við gerð annarrar útgáfu hennar sem gefin verður út síðar á árinu.

Stjórnvöld vinna nú markvisst og ötullega að loftslagsmálum. Starfshópur skipaður fulltrúum fjögurra ráðuneyta, undir forystu Sigurðar Inga Friðleifssonar hjá Orkusetri, hefur unnið að útfærslu á öðrum meginþætti aðgerðaáætlunarinnar: Orkuskiptum í samgöngum. Hópurinn hefur unnið greiningu á stöðu innviða vegna orkuskipta og fyrstu verkefnin sem byggð eru á vinnu hans verða sett af stað nú á næstu vikum.

Landgræðslunni og Skógræktinni var falið að útfæra í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið hinn meginþátt áætlunarinnar, kolefnisbindingu, og nú í vor verður sú vinna einnig kynnt.

Margar aðgerðir í vinnslu

Almenningssamgöngur og breyttar ferðavenjur skipa miklu máli í loftslagsmálum. Í febrúar kynnti samgöngu- og sveitastjórnarráðherra grunn að fyrstu heildarstefnu ríkisins um almenningssamgöngur fyrir allt landið og ríkið hefur samþykkt að veita 800 milljónum króna í undirbúning Borgarlínu.

Hvað einstaka aðgerðir í áætluninni varðar á sér margvísleg vinna nú stað. Kolefnisgjald hefur sem dæmi verið hækkað í áföngum síðan ríkisstjórnin tók við, vinna er hafin við breytingar á landsskipulagsstefnu með áherslu á loftslagsmál í skipulagi og reglugerð hefur verið sett varðandi hleðslu rafbíla við nýbyggt atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Þar með höfum við tryggt að gert sé ráð fyrir hleðslu við allt nýbyggt húsnæði á landinu. Vinna stendur yfir vegna svartolíu og undirritaður hefur verið samningur um viðamikla umhverfisfræðslu í skólum með áherslu á loftslagsbreytingar. Vinna við stofnun Loftslagssjóðs er enn fremur í fullum gangi og samstarf hefur verið tekið upp við Rannís vegna hans.

Líkt og kveðið er á um í aðgerðaáætluninni skal Stjórnarráðið setja sér loftslagsstefnu og verið er að leggja lokahönd á gerð hennar. Gripið verður til margvíslegra aðgerða til að draga úr losun og starfsemi Stjórnarráðsins kolefnisjöfnuð.

Loftslagsmálin í öndvegi

Fjölmörg önnur verkefni sem varða loftslagsmál eru auk þess í vinnslu án þess að vera undir hatti aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Starf Loftslagsráðs er komið á fullt og síðastliðin föstudag kynnti ég í ríkisstjórn frumvarp um breytingar á loftslagslögum, þar sem m.a. er lagt til að skylda allar stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu þess til að setja sér loftslagsstefnu og draga úr losun.

Síðastliðna mánuði hefur enn fremur verið unnið að því að koma á fót Samstarfsvettvangi stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir og gert er ráð fyrir formlegri stofnun hans innan skamms.

Með núverandi ríkisstjórn hafa loftslagsmálin loks fengið þann sess sem þeir ber. Viðhorf til málaflokksins hafa auk þess breyst mikið á stuttum tíma, bæði hér á Íslandi og erlendis. Það er einstakt að verða vitni að þeirri fjöldahreyfingu sem farin er af stað og breiðist nú út um heimsbyggðina, þar sem ungt fólk krefst stóraukinna aðgerða í loftslagsmálum. Nýir tímar eru runnir upp.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.  Höfundur er umhverfis- og auðlindaráðherra

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search