PO
EN

Sýndarveruleiki?

Deildu 

Það er ánægjulegt að heyra þá miklu áherslu sem fundur Evrópuráðsins á Íslandi leggur á lýðræði og mannréttindi. Við íbúar á Fróni virðumst oft sannfærð um að hér á landi ríki lýðræðið í sinni tærustu mynd. En er það svo?

Hugmyndin um lýðræði í einhverju formi er mjög gömul og verið við lýði, þó oft tímabundið, á mörgum menningarsvæðum. Sú hugmynd sem flestar frjálsar þjóðar notast við í dag er að mestu leiti ættuð frá upplýsingunni og frönsku byltingunni á 18. öld. Þetta fyrirkomulag, lýðræði, leysti oftast af konungs- eða keisaraveldi þar sem konungar og keisarar voru meira eða minna einvaldar með nánast ótakmörkuð völd. Þeir þóttust flestir hafa þáð völd sín frá æðri máttarvöldum. Það eru aðeins rúm 100 ár síðan, þegar íslendingar fengu sína fyrstu stjórnarskrá nr. 9, 18. maí, að sú stjórnarskrá hófst á þessum orðum: Vjer Christian hinn Tíundi, af Guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Sljesvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þjettmerski, Láenborg og Aldinborg,…

Valdið fengið frá guði og var í höndum konungs.

Hugmyndin.

Hugmyndin um lýðræði byggir fyrst og fremst á því að það sé lýðurinn, fólkið, sem séu hinn eini rétti valdhafi. Það vald komi frá samfélaginu sjálfu, ekki æðri máttarvöldum. Til að gera þetta kerfi meðfærilegt og skilvirkt er jafnan notast við fulltrúa sem kosnir eru í almennum kosningum og fá því vald sitt sem umboðsmenn fólksins. Þetta umboð þurfa fulltrúarnir að endurnýja með reglulegum hætti, hér á landi á að minnsta kosti á fjögurra ára fresti. Í upphafi lýðræðisfyrirkomulagsins var mjög praktískt að notast við kjörna fulltrúa. Það var tímafrekt og kostnaðarsamt að eiga samtöl við fólkið, hina raunverulegu valdhafa, vegalengdir miklar og samgöngur oft erfiðar. En nú eru aðrir tímar.  Miklar breytingar hafa orðið, samgöngur allar auðveldar og öll samskipti mjög auðveld vegna tæknilegra framfara. Þrátt fyrir þetta hafa litlar breytingar orðið á framkvæmd og skipulagi fulltrúalýðræðisins. Það felst í stórum dráttum í því að fulltrúar eru kosnir í almennum kosningum og þar með eru völdin úr höndum fólksins þar til kjósendur fá þau til baka oftast 4 árum seinna, einn dag, á kjördag. Þann dag eru völdin hjá hinum raunverulegu valdhöfum en bara þann dag. Einstaka sinnum hefur fólkið í landinu fengið völd sín til baka frá fulltrúunum og með þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál nýtt vald sitt milliliðalaust. Þessi möguleiki á landsvísu byggir á málskotsrétti forsetans.

Milliliðalaus ákvörðun

Á sveitarstjórnarstiginu, sjá sveitarstjórnarlög nr. 138/2011, geta kjörnir fulltrúar ákveðið að íbúarnir taki milliliðalausa  ákvörðun um tiltekin mál. Í 107. gr. Íbúakosningar segir: Sveitarstjórn ákveður hvort fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélagsins um einstök málefni þess, sbr. þó 108. gr.

Við þessa beinu þáttöku er þó sleginn sá varnagli að ákvörðun íbúa „er ráðgefandi nema sveitarstjórn ákveði að hún skuli binda hendur hennar til loka kjörtímabils.“

Til viðbótar við þennan möguleika á íbúakosningu hafa kjósendur rétt á því að taka til sín vald sitt frá fulltrúunum. Það byggir á ákvæðum í 108. gr.:

Ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. skal sveitarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða hærra hlutfall í samþykkt um stjórn sveitarfélags en þó aldrei hærra en þriðjung þeirra sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi. Sveitarstjórnin á ákvörðunarvald um atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélagsins.

Með þessum fyrirvörum, og að almennt er íbúakosning ráðgefandi, er verulega dregið úr valdi íbúa til að ráða málum sínum beint, án milligöngu kjörinna fulltrúa. Þetta er í raun sýndarveruleiki. Til þess að gera íbúalýðræðið raunverulegt þarf að breyta ákvæðum um tímafrest sveitarstjórnar þ.e. stytta hann verulega, fella á brott ákvæðið um hærra hlutfall en 20%, gera ákvörðun íbúa að jafnaði bindandi og skilgreina betur hvernig hluti íbúa í sveitarfélagi getur óskað íbúakosningar. Það getur átt sérstaklega við landstór sveitarfélög sem saman standa af mörgum dreifðum byggðakjörnum.

Tregða kjörinna fulltrúa

Það er sannarlega furðulegt hve sjaldan íbúalýðræði er viðhaft í sveitarfélögum á Íslandi. Aðeins örsjaldan hafa kjörnir fulltrúar okkar á sveitarstjórnarstig efnt til íbúakosninga. Ég man í fljótu bragi aðeins eftir kosningum um Reykjavíkurflugvöll, um hundahald í Reykjavík og í Hafnarfirði um stækkun Álversins í Straumsvík.

Þegar rætt er um beint lýðræði eru oft dregin fram þau rök geng því að fólkið, lýðurinn, gæti komist að vitlausri, óskynsamlegri niðurstöðu. Allskonar samtök með vafasömum hagsmunum geti með markvissum hætti knúið fram ákvarðanir sem eru andstæð hagsmunum almennings.  En, höfum við langa reynslu af slíkum mistökum? Eru meiri líkur á því fólkið í borginni, sveitarfélaginu, taki vitlausar ákvarðanir en kjörnir fulltrúar?

Nú þessi misseri er tekist á um fiskeldi í sjó á Seyðisfirði. Kannanir sýna að 75 % íbúa fjarðarins er á móti því. En meirihluti kjörinna fulltrúa gera ekkert með vilja íbúanna og líkur á því að fiskeldi hefjist í firðinum þvert gegn vilja íbúanna.

Vissuleg þarf að gæta að því að hagsmunum almennings, hagmunum sem varða flesta íbúa sveitarfélags sé haldið til haga. En óttinn við annarlega hagsmuni má ekki verða til þess að lýðræðið verði jafnan í einskonar gíslingu kjörinna fulltrúa án aðkomu hinna raunverulega valdhafa, fólksins í landinu.

Steinar Harðarson, vinnuverndarfulltrúi, athafnastjóri og gjaldkeri VG.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search