PO
EN

Gott að eldast: Eldra fólk er virði en ekki byrði

Deildu 

Eldra fólk leggur mikið til samfélagsins og mikilvægt er að stuðla að auknu heilbrigði þessa hóps. Þetta sýnir kostnaðar- og ábatagreining sem KPMG hefur unnið fyrir stjórnvöld vegna heildarendurskoðunar á þjónustu við eldra fólk: Gott að eldast. Greiningin veitir nýja sýn á fjárhagsgögn ríkis og sveitarfélaga og samkeyrir þau við lýðfræðileg gögn. Niðurstöðurnar voru kynntar á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag ásamt aðgerðaáætlun fyrir árin 2023-2027 sem félags- og vinnumarkaðsráðherra mælti fyrir og var samþykkt samhljóða á Alþingi nýverið. Samhliða fundinum var gagnvirkt mælaborð opnað á vefnum með tölulegum upplýsingum og útreikningum.

Blaðamannafundurinn var sameiginlegur með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Willum Þór Þórssyni, heilbrigðisráðherra, Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, Heiðu Björgu Hilmisdóttur, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Helga Péturssyni, formanni Landssambands eldri borgara (LEB). Á fundinum í dag voru einnig Helga Garðarsdóttir og Hallgrímur Arnarson frá KPMG.

Ráðherrar, formaður Sambandsins og formaður LEB skrifuðu undir viljayfirlýsingu um verkefnið í júní 2022 með fyrirætlan um að vinna ofangreinda aðgerðaáætlun sem nú er orðin að veruleika. Meginþungi aðgerða í áætluninni liggur í þróunarverkefnum sem snúast um að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta saman þá þjónustu sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Einnig verður ráðist í aðgerðir sem hverfast um heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu, sveigjanlegri þjónustu og stórbættum aðgangi að ráðgjöf og upplýsingum um þjónustu fyrir eldra fólk.

Aðgerðaáætlunin byggir á fimm meginstoðum. Ein þeirra snýr að bættri öflun og miðlun upplýsinga og falla mælaborðið og kostnaðar- og ábatagreiningin þar undir. Í greiningunni er annars vegar horft á eldra fólk út frá sjónarhorni sveitarfélaga og hins vegar ríkisins. Miðað við þróun og framtíðarspár er áætlað að hlutfall 67 ára og eldri hér á landi verði um 20% árið 2050. Einstaklingar í þessum aldurshópi fara því úr því að vera 50.300 talsins og upp í 90.200. Samkvæmt greiningunni felst mikill ávinningur fyrir alla aðila í því að fjölga þeim árum þar sem eldra fólk lifir heilbrigðu lífi og heldur heilsu.

Tekjur eldra fólks hafa vaxið hraðar en tekjur yngra fólks á síðustu 25 árum og eru í dag að jafnaði 97% af meðaltekjum einstaklings á vinnumarkaði. Um leið greiðir eldra fólk útsvar til sveitarfélagsins þar sem það býr og skatta til ríkisins.

Meðal niðurstaðna greiningarinnar:

  • Samhliða hækkandi tekjum eldra fólks (67 ára og eldri) hafa útsvarsgreiðslur þess til sveitarfélaga aukist. Á 15 árum hafa þær fimmfaldast.
  •  Miðað við spár og þróun síðustu 10 ára má gera ráð fyrir að útsvarsgreiðslur eldra fólks verði tæp 30% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga árið 2050 á sama tíma og hlutfall eldra fólks verður um 20% af íbúafjölda.
  •  Svokallaður ábatastuðull eldra fólks er hærri en yngra fólks (yngra en 67 ára). Ef ábatastuðull er yfir 1,0 gefur viðkomandi hópur meira til sveitarfélags í formi tekna en hann kostar. Samkvæmt greiningunni hefur eldra fólk í dag ábatastuðulinn 1,3 á meðan yngra fólk er með stuðulinn 0,7.
  • Kostnaðarhagkvæmt er fyrir sveitarfélög að stuðla að auknu heilbrigði eldra fólks. Með aukinni vitundarvakningu um ábata og framlag eldra fólks til samfélagsins má búast við því að sveitarfélög muni í auknum mæli keppast við að laða þennan hóp til sín, meðal annars með bættri og samþættari þjónustu.
  •  Hreyfing er á aldurshópnum 67 ára og eldri á milli sveitarfélaga og má ætla að þjónustuþarfir eldra fólks hafi áhrif á búsetu. Í mælaborðinu eru sveitarfélög borin saman og meðal annars flokkuð eftir því hver þeirra hafa tækifæri til fjárfestinga í þágu eldra fólks og hver hafa tækifæri til að laða til sín eldra fólk.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Aðgerðaáætlunin Gott að eldast mun hafa afar jákvæðar breytingar í för með sér á þjónustu við eldra fólk og lífsgæði þess. Nálgunin er manneskjuleg og falleg og beinist að því að við getum elst í góðu andlegu og líkamlegu ástandi og borið von til þess að njóta þess að búa lengur heima hjá okkur. Þær upplýsingar sem við kynnum hér í dag kalla á viðhorfsbreytingu gagnvart eldra fólki og öldrun þjóðarinnar. Eldra fólk er sannarlega virði en ekki byrði í svo margvíslegum skilningi. Stefna stjórnvalda er enn fremur skýr: Það á að vera gott að eldast á Íslandi.“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra:

„Það er mikilvægt að byggja umræðu á staðreyndum. Þessi greining kollvarpar lífsseigri mýtu um að eldra fólk sé fjárhagsleg byrði á samfélaginu. En gleymum því ekki að allt fólk hefur virði í víðum skilningi. Það á því að vera keppikefli hvers samfélags að búa vel að sínu fólki, óháð heilsu, aldri eða efnahag. Bætt lýðheilsa og heilbrigð öldrun er augljós ávinningur allra.“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra:

„Kjör eldri borgara hafa batnað verulega á síðustu árum. Á það við hvort sem litið er til tekna, kaupmáttar eða eigna- og skuldastöðu enda hefur mikil áhersla verið lögð á málefni hópsins í tíð þessarar ríkisstjórnar m.a. með auknum útgjöldum til málaflokksins. Hér er horft til þess að bæta lífskjör og stöðu þessa verðmæta hóps í samfélaginu enn frekar, samhliða tækifærunum sem felast í auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga þar sem ávinningurinn er allra.“

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga:

„Niðurstöður sem við sjáum í þessu mælaborði minna okkur á mikilvægi þess að sveitarfélög bjóði íbúum upp á fjölbreytta möguleika til afþreyingar, útivistar, hreyfingar, menningarstarfs og félagslegra samskipta sem við vitum að styrki andlega og líkamlega heilsu fólks. Á þessa þætti hafa sveitarfélög um allt land lagt ríka áherslu á undanfarin ár og ávinninginn af því starfi má meðal annars lesa úr þessum niðurstöðum. Það að búa fólki upp á góðar aðstæður í lífi, leik og starfi á öllum æviskeiðum er mikilvægt lýðheilsumál sem skapar vellíðan íbúa og hefur einnig augljósan fjárhagslegan ávinning fyrir samfélagið.“

Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara:

„Þetta sýnir skýrt hvað þessi sístækkandi hluti þjóðarinnar leggur mikið til og ekki má gleyma hlut hans í uppbyggingu innviða fram til þessa. Það er mikilvægt verkefni að halda þessum hópi virkum. Stór þáttur í því er að tryggja fólki viðunandi kjör til að vega upp á móti verulegum samdrætti tekna á efri árum.“

Fylgigögn:

Nánari upplýsingar um Gott að eldast:

Berglind Magnúsdóttir, verkefnastjóri, s. 822 3175, berglind.magnusdottir@frn.is

Nánari upplýsingar um kostnaðarábatagreiningu KPMG:

Helga Garðarsdóttir, s. 698 9019, hgardarsdottir@kpmg.is

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search