Eldra fólk er margbreytilegur hópur og oft er talað um að á engu öðru æviskeiði sé hópur jafn fjölbreyttur. Æviskeið sem er sífellt að verða lengra þökk sé framförum í þekkingu okkar á félags- og heilbrigðisþáttum. Hlutfall 67 ára og eldri er núna 13% þjóðarinnar eða um 47 þúsund einstaklingar. Því er spáð að eftir tæp 30 ár eða árið 2050 verði hlutfallið 20% eða rúmlega 90 þúsund einstaklingar, sem þýðir nærri því tvöföldun í fjölda.
Samstarf um betri þjónustu við eldra fólk
Þessi stóraukni fjöldi eldra fólks og kröfur til meiri breytileika og gæða í þjónustu í nútímasamfélagi kalla á endurskoðun í þjónustu við eldra fólk. Ríkisstjórnin vinnur að því að svara þessu kalli í samstarfi við sveitarfélög og Landssamtök eldri borgara.
Fyrir stuttu samþykkti Alþingi aðgerðaáætlun sem ég mælti fyrir um í þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2023-2027, sem nefnist Gott að eldast. Í gær kynntum við þrír ráðherrar og formenn Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands eldri borgara áætlunina ásamt greiningu KPMG á kostnaði og ábata þjónustunnar. Aðgerðaáætlunin verður meginstjórntæki stjórnvalda í að breyta og bæta þjónustu við eldra fólk og felur í sér umfangsmikla kerfisbreytingu á þjónustunni til hins betra.
Gerum fólki kleift að búa lengur heima hjá sér
Meginþungi aðgerða í aðgerðaáætluninni liggur í þróunarverkefnum sem snúast um að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta saman þá þjónustu sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Þannig geti fólk búið lengur heima hjá sér og eftirspurn eftir hjúkrunarheimilum minnki. Einnig verður ráðist í aðgerðir sem hverfast um heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu, sveigjanlegri þjónustu og stórbættum aðgangi að ráðgjöf og upplýsingum um þjónustu fyrir eldra fólk. Áætlunin byggist á 19 aðgerðum á fimm sviðum eða stoðum, samþættingu, virkni, upplýsingum, fræðslu, þróun og heimili fólks.
Farsæl öldrun: Ekki er ráð nema í tíma sé tekið
Til að tryggja farsæla öldrun þarf bæði þjónusta við eldra fólk en einnig við sjálf sem yngri erum að huga að undirbúningi þess að verða eldri. Við undirbúning aðgerðaáætlunar komu fram mjög skýr skilaboð frá hagaðilum að nauðsynlegt væri að ráðast í vitundarvakningu um ýmsa þætti sem stuðlað geta að farsælli öldrun. Slík vitundarvakning verður að ná til breiðs aldurshóps og stuðla að því að fólk taki upplýstar ákvarðanir sem áhrif hafa á líf þess á seinna æviskeiði.
Eldra fólk er virði en ekki byrði
Stundum ber á umræðu um að þjónusta við eldra fólk sé kostnaðarsöm. Samkvæmt greiningu og samantekt KPMG hafa útsvarsgreiðslur fólks eldra en 67 ára til sveitarfélaga fimmfaldast á síðustu 15 árum, samhliða almennt hækkandi tekjum eldra fólks. Gera má ráð fyrir að útsvarsgreiðslur þessa hóps verði tæp 30% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga árið 2050 meðan hlutfall eldra fólks verður um 20% af íbúafjölda. Þess vegna er ekki hægt að tala um eldra fólk sem byrði, heldur miklu frekar virði. Það virði er í mínum huga margvíslegt, ekki síst félagslegt og menningarlegt, en greining KPMG sýnir að virðið er einnig efnahagslegt fyrir sveitarfélögin. Þess vegna er hagkvæmt fyrir sveitarfélög, og ríki, að stuðla að auknu heilbrigði eldra fólks. Greiningin bendir til þess að það borgi sig hreinlega fyrir efnahag sveitarfélaga að keppast við að laða þennan hóp til sín, meðal annars með bættri og samþættari þjónustu með ríkinu.
Öll með
Þjónusta við eldra fólk skiptir lykilmáli fyrir farsæla öldrun. Betra velferðarsamfélag þarf að rúma okkur öll og sú vegferð sem felst í Gott að eldast felur í sér mikilvæga kerfisbreytingu fyrir eldra fólk sem ég vonast til að sjá raungerast á næstu árum og mun bæta íslenska velferðarsamfélagið.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.