Í gær var sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um land allt í 85. skiptið. Ég fékk þann heiður að flytja ávarp á heiðrunarathöfn sjómannadagsins í Hörpu og það var sérstaklega ánægjulegt.
Sjávarútvegur er máttarstólpi í atvinnulífi okkar Íslendinga. Velsæld okkar sem þjóðar hefur í gegnum tíðina byggst að miklu leyti á þeim verðmætum sem sótt eru á miðin í kringum landið. Sjómenn gegna lykilhlutverki í því að skapa þessi verðmæti og störfin eru krefjandi og erfið. Eðli starfs sjómanna þýðir langar fjarverur frá fjölskyldu og þó að vinnuslysum til sjós hafi fækkað verulega er starfið enn hættulegt. Þar er ég viss um að við getum gert betur og víða innan útgerða er unnið að því að draga úr slysatíðni.
Við getum lært margt af sjómönnum. Sjósókn krefst þolgæðis og getu til að takast á við ýmiss konar áskoranir. Sjómenn hafa átt í samningaviðræðum við útgerðarmenn um langa hríð og ekki hafa tekist samningar enn. Það er mikilvægt að samningar náist fljótt og að vel takist til við samningaborðið.
Ég sé fyrir mér framtíð þar sem Íslendingar eru áfram leiðandi fiskveiðiþjóð, en til þess að svo verði þurfum við að laga okkur að félagslegum breytingum og kröfuharðari neytendum. Stóra sameiginlega verkefni okkar allra er að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Hafið er auðlind sem okkur ber að vernda og það er í hættu – bæði vegna mengunar og ofveiði. Í þessu stóra verkefni er mikilvægt að við tökum höndum saman, stjórnvöld og sjávarútvegurinn, vinnum að orkuskiptum í sjávarútvegi og stóraukum hafrannsóknir. Það er svo gríðarlega mikið í húfi.
Undanfarið ár hefur verið unnið að stefnumörkun í sjávarútvegi í matvælaráðuneytinu. Markmið þeirrar vinnu er að skapa skilyrði til aukinnar sáttar um sjávarútveg. Samfélagsleg sátt er breytileg yfir tíma, sáttin er lifandi hreyfing. Gildi samfélagsins breytast og þær kröfur sem við gerum sömuleiðis. Þess vegna lagði ég áherslu við þessa stefnumótun á að huga að gagnsæi og aðgengi mismunandi radda að vinnunni. Um það hefur vinna „Auðlindarinnar okkar“ snúist, að hlusta, eins og kemur fram í ritinu Tæpitungulaust sem ráðuneytið birti á dögunum. Þar er að finna þær ótalmörgu raddir sem sendu inn athugasemdir, tóku til máls á fundum eða í viðtölum við vinnslu verkefnisins.
Þær raddir nýtast við að átta sig á inntaki þeirrar tilfinningar sem ríkir í samfélaginu um sjávarútveg. Niðurstöður úr þessu verkefni verða birtar í ágúst og þá tekur við næsta skref í því mikilvæga verkefni að auka sátt um sjávarútveg. Það er ekki síst mikilvægt fyrir sjómenn sem eiga að vera stoltir af framlagi sínu í þágu íslensks samfélags. Til hamingju aftur með gærdaginn, sjómenn!
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.