Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra úthlutaði í dag styrkjum til 11 verkefna úr Jafnréttissjóði Íslands við hátíðlega athöfn á Hilton Reykjavík Nordica.
Af þessum ellefu verkefnum hlutu fimm hvert um sig um sjö milljón króna styrki sem eru hæstu styrkirnir að þessu sinni. 60 milljónum króna er varið í Jafnréttissjóð Íslands annað hvert ár.
Verkefnin sem hljóta styrk í ár eru:
- Eliona Gjecaj fyrir verkefnið: Fatlaðar konur og ofbeldi: Aðgengi að réttlæti.
- Eygló Árnadóttir fyrir verkefnið: Efling íslenskra skóla í forvörnum, fræðslu og viðbrögðum við kynbundnu ofbeldi.
- Fayrouz Nouh fyrir verkefnið: Múslimskar innflytjendakonur á íslenskum vinnumarkaði.
- Flora Tietgen fyrir verkefnið: Reynsla innflytjendakvenna af ofbeldi í nánu sambandi á Íslandi.
- Hafdís Erla Hafsteinsdóttir fyrir verkefnið: Kynjapólitískur vígvöllur? Alnæmisfaraldurinn á Íslandi og áhrif hans á hugmyndir um jafnrétti.
- Ásdís Aðalbjörg Arnalds fyrir verkefnið: Alþjóðlega viðhorfakönnunin um fjölskyldulíf og breytt kynhlutverk.
- Elín Björk Jóhannsdóttir fyrir verkefnið: Fléttur VII. Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi.
- Helena Aðalsteinsdóttir fyrir verkefnið: LungA Listahátíð.
- Jeannette Jeffrey fyrir verkefnið: Exploring an Inclusive Post-Pandemic Language Learning Environment for Icelandic Language Learners.
- Linda Dögg Ólafsdóttir fyrir verkefnið: Við þorum, getum og viljum!
- Ofbeldisforvarnarskólinn ehf. fyrir verkefnið: Geltu – stuttmynd um hatursorðræðu.
Myndir frá styrkveitingum Jafnréttissjóðs 2023
Þá endurnýjuðu forsætisráðherra, og Ásta Dís Óladóttir formaður Jafnvægisvogarráðs FKA (Félag kvenna í atvinnulífinu), samstarfssamning um Jafnvægisvogina.
Með samningnum veitir forsætisráðuneytið FKA stuðning til að stuðla að auknu kynjajafnrétti í íslensku atvinnulífi en Jafnvægisvogin er mælitæki sem hefur eftirlit með stöðu og þróun kynjajafnréttis í stjórnum íslenskra fyrirtækja.
Samningurinn er til eins árs og gildir frá 19. júní 2023 til 19. júní 2024.