Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag við verðlaunum fyrir framlag sitt til jafnréttismála í alþjóðastjórnmálum (e. The Gender Equality in Global Politics Award) frá Babes-Bolyai háskólanum í Cluj í Rúmeníu.
Forsætisráðherra flutti erindi við verðlaunaafhendinguna þar sem hún ræddi m.a. um jafnréttismál, velsældarhagkerfið, loftslagsmál og þær áskoranir sem lýðræðið stendur frammi fyrir. Þá svaraði forsætisráðherra einnig spurningum nemenda Babes-Bolyai háskóla.
Forsætisráðherra átti einnig tvíhliða fund með Luminitu Odobescu, utanríkisráðherra Rúmeníu, í Cluj. Þar ræddu ráðherrarnir m.a. tvíhliða samskipti landanna, jafnréttismál, orkumál og stríðsátökin í nágrannaríkinu Úkraínu.