Í mars á þessu ári gaf milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, út skýrslu um loftslagsbreytingar. Niðurstöður skýrslunnar eru að athafnir af mannavöldum hafi nú þegar leitt til hlýnunar loftslags um 1,1 gráðu frá iðnbyltingu og að allar líkur séu á því að farið verði fram úr markmiði Parísarsamkomulagsins um 1,5 gráðu hlýnun innan áratugar. Loftslagsbreytingar hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir vistkerfi jarðarinnar og valda alvarlegum áhrifum á líf fólks um allan heim. Öfgar í veðurfari aukast, til dæmis með miklum rigningum og fellibyljum auk þess sem gríðarlega hár hiti hefur einkennt veðurfar í sumar víða um heim.
Forsenda þess að við náum raunverulegum árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar er að við grípum til aðgerða. Málefni matvælaráðuneytisins hafa margvísleg áhrif á umhverfið og atvinnugreinarnar sem undir ráðuneytið heyra standa fyrir talsverðum hluta af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki, skapa skilyrði til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur ríka áherslu á það. Ísland hyggst taka þátt í sameiginlegu markmiði ESB um að draga úr losun um 55% fram til ársins 2030. Við erum þar með þátttakendur í þeim kerfum sem ESB hefur sett upp til að draga úr losun.
Meðal þeirra kerfa eru reglur um samspil landnotkunar og loftslagsmála, en slík losun hefur ekki sætt bindandi markmiðum um samdrátt í losun hingað til. Það mun aftur á móti breytast árið 2026. Í ljósi þess þarf að auka skilvirkni varðandi landnotkun og huga að árangursríkum aðgerðum á því sviði. Skerpa þarf á aðgerðum í aðgerðaáætlunum og forgangsraða þeim og sú vinna er framundan í ráðuneyti mínu, í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Auk þess þarf að auðvelda bændum aðgengi að aðgerðum sem skila hratt árangri í því að draga úr losun. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur unnið að greiningu á því fyrir ráðuneytið hvaða aðgerðir eru fýsilegar til að draga úr losun og hafa jafnframt jákvæð áhrif á rekstur í landbúnaði. Auk þess þurfa stjórnvöld að halda áfram samstarfi við atvinnulífið um þá loftslagsvísa sem unnið hefur verið að síðustu vikur.
Kjarni málsins er að við getum ekki gert ekki neitt. Næstu skref í matvælaráðuneytinu felast í því að skilgreina betur þær aðgerðir sem þarf að ráðast í svo markmið stjórnvalda náist, og það þarf að gerast í samstarfi við stofnanir og hagsmunaaðila. Ég legg ríka áherslu á að íslensk stjórnvöld hafi forystu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum því mikið er í húfi fyrir íslenskt samfélag og náttúru.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.