PO
EN

Fjármálaáætlun og megináherslurnar í heilbrigðismálum

Deildu 

Stórauknum fjármunum verður varið til að lækka greiðslubyrði sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu, styrkja geðheilbrigðisþjónustuna um allt land og efla heilbrigðisþjónustu við aldraða samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Áætlunin endurspeglar áherslur heilbrigðisráðherra og markmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Fjármálaáætlunin var lögð fram 23. mars og fyrri umræða um hana fer nú fram á Alþingi. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist stolt af því að kynna sinn hlut í fjármálaáætluninni og áherslurnar sem þar birtast: „Ég hef lagt á það mikla áherslu að bæta þjónustu við aldraða og efla geðheilbrigðisþjónustuna og enn fremur að jafna aðgang fólks að heilbrigðisþjónustunni óháð búsetu og efnahag. Fjármálaáætlunin endurspeglar þessar áherslur mínar og boðar breytingar á heilbrigðisþjónustunni til framtíðar í þágu almennings í landinu.“

Aukinn jöfnuður með lægri greiðsluþátttöku sjúklinga

Samkvæmt fjármálaáætluninni verður hlutur sjúklinga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu lækkaður umtalsvert á komandi árum. Strax á næsta ári eykst hlutdeild ríkisins í kostnaði sjúklinga um 300 milljónir króna. Næstu fjögur ár eykur ríkið hlutdeild sína um 800 milljónir króna ár hvert. Aukin framlög ríkisins til þess að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu nema á tímabilinu um níu milljörðum króna. Stefnt er að því að greiðsluþátttaka sjúklinga hér á landi verði sambærileg því sem gerist hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

Rúmir 100 milljarðar króna til innviðauppbyggingar

Uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut verður haldið áfram af fullum krafti og verður tæpum 60 milljörðum króna varið til framkvæmdanna á næstu fimm árum. Framlög verða aukin enn frekar til sóknar í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Alls eru 27 milljarðar króna ætlaðir í því skyni á tímabilinu. Þetta gerir kleift að byggja 133 hjúkrunarrými til viðbótar þeim 790 rýmum sem þegar eru á framkvæmdaáætlun, víðsvegar um landið. Um 1,5 milljarður króna verður veittur til Sjúkrahússins á Akureyri vegna viðbyggingar.

Áframhaldandi efling geðheilbrigðisþjónustunnar

Í samræmi við stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum hefur stórauknu fjármagni verið veitt til þess að fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni og koma á fót geðheilsuteymum um land allt. Á þessu ári hefur 650 milljónum króna verið ráðstafað í þessu skyni. Áfram verður haldið á næstu árum og nema aukin framlög til að efla geðheilbrigðisþjónustuna 100 milljónum króna ár hvert til ársin 2024.

Raunaukning fjárframlaga til heilbrigðismála um 11%

Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar aukast heildarframlög hins opinbera til heilbrigðismála jafnt og þétt á gildistíma áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að árleg framlög til málaflokksins verði árið 2024 um 28 milljörðum króna hærri en þau eru í dag. Þetta svarar til 11% raunaukningar á tímabilinu.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search