PO
EN

Sköpum skilyrði fyrir aukinni sátt

Deildu 

Þegar ég tók við sem mat­vælaráðherra var eitt af stærstu verk­efn­un­um sem mér var falið í stjórn­arsátt­mála að kort­leggja áskor­an­ir og tæki­færi í sjáv­ar­út­vegi og leggja fram til­lög­ur til að há­marka ár­ang­ur og sam­fé­lags­lega sátt. Í því skyni var kallaður til umræðu breiður hóp­ur sér­fræðinga, hags­munaaðila og full­trúa stjórn­mála­flokk­anna. Al­menn­ing­ur fékk tæki­færi til að senda inn at­huga­semd­ir á öll­um stig­um og sam­tals komu mörg hundruð manns að vinn­unni. Verk­efnið fékk nafnið Auðlind­in okk­ar og niður­stöður voru kynnt­ar 29. ág­úst sl.

Íslensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur er ein­stak­ur á heimsvísu og grein­in legg­ur mikið til sam­fé­lags­ins. Þrátt fyr­ir það tel­ur minni­hluti þjóðar­inn­ar sjáv­ar­út­veg­inn heiðarleg­an, eins og fram kom í nýrri skoðana­könn­un.

Mark­miðið með því að vinna verk­efnið með stór­um hópi fólks og kalla eft­ir at­huga­semd­um al­menn­ings var að sýna að okk­ur væri full al­vara með því að freista því að ná sátt. Sátt er ekki niðurstaða eða áfangastaður, hún er nálg­un og það er mitt mat að sá stóri hóp­ur sem kom að vinn­unni við Auðlind­ina okk­ar hafi nálg­ast verk­efnið af mikl­um heil­ind­um. Mig lang­ar að þakka sér­stak­lega fyr­ir það.

Nokk­ur atriði skipta höfuðmáli í þessu sam­hengi. Ég legg mikla áherslu á að um­hverf­isáhersl­ur séu í for­grunni í sjáv­ar­út­vegi. Meðal niðurstaðna Auðlind­ar­inn­ar okk­ar eru til­lög­ur sem snúa að vernd viðkvæmra vist­kerfa og orku­skipt­um í sjáv­ar­út­vegi. Þær skipta höfuðmáli til að tryggja að ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur geti verið í for­ystu í heim­in­um í um­hverf­is­mál­um.

Það ætti að vera sam­eig­in­leg­ur skiln­ing­ur að sjáv­ar­út­veg­ur­inn sé betri eft­ir því sem hann er gagn­særri og meðal til­lagna Auðlind­ar­inn­ar okk­ar eru atriði sem snúa að því að auka aðhald og gagn­sæi. Það eru til dæm­is kröf­ur um skrán­ingu viðskipta um afla­heim­ild­ir í op­in­bera gagna­grunna og auk­in upp­lýs­inga­gjöf um eigna- og stjórn­un­ar­tengsl út­gerða.

Auk þess nefni ég hér til­lög­ur sem snúa að til­raun til út­leigu veiðiheim­ilda með upp­boðum, sem skoðast í sam­hengi við upp­stokk­un á at­vinnu- og byggðakerf­um. Lagt er til að al­menn­ur byggðakvóti, línuíviln­un og skel- og rækju­bæt­ur verði aflagðar en byggðakvóta Byggðastofn­un­ar og strand­veiðum verði haldið við með bættri fram­kvæmd.

Ég mun líka leggja til við þingið að veiðigjöld verði hækkuð í sam­ræmi við fjár­mála­áætl­un.

Næstu skref í þessu stóra verk­efni eru að birta frum­varp til nýrra heild­ar­laga um nýt­ingu og stjórn­un nytja­stofna sjáv­ar í sam­ráðsgátt stjórn­valda en nú þegar hafa áforma­skjöl um laga­setn­ing­una verið birt.

Í niður­stöðum Auðlind­ar­inn­ar okk­ar fel­ast tæki­færi til að yf­ir­vinna áskor­an­ir og skapa skil­yrði fyr­ir trausti svo sátt geti auk­ist. Í því fel­ast mikl­ir hags­mun­ir fyr­ir al­menn­ing í land­inu, stjórn­völd og grein­ina sjálfa.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search