PO
EN

Sveitarstjórnarráð VG á móti sameiningu MA og VMA

Deildu 

Sveitarstjórnarráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs mótmælir áformum mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um sameiningu tveggja framhaldsskóla landsbyggðarinnar, Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri. 

Samkvæmt skýrslu stýrihóps mennta- og barnamálaráðuneytis felst ávinningur sameiningar aðallega í sparnaði á launakostnaði, en það gefur til kynna að störfum fækki um þrjátíu til fjörutíu í sameiningunni. Í sömu skýrslu er annars vegar talað um aukna farsæld nemenda í sameinuðum skóla en hins vegar er stefnt að fækkun námsráðgjafa og sálfræðinga sem er mikil þversögn. Skortur hefur verið á samráði við starfsfólk og nemendur skólanna og er andstaða margra þeirra við áformin auðheyrð. 

Mikilvægt er að nemendur á landsbyggðinni hafi val um framhaldsskóla, bóknámsskóla eða verknámsskóla, bekkjarkerfi eða áfangakerfi og eiga nemendur því áfram að hafa val um þá ólíku en framúrskarandi skóla sem Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri eru.

Einsleitt skólaumhverfi á landsbyggðinni og fækkun starfa í sparnaðarskyni er undarleg byggðastefna hjá Framsóknarflokknum. 

Mannauður skólanna eykur farsæld barnanna okkar til framtíðar og því ætti fremur að styðja við þessar stofnanir hvora um sig til að efla starfsemi þeirra.

Sveitarstjórnarráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs skorar á ráðherra að falla frá áformum um sameiningu, því menntun er fjárfesting sem má kosta. 

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search