PO
EN

Ný stjórn í Hafnarfirði og ályktanir 

Deildu 

Aðalfundur Vinstri grænna í Hafnarfirði fór fram í gær. Þar var fráfarandi stjórn endurkjörin, en hana skipa Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður, Gestur Svavarsson Björg Jóna Sveinsdóttir, Davíð Arnar Stefánsson, Anna Sigríður Sigurðardóttir, en varamenn eru Árni Áskelsson og Árni Matthíasson.

Við óskum þeim til hamingju með kjörið og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs! 

Aðalfundurinn sendi frá sér þrjár ályktanir, um gjaldskrárhækkanir á skólamáltíðum í Hafnarfirði, um hjólreiðastefnu bæjarins og um kvennaverkfallið sem lesa má hér að neðan.

Aðalfundur Vinstri Grænna í Hafnarfirði haldinn 27. október 2023 mótmælir harðlega óheyrilegri hækkun á verði skólamáltíða í leik- og grunnskólum bæjarins. Ekki er bara að þessi gríðarlega hækkun gangi þvert á loforð meirihlutaflokkanna fyrir ári heldur hafa  stýrivaxtahækkanir Seðlabankans og sívaxandi verðbólga lagst þungt á launafólk og þá sérstaklega á láglaunafólk. Óskiljanlegt er að bæjaryfirvöld gangi svo hart fram gegn fólki sem á sífellt erfiðara með að ná endum saman.

Eins og kemur fram í þingsályktunartillögu þingmanna Vinstri grænna sem lögð var fram á Alþingi nýverið er ekki aðeins brýnt að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum til þess að draga úr ójöfnuði heldur er það einnig heilsufarslegt og uppeldislegt atriði. Fundurinn hvetur bæjaryfirvöld til að draga hækkunina til baka nú þegar og hefja vinnu við að koma á gjaldfrjálsum skólamáltíðum.

Aðalfundur Vinstri grænna í Hafnarfirði haldinn 27. október 2023 lýsir ánægju með nýja hjólreiðastefnu Hafnarfjarðar enda er brýnt að Hafnarfjörður fylgi nýjum áherslum í samgöngum og breyttum ferðavenjum ætli bærinn sér að vera samkeppnishæfur við nágrannasveitarfélögin. Þá eru vistvænar samgöngur lykilaðgerð íslenskra stjórnvalda í leið að árangri í loftslagsmálum.

Fundurinn hvetur meirihlutann í bæjarstjórn til að láta efndir fylgja orðum og stórauka fjármagn til málaflokksins vegna innviðauppbyggingar og annarra aðgerða sem stuðla að auknum hlut hjólreiða í samgöngumynstrinu.

Aðalfundur Vinstri grænna í Hafnarfirði haldinn 27. október 2023 fagnar þeirri samstöðu sem birtist á svo eftirminnilegan hátt í Kvennaverkfallinu 24. október sl. Fundurinn minnir á orð aðstandenda Kvennaverkfallsins um að í jafnréttisparadísinni Íslandi geisi ofbeldisfaraldur sem allavega 40% kvenna verða fyrir og kynseginn fólk, þ.m.t. kvár, fatlaðar konur og konur af erlendum uppruna verða fyrir enn meira ofbeldi en aðrir hópar. Atvinnutekjur kvenna eru enn rúmlega 20% lægri en karla og kynsegin fólk fær heldur ekki sömu laun og tækifæri og þeir. Lág laun gera svo þessum hópum enn erfiðara fyrir eða jafnvel ómögulegt að slíta sig úr ofbeldissamböndum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur bent á að íslenskt samfélag sé í þeirri stöðu að geta náð fullu jafnrétti fyrir 2030 og liður í því er að útrýma þeirri samfélagslegu meinsemd sem kynbundinn launamunur er, meðal annars með því að endurmeta virði kvennastarfa. Fundurinn hvetur meirihlutann í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að ganga á undan með góðu fordæmi og hefja þegar í stað vinnu við slíkt endurmat.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search