PO
EN

Hinn ríkis­rekni einka­markaður

Deildu 

Mín skoðun er sú að allir mikilvægir innviðir í þessu landi, hvort heldur þeir snúa að heilbrigðisþjónustu, orkumálum, menntakerfi og svo framvegis, eiga auðvitað að vera í eigu almennings og arður af þeim ef einhver er að ganga inn í sameign til að standa undir rekstri samfélagsins.

Þessu eru ekki öll sammála og hægt og rólega gegnum áratugina hefur einkavæðingin kroppað meira og meira til sín. Ríkisapparötin eru svelt innanfrá til þess að það líti út fyrir að einkageirinn komi svo til bjargar með því að stytta biðlista eða bjóða fjölbreyttari og heppilegri þjónustu. Þetta er dapurt, býður upp á tvöfalt kerfi sem sum hafa aðgang að en önnur ekki. Svo greiða fyrirtækin sér arð þegar vel gengur en ætlast til þess að ríkið taki skellinn þegar bjátar á.

Þetta sjáum við í nánast öllum geirum og ég hef kallað þetta “hinn ríkisrekna einkamarkað” . Frelsi einstaklinga til að stofna og reka fyrirtæki er stjórnarskrárvarið og það er mikilvægt. En öllum rekstri fylgir àhætta, það eru uppgangs ár en svo koma líka mögru árin. Á Íslandi sjáum við milljarða veltu í sumum atvinnugreinum ár eftir ár með tilheyrandi vexti og arðgreiðslum. Svo kemur eitt ár þar sem af einhverjum ófyrirséðum ástæðum gengur verr og þá er allt á vonarvöl og ákall berst um að ríkið bjargi málunum. Þetta gengur ekki upp.

Það er mikið í tísku að tala um sprota, frumkvöðla og nýsköpun enda mikilvægt að styðja og verja slíkt svo við fáum stöðugt nýtt blóð í æðar hagkerfisins. En greinar sem starfað hafa í áratugi, staðið rækilega undir sér og greitt sér arð, falla ekki lengur þar undir.

Svo er það samviskuspurningin.

Þegar búið er að einkavæða grunninnviði sem tugþúsundir þurfa að stóla á, bæði einstaklingar og fyrirtæki, hvað á þá ríkið að gera?

Láta hlutina bara sökkva? Leyfa hrauni að renna yfir Svartsengi sem mun stöðva streymi vatns og orku til 30 þúsund íbúa?

Nei það gengur ekki. Ættu einkafyrirtæki að borga brúsann eða amk hluta hans? Já að sjálfsögðu. Hefur ríkið boðvald yfir fyrirtækjum í einkaeigu (þó að hluti sé í eigu lífeyrissjóða landsmanna)? Nei. Það fylgdi ekki með í samningnum.

Lærum af þessu ástandi. Skynsamlegast væri að við hefðum alla okkar mikilvægu innviði, grunnþjónustu sem þjóðin á allt undir, í eigu ríkisins.

Grein birtist á vísi 17.nóvember

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search