PO
EN

Endurhugsum fæðukerfin

Deildu 

Matvælaþing fór fram í síðustu viku. Þema þingsins í ár var hringrásarhagkerfið í samhengi við nýsamþykkta matvælastefnu. Fjölbreyttur hópur fyrirlesara flutti erindi og góðir gestir í pallborðum ræddu innleiðingu hringrásarhagkerfis í matvælaframleiðslu á mismunandi stigum framleiðslukeðjunnar og tækifæri og áskoranir í því samhengi. Það er nauðsynlegt að tryggja að auðlindir sem nýttar eru til að búa til mat rati aftur inn í hringrásina og skapi verðmæti á nýjan leik, en sé ekki fargað. Auðlindanýting verður að vera sjálfbær því hún hefur áhrif á náttúruna og vistkerfi hennar. 

Áskoranir samtímans

Þátttaka á þinginu var góð og ég er sérstaklega ánægð með umræður dagsins. Það var hugvekja í máli allra sem tóku þátt í þinginu. Það sem ég tók með mér var að við verðum að hugsa um stóra samhengið en ekki bara innan ákveðinna kerfa. Við þurfum að ögra kerfunum, brjóta múra og hugsa til langs tíma. Við þurfum að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu atvinnuvega sem geta tekist á við áskoranir samtímans; áskoranir um loftslag, líffræðilega fjölbreytni, endurheimt vistkerfa, hringrásarhagkerfið og takmarkaðar auðlindir jarðar. 

Við verðum að halda okkur innan þolmarka vistkerfanna, þar sem að auðlindir eru takmarkaðar. 

Við eigum mikil auðæfi í auðlindunum hér á landi, og þar á ég ekki aðeins við hinar náttúrulegu auðlindir þótt þær séu miklar. Okkar stærsta auðlind er fólk; bjartsýnt fólk með mikið þrek, kraft og þor. Við eigum þétt, upplýst og vel menntað samfélag og það er mikið traust í samfélaginu okkar. Það er auðlind í heimi þar sem skautun og öfgafullur málflutningur fær sífellt sterkari hljómgrunn. 

Aðgengi fyrir öll óháð efnahag

Svo að matvæla- og fæðuöryggi sé tryggt í raun þarf að vera aðgengilegt að borða hollan, góðan og spennandi mat, með lágu kolefnisspori – líka fyrir þau sem hafa lág laun. Þær fjölskyldur sem horfa fyrst og fremst á verðmiðann mega ekki gleymast. Það er grundvallaratriði að við höfum öll þetta aðgengi, en ekki bara sum.

Við þurfum að innleiða hringrásarhagkerfið í þágu heilsu jarðarinnar, öðruvísi gengur þetta ekki. Breytingarnar þurfa að verða til langs tíma en við verðum að byrja núna, brjóta niður múra, tala saman og endurhugsa fæðukerfin okkar í þágu samdráttar í losun og hringrásarhagkerfi er forsenda fyrir því að það takist. Takk aftur fyrir frábært matvælaþing, öll sem komu að því og þið sem tókuð þátt! Ég hlakka til að halda umræðunni áfram á næsta matvælaþingi, í nóvember 2024.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search