Í fjárlögum þessa árs kemur fram að 840 milljónum verði ráðstafað á árinu til að stytta bið sjúklinga eftir mikilvægum aðgerðum. Um er að ræða liðskiptaaðgerðir, augasteinsaðgerðir, tilteknar kvenlíffæraaðgerðir og brennsluaðgerðir vegna gáttatifs.
Þetta eru sömu aðgerðaflokkarnir og settir voru í forgang í sérstöku biðlistaátaki til þriggja ára sem lauk á síðasta ári. Átakið skilaði umtalsverðum árangri og tókst að stytta biðtíma eftir öllum þeim aðgerðum sem um ræðir.
Gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu er einn af hornsteinum góðs heilbrigðiskerfis. Fyrr á árinu mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem nú er til meðferðar á vettvangi þingsins. Þar er aðgengi að heilbrigðisþjónustu skilgreint sem einn af lykilþáttum við mat á árangri heilbrigðisþjónustunnar. Undirstrikar það mikilvægi þess að halda áfram á sömu braut svo biðtíminn lengist ekki á ný. Sérstaklega er mikilvægt að framkvæma eins margar liðskiptaaðgerðir og kostur er þar sem þörf fyrir slíkar aðgerðir eykst jafnt og þétt. Líkt og undanfarin þrjú ár munu Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands taka að sér að framkvæma umtalsvert fleiri aðgerðir en þær myndu gera alla jafna og hafa þær lagt fram áætlanir um ráðstöfun fjármagnsins. Alls munu stofnanirnar þrjár framkvæma um 570 viðbótar liðskiptaaðgerðir sem er fjölgun um tæplega 50 aðgerðir frá því í átakinu í fyrra. Augasteinsaðgerðir verða 1.300 fleiri en ella. Þá verður völdum aðgerðum á grindarbotnslíffærum kvenna fjölgað um tæplega 140 á árinu og að lokum verða framkvæmdar brennsluaðgerðir vegna gáttatifs fyrir svipaða upphæð og varið var til þræðinga og kransæðavíkkana í átaki síðsta árs. Á heildina litið hefur biðlistaátak síðustu ára skilað miklum árangri. Aðgerðum hefur fjölgað mikið og biðtími hefur styst þrátt fyrir að enn megi gera betur. Samvinna heilbrigðistofnana og aukið fjármagn hefur lagt grunninn að þessum góða árangri sem mikilvægt er að byggja á og viðhalda til að stuðla að auknu aðgengi og þar með bættri heilbrigðisþjónustu fyrir alla.