Þekkirðu ekki drauginn á glugganum spyr Jóhannes úr Kötlum í ljóði sem kom út á fjórða áratug síðustu aldar. Ljóðið fjallar um þau öfl sem hatrið hafði þá vakið upp úr gröfum miðalda í Evrópu. Skáldið reyndist um þetta sannspátt þegar álfan féll í helmyrkur styrjaldar þremur árum eftir birtingu þess í Rauðum pennum árið 1936. Þessi spurning á allt eins við í dag. Þegar við horfum upp á heim þar sem skálmöld magnast upp fyrir botni Miðjarðarhafs, stríð geisar í Evrópu og virðing fyrir mannréttindum og alþjóðalögum fer þverrandi í flóknum heimi. Fyrir alþjóðasinna er bæði sorglegt og erfitt að horfa upp á alþjóðasamfélagið eiga í stökustu vandræðum með að hnoða saman texta í ályktun sem kallar eftir friði á sama tíma og átök geisa víðs vegar. Erindi friðarhreyfingarinnar er á slíkum tímum mikilvægara en nokkru sinni.
Friðarhreyfingin aldrei mikilvægari
Áskoranir nútímans eru margar, fjölpóla heimur þar sem mörg ríki eru undir stjórn valdhafa sem láta mannréttindi og alþjóðalög reka á reiðanum. Átök út um allan heim, spretta af sömu rót, yfirgangi og virðingarleysi valdhafa fyrir mannhelgi og mannréttindum. Þannig hefur ofbeldi og valdbeiting viðhaldist fyrir botni Miðjarðarhafs í áratugi og því miður virðist sem engin áætlun sé um það hvernig binda skuli enda á átökin og koma á varanlegum friði. Reynsla síðustu áratuga af íhlutunum Vesturvelda í fjarlægum löndum sýnir að slíkt mun hvorki leiða til öryggis né friðar. Grundvallarstefna friðarhreyfinga, um skilyrðislausa virðingu fyrir lífi á því aukið erindi í dag.
Þó að erfitt sé að sjá fyrir sér friðsamlegar lausnir til lengdar þá er alltaf von. Þjóðir þær sem börðust á banaspjótum fyrir 80 árum í Evrópu hafa lifað í friði og í flestum tilvikum afsalað sér landsvæðum þeim er skiptu um hendur í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Mörg óttuðust að austur Evrópa myndi loga eftir fall Sovétríkjana þegar ríki Varsjárbandalagsins færu að deila um landamerki þau er Stalín og marskálkar hans teiknuðu að loknu stríði og stökktu milljónum á vergang. Það varð ekki, en þessi ríki litu svo á að gert væri gert og kusu að horfa til framtíðar.
Fjarri vígaslóð
Hlutverk okkar sem fjarri erum þessum átökum er helst það að halda lífi í friðarhugmyndinni, sama hversu fjarlæg hún kann að virðast í dag. Að víkja ekki frá þeirri hugsjón. Pólitískar hreyfingar geta ekki setið hjá þegar kemur að afstöðunni til friðar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur tekið þá ákvörðun að vera hluti af hinni alþjóðlegu friðarhreyfingu. Það munum við gera áfram. Því að tröllin munu áfram brýna raustina og kalla eftir blóði og þá verður krafan um frið að hljóma sterkar en nokkru sinni.
Svandís Svavarsdóttir er matvælaráðherra.