PO
EN

Segðu mér hverjir eru vinir þínir

Deildu 

Segðu mér hverjir eru vinir þínir og ég skal segja þér hver þú ert. Þetta spakmæli heyrði ég fyrir margt löngu og finnst það nokkuð glúrið. En viljum við ekki sjálf skilgreina hver við erum?

Í sögunni gömlu um Lísu í Undralandi segir frá ferð hennar um ókunnar slóðir. Hún hittir marga, þarf að læra að forðast hættur og almennt að fóta sig og komast af í framandi og ógnandi umhverfi. Dag einn hittir hún kálorm og er spurð: „Hver ert þú“‘. „Ég veit það varla sjálf“ svarar Lísa og alloft á þessu ferðalagi sínu um framandi slóðir þarf hún að svara spurninngunni fyrir sjálfri sér og öðrum: „Hver er ég“? Við öll þurfum að svara þessari spurningu allt lífið fyrir sjálfum okkur og öðrum: Hver er ég? Hvað þýðir það að vera manneskja?

Hvernig eignast maður vin?

Stundum hefst vináttan á barnsaldri, í leikskóla, barnaskóla, í íþróttum eða tómstundastarfi, vinátta sem endist út lífið. Hvernig sem því háttað hvar og hvernig vináttan hefst er íhugunarvert að skoða hvað ræður því að við eignumst vini? Heimspekingar hafa í aldanna rás reynt að skilgreina vináttuna. Sumir hafa haldið fram nokkrum ólíkum gerðum vináttu.

Í riti sínu Siðfræði Níkomakkosar greinir Aristóteles á milli nytsemisvináttu, ánægjuvináttu og sannrar vináttu. „Nytsemisvinátta er velvild í garð annars sem byggist á nytsemi vinarins. Hún beinist þess vegna að manns eigin heill en ekki að heill vinarins hans  vegna. Ánægjuvinátta byggir á ánægjunni sem við höfum af samvist með vininum“. Aristóteles segir um þessar gerðir vináttu að „ástúðin beinist ekki að þeim sem er unnað að svo miklu leyti sem honum er unnað heldur að svo miklu leyti sem hann er nytsamlegur eða ánægjulegur“. Aristóteles telur að ánægjuvinátta sé líkari sannri vináttu en nytsemisvinátta, en að bæði ánægjuvinátta og nytsemisvinátta séu ótraustar og rofni auðveldlega. Sönn vinátta segir Aristóteles að sé „vinátta góðra manna sem eru gæddir sömu dyggðum, því þeir óska hver öðrum heilla af því þeir eru góðir“ 

En hvernig er þetta meðal þjóða, samfélaga. Geta þjóðir átt vini, vinaþjóðir? Þegar kemur að alþjóðasamstarfi, sem Íslendingar hafa tekið og taka enn þátt í, skilgreina stjórnmálamenn oft hvaða þjóðir eru vinaþjóðir Íslendinga. Þá er oft vísað til þess að Bandaríki Norður Ameríku (BNA) sé vinaþjóð Íslands og bent á að gerður hafi verið sérstakur samningur við þá um vernd, um öryggi Íslands . Ef við höldum okkur við skilgreiningu Aristotelesar vaknar spurningin: Hverskonar vinir eru BNA, hverskonar vinátta er á ferðinni, nytsemisvinátta, ánægjuvinátta eða sönn vinátta?

Áratuga vinátta, eða ?

Í nær 73 ár hefur verið i gildi varnarsamningur við BNA. Hann var samþykktur á Alþingi án aðkomu þjóðarinnar og þá  var mikill ágreiningur uppi um hann bæði á þingi og meðal þjóðarinnar. Frá því að samningurinn var staðfestur hefur hinn samningsaðilinn, BNA, rekið sérlega ofbeldisfulla og árásargjarna utanríkisstefnu.  Hún byggir á fordómafullu hatri á öðrum stjórnmálaskoðunum, nokkuð sem gegnsýrir stjórnmál þar á bæ og svo ekki síst efnahagslegum hagsmunum BNA. Ef telja ætti upp öll þau stríð og átök sem BNA hafa stofnað til undanfarna áratugi, um víða veröld, yrði það ljótur listi. Hin mannskæðustu eru væntanlega Víetnam, Afganistan og Írak. Það er fleira sem einkennir stórveldið BNA en bara blóðugur stríðsrekstur. Þeir hafa orðið uppvísir að fjölda stríðsglæpa gegnum tíðina, mannréttindabrotum og brotum á alþjóðasáttmálum SÞ. Þar eru t.d. fangabúðir þeirra í Gvantanamo skýrt dæmi. Viljum við eiga svona vini?

Hvernig þjóð erum / viljum við vera?

Hvernig í ósköpunum getur þjóð, Íslendingar, sem vill halda á lofti friði og samvinnu þjóða, verið í vinasambandi með þjóðríki, heimsveldi, sem hlýtur að teljast eitt það  ofbeldisfyllsta sem heimurinn hefur séð síðustu áratugina. Heimsveldi sem gefur skít í mannréttindi og mannhelgi hvenær og hvar sem það hentar þeim eða þeirra bandamönnum hverju sinni. Ef þeir eru vinir okkar, hvaða gerð af vináttu ríkir þá milli þjóðanna, Íslands og BNA.

Er það ánægjuvinátta? Tæplega. Er það nytsemisvinátta? Sú tegund er sennileg. Nytsemin fyrir BNA er hentug staðsetning Íslands sem útvörður á umráðasvæði þeirra í norðrinu. Fyrir Íslendinga möguleikinn á að græða peninga á hermanginu. Það er nánast óhugsandi að vináttan sé sönn vinátta. Ef við tökum mark á Aristoteles, að sönn vinátta sé „vinátta góðra manna sem eru gæddir sömu dyggðum, því þeir óska hver öðrum heilla af því þeir eru góðir“ þá gengur það ekki upp í mínum huga. Til þess eru samfélög okkar og heimsveldisins í vestri of ólík, gildismat þessara þjóða svo gjörólíkt. Eða er það ekki?

Steinar Harðarson, gjaldkeri í stjórn VG

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search