PO
EN

Þegar stjórnmálin virka fyrir alþýðufólk

Deildu 

Sólveig Anna Jónsdóttir sagði í Silfrinu á dögunum að það ætti „að óska alþýðufólki til hamingju með það að hafa getið fengið stjórnmálin til að virka fyrir sig“. Ábending formanns Eflingar beinir sjónum að þeim straumhvörfum sem urðu með myndarlegri aðkomu stjórnvalda, með Katrínu Jakobsdóttur við stýrið, að samningum sem undirritaðir hafa verið milli aðila á 60% hins almenna vinnumarkaðar. Langtímasamningar til ársins 2028 með hófsömum launabreytingum munu stuðla að því að verðbólga lækki og skilyrði skapist til lægra vaxtastigs og meiri stöðugleika.

Stjórnmál snúast um brauðstrit

Stjórnmálin eru aftur farin að snúast um brauðstritið og samfélagsjöfnuðinn. Þau eru farin „að virka fyrir alþýðufólk“ og sameina til breiðrar baráttu í stað þess að sundra og smætta. Stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, greiddu fyrir þessum samningum með því að gera umbætur á ýmsum tilfærslukerfum, draga úr gjaldskrárhækkunum og koma á gjaldfrjálsum skólamáltíðum. Allrahagur er af því að vaxtastig lækki en sérstaklega munu umbæturnar koma sér vel fyrir tekjulægri hópa, einkum þá sem hafa fleiri en eitt barn í grunnskóla vegna þess hve gjaldfrjálsar skólamáltíðir skila miklu. Samkvæmt kynningarefni Eflingar er sú kjarabót ígildi 40 þúsund króna launahækkunar fyrir fjölskyldu með tvö börn. Yfir tíu ára tímabil í grunnskóla er það búbót sem munar um fyrir venjulegt fólk. Þessu til viðbótar munar verulega um auknar barna- og húsnæðisbætur auk sérstaks vaxtastuðnings á þessu ári. Fjölskylduvænt samfélag þar sem að stór skref eru stigin til að tryggja að börn á Íslandi lifi án fátæktar er eitthvað sem sameinað getur okkur öll.

Beinn og óbeinn ávinningur

Ástæða er til að ætla að þær breytingar sem gerðar verða á tilfærslukerfum muni auka tekjujöfnuð á Ísland enn frekar en verið hefur. Breytingar sem voru gerðar á skattkerfinu í tengslum við lífskjarasamningana lækkuðu skattbyrði lágtekjufólks svo um munaði. Hagstofa Íslands birti mikilvægar greiningar á síðasta ári sem staðfestu að tekjujöfnuður jókst í kjölfarið. Þegar að stjórnmál virka fyrir alþýðufólk verður hagur almennings betri, bæði þeirra sem njóta beins ávinnings en ekki síður hinna sem njóta óbeinna áhrifa af stöðugleika.

Vefurinn www.tekjusagan.is sýnir að um langa hríð verið mikill félagslegur hreyfanleiki á Íslandi. Þar má sjá á gagnvirkan hátt hvernig stór hluti fólks flyst milli tekjutíunda á lífsleiðinni. Vissir hópar búa þó við viðvarandi lágar tekjur. Mikilvægt réttlætismál er að hækka laun þessara hópa eins og gert er þar sem láglaunastörf eru oft á tíðum líkamlega krefjandi og jafnvel heilsuspillandi. Langtímasamningarnir eru því bæði réttlætis og efnahagsmál. Öll högnumst við á því.

Kári Gautason er varaþingmaður Vinstri grænna.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search