Álag á bráðamóttöku Landspítalans hefur reglulega verið til umfjöllunar á vettvangi fjölmiðla um langt skeið. Undanfarin misseri hefur verið gripið til markvissra aðgerða til að bregðast við þeirri stöðu og tryggja sem mest gæði og öryggi þjónustunnar. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala fækkaði komum á bráðamóttöku Landspítalans um 10% á síðasta ári þannig að aðgerðirnar hafa skilað umtalsverðum árangri. Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, rekur þessa fækkun m.a. til góðs samstarfs milli spítalans og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um að beina sjúklingum á þjónustustig við hæfi. Á sama tíma og dregið hefur úr komum minna veikra einstaklinga á bráðamóttökuna leita fleiri til heilsugæslunnar en áður með sín vandamál. Þessi breyting hefur í för með sér þjónustubót bæði fyrir þá minna veiku sem fara til heilsugæslunnar sem og fyrir þá bráðveiku sem leita á bráðamóttökuna.Nú liggur fyrir þinginu þingsályktunartillaga að heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Í stefnunni er fjallað um grunnstoðir heilbrigðiskerfisins, meðal annars mikilvægi þess að fólki sé beint inn á rétt þjónustustig með sín vandamál til að tryggja sem besta þjónustu og að skilgreina þurfi hlutverk þjónustuveitenda í heilbrigðiskerfinu með skýrum hætti. Þjónusta heilsugæslunnar er þannig skilgreind sem fyrsta stigs þjónusta, sem fólk leitar fyrst til með sín vandamál ef ekki er um bráð veikindi að ræða. Þaðan er fólki svo vísað í annars eða þriðja stigs þjónustu ef um er að ræða flóknari úrlausnarefni.
Efling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu er mikilvægur þáttur í eflingu heilbrigðiskerfisins í heild og eitt af mikilvægustu stefnumálum mínum sem heilbrigðisráðherra og meðal meginmarkmiða ríkisstjórnarinnar. Mikilvæg skref hafa verið stigin í þeim efnum og má þar nefna fjölgun sálfræðinga og rýmkun afgreiðslutíma. Mikilvægur liður í að efla heilsugæsluna og bæta aðgengi að henni er einnig að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga innan hennar og er gjaldfrelsi barna innan heilbrigðiskerfisins dæmi um slíka áherslu. Þá var innheimtu komugjalda af öryrkjum og öldruðum í heilsugæslu og hjá heimilislæknum hætt um síðustu áramót.
Með sterkari heilsugæslu og skýrari verkaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins stuðlum við að því að Landspítali þjóni sínu meginmarkmiði enn betur sem er að sinna veikasta fólkinu og þeim sem lenda í alvarlegum slysum og heilsubresti. Þannig stígum við mikilvæg skref í áttina að betra heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn.