Samstarf Íslands, Danmerkur og Noregs á sviði lyfjamála var staðfest með undirritun samkomulags í gær. Vonast er til þess að hægt verði að draga úr kostnaði við lyfjakaup. Samkomulagið snýst ekki aðeins um kostnað heldur líka öryggi sjúklinga og aðgengi þeirra að lyfjum. Með kaupum á meira magni minnki hætta á lyfjaskorti.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að um langt skeið hafi samstarf af þessu tagi verið í undirbúningi. „Og það er mjög ánægulegt að það verður af því núna að Ísland, Danmörk og Noregur sammælast um það að stíga fyrstu skrefin af því að hefja sameiginlegt útboð á tilteknum tegundum af mjög dýrum lyfjum,“ segir Svandís Hún segir það vera áhyggjuefni út um allan heim að dýrustu lyfin og nýjustu lyfin hafi tilhneigingu til þess að verða svo dýr að þau leggi umtalsvert álag á ríkissjóði, „Þar með talið á Íslandi og það er því mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur og íslenska heilbrigðisþjónustu að ná verðinu niður og það gerum við með samstarfi við aðra,“ segir Svandís.