PO
EN

Dagur umhverfisins

Deildu 

Gleðilegt sumar! Dag umhverfisins ber að þessu sinni upp á sumardaginn fyrsta. Þannig renna saman fögnuður yfir björtum sumarkvöldum og umhverfismálum sem varða framtíð okkar allra. Það var þennan dag árið 1762 sem Sveinn Pálsson fæddist en hann var fyrstur Íslendinga til að nema náttúruvísindi og orðaði meðal annars þá hugsun sem nú kallast sjálfbær þróun.

Loftslagsmál og náttúrvernd

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er nú unnið hörðum höndum að aðgerðum vegna loftslagsbreytinga. Meðal annars hefur verið unnið að mikilvægum breytingum á loftslagslögum og nýlega var Loftslagsstefna Stjórnarráðsins kynnt en hún mun hafa margfeldisáhrif út í samfélagið. Fleiri verkefni verða kynnt í vor.

Sérstakt átak um friðlýsingar er í fullum gangi en eitt af mínum fyrstu verkum sem ráðherra var að koma á fót teymi milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Umhverfisstofnunar sem vinnur nú að því að friðlýsa svæði sem eru í verndarflokki rammaáætlunar, svæði á eldri náttúruverndaráætlunum og svæði sem eru undir álagi ferðamanna. Á sama tíma vinnur þverpólitísk nefnd með fulltrúum allra flokka að undirbúningi að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, í samræmi við stjórnarsáttmálann.

Einnig er unnið jafnt og þétt að mikilli uppbyggingu innviða til verndar náttúru landsins og menningarsögulegum minjum vítt og breitt um landið. Nýlega var kynnt um úthlutun úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verkefna á yfir 100 stöðum um allt land og þau tímamót hafa orðið að stóraukin áhersla er lögð á landvörslu. Margt annað gleðilegt má nefna á Degi umhverfisins: Ríkisstjórnin hefur samþykkt að Ísland fullgildi Landslagssamning Evrópu; barátta gegn plastmengun, neyslu og sóun hefur verið tekin föstum tökum; og ný heildarlög um skipulag haf og strandssvæða, landgræðslu og skógrækt munu marka vatnaskil.

Það er einstakt að finna þann mikla áhuga sem er á umhverfismálum í samfélaginu. Við í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu óskum landsmönnum öllum innilega til hamingju með daginn.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search