Árið 2011 var Viðey eða Minnanúpshólmi í Þjórsá friðuð. Eyjan er rúmir þrír hektarar að stærð, afar gróin og falleg á að líta. Í eyjunni hafa fundist yfir 70 gróðurtegundir, þar af tvær sjaldgæfar á landsvísu. Þetta er ekki það eina sem gerir Viðey einstaka, heldur veitir straumþung Þjórsá eyjunni mikilvæga umgjörð og hefur séð til þess að flóra eyjunnar er lítt snortin af áhrifum manns og dýra. Slíkt er mikilvæg auðlind enda markmið með friðlýsingu hennar að vernda náttúrulegan, lítt snortinn og gróskumikinn birkiskóg eyjarinnar með öllu því lífríki sem honum fylgir. Lífbreytileiki eyjunnar hefur einstakt vísinda- og fræðslugildi sem okkur ber að vernda og líta á sem auðlind í þeirri óráðssíu og rányrkju sem frekari virkjunarhugmyndir í Þjórsá eru.
Samkvæmt verndarmarkmiðum náttúruverndarlaga á að vernda vatnsfarvegi og landslag sem er sérstætt eða fágætt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis. Nú þegar eru sjö virkjanir í Þjórsár- og Tungnaárssvæðinu (Búrfellsvirkjun 1966, Sigalda 1978, Hrauneyjarfossvirkjun 1981, Sultartangastöð 1999, Vatnsfellsstöð 2001, Búðarhálsstöð 2014, Búrfellsstöð II 2018) og þykir mörgum það feykinóg. Enda voru hugmyndir um Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun færðar yfir í biðflokk og illskiljanlegt hvers vegna Hvammsvirkjun fékk ekki að fylgja með. Ef af virkjun yrði færi 55 ferkílómetra svæði rétt fyrir ofan Viðey undir virkjunarmannvirki sem yrði vel sýnilegt og um leið óafturkræft inngrip í náttúrulegt landslags svæðisins. Þjórsá með sínum vatnsflaumi hefur hlíft eyjunni við ágangi og stendur Viðey nú sem mikilvægur minnisvarði um gróðurfar fyrr á öldum. Með virkjun mun eyjan verða opin fyrir ágangi dýra og birkiskógurinn og lífríkið allt í hættu. Líkt og segir í 55. grein laga um náttúruvernd (nr 60/2013) er óheimilt að nýta svæði sem friðlýst eru samkvæmt þessari grein til orkuframleiðslu og allar framkvæmdir sem raskað geta viðkomandi vatnakerfi séu bannaðar. Þess utan yrði þessi virkjunarframkvæmd dýr og afllítill kostur þegar upp er staðið, svo hugmyndin er í raun afleit og óskiljanlegt hvers vegna fleiri vatnsaflsvirkjanir í Þjórsá eru á dagskrá. Víst er að Hvammsvirkjun, með öllu því raski sem byggingu hennar fylgdi, myndi valda miklum umhverfisskaða og yrði í raun manngerðar náttúruhamfarir sem hefðu gríðarleg neikvæð áhrif á samfélagið. Nærsamfélagið hefur talað skýrt gegn þessum áformum og lýst yfir andstöðu sinni á ýmsan hátt enda auðséð að 4 km² lón með stíflugörðum muni hafa neikvæð áhrif á líf og störf heimafólks, atvinnuuppbyggingu og ferðaþjónustu og er í bága við þau samfélagslegu viðhorf sem eru í nærsamfélagi Þjórsár.
Í þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða er áréttað að tryggt sé að þar sem talið er að finna megi virkjunarkosti verði ákvarðanataka að vera byggð á langtíma sjónarmiðum, heildstæðu hagsmunamati með tilliti til verndargildis náttúru, menningarsögulegra minja og annarra gilda er varðar þjóðarhag, vernd og sjálfbæra þróun. Hvammsvirkjun er afar umdeild og mörg sem vilja að náttúran fái að njóta vafans og hætt verði við óafturkræf og eyðileggjandi náttúruspjöll sem framkvæmd hennar myndi sannarlega valda enda margt sem hefur breyst hvað varðar náttúruvernd, atvinnulíf og samfélagið í heild síðan fyrstu hugmyndir um Hvammsvirkjun litu dagsins ljós. Þjórsá, sem er lengst allra íslenskra áa, rennur að miklu leyti á Þjórsárhrauni hinu mikla sem er stærsta flæðihraun sem runnið hefur í nútíma á jörðinni og er sannarlega einstakt. Telur Landvernd Þjórsá hafa sérstöðu á heimsmælikvarða og þá sérstaklega neðsta hluta hennar, hið fyrirhugaða virkjanasvæði, sem að mestu er ósnortið í dag.
Viðey eða Minnanúpshólmi er einstök náttúruperla sem og allt það svæði sem færi undir Hagalón. Við horfum upp á þær hamfarir sem eiga sér stað á Suðurnesjum af náttúrunnar völdum. Getum við verið sammála um að manngerðar hamfarir eru í raun verri því þær eiga sér stað með upplýsingar að vopni?
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi og stjórnarkona í hreyfingunni.