Search
Close this search box.

Sæl samfélög

Deildu 

Þessa dagana stendur yfir Velsældarþing, Wellbeing Economy Forum, í Hörpu. Á ráðstefnunni er lögð áhersla á að skapa grundvöll fyrir sjálfbært velsældarhagkerfi til framtíðar. Velsældarhagkerfi er efnahagskerfi þar sem leitast er við að forgangsraða í þágu velferðar og lífsgæða almennings á breiðum grunni, þar sem skýr markmið um hagsæld og lífsgæði almennings hafa áhrif á áherslur og forgangsröðun stjórnvalda við ákvarðanatöku og áætlanagerð.

Mannkynið stendur frammi fyrir risavöxnum áskorunum. Loftslagsbreytingar, aukinn ójöfnuður, há tíðni andlegra veikinda og óstöðugleiki í alþjóðlegum samskiptum ríkja sem ógnar friði í heiminum eru meðal þeirra. Mín skoðun er sú að velsæld fólks og jarðarinnar okkar ætti að vera í forgrunni þegar við tökumst á við þessi verkefni. Ef við tryggjum ekki velsæld fólks og umhverfis getum við ekki  náð markmiðum okkar um jákvæðan og heilbrigðan hagvöxt.

Ég legg áherslu á velsældarhagkerfið í stórum og smáum verkefnum í ráðuneyti innviða. Þegar kemur að húsnæðismálum skiptir meginmáli að átta sig á því að aðgengi að öruggu, hagkvæmu húsnæði við hæfi er ekki aðeins jafnréttismál, heldur grundvallarmannréttindi. Í drögum að húsnæðisstefnu sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, kemur fram sú framtíðarsýn að fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf húsnæðismarkaðarins í jafnvægi við umhverfið, og það markmið að byggðir og sveitarfélög um land allt verði sjálfbær. Ef við fléttum velsæld og sjónarmið um sjálfbærni inn í húsnæðisstefnur og aðgerðir í málaflokknum tryggjum við betur samfélag þar sem ríkir félagsleg inngilding; samfélög þar sem íbúunum líður vel.

Skipulag borga, bæja og sveita hefur líka áhrif á heilbrigði samfélaga. Með því að skipuleggja svæði þar sem græn svæði eru, möguleikar eru til útivistar og samveru og samgöngur eru umhverfisvænn og raunhæfur valkostur aukum við heilbrigði og velsæld. Skipulagsmál geta nefnilega bæði verið lykilþáttur í því að stuðla að sjálfbærni og í því að jafna tækifæri íbúanna til samfélagsþátttöku. Þar er til mikils að vinna.

Ég held við séum flest sammála um að við viljum lifa í heimi þar sem velsæld er hornsteinn efnahagslegrar og félagslegrar þróunar. Ég get fullvissað ykkur um að ég mun leggja áherslu á að við getum skapað borgir, bæi og samfélög sem eru ekki aðeins efnahagslega farsæl, heldur farsæl fyrir öll þau sem þar búa. Þannig er velsældarhagkerfi í raun.

Svandís Svavarsdóttir er innviðaráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search