Hinsegin dagar fara fram þessa vikuna og óska ég öllum Íslendingum innilega til hamingju með þessa glæsilegu hátíð sem nær hámarki með gleðigöngunni á morgun, laugardag. Víða um land fer fram þétt dagskrá hinsegin daga sem fyllir mann ánægju og stolti yfir þeirri grósku sem á sér stað í hinsegin samfélaginu. Takk hinsegin sjálfboðaliðar, aktívistar, listafólk, veitingafólk, söngvarar, dansarar, fræðafólk, almenningur sem hefur sótt viðburði og ekki síst stjórn Hinsegin daga fyrir að gera þessa viku að þeirri veislu fjölbreytileikans sem hún er.
Það er ekki bara á blettinum í kringum Reykjavík þar sem hinsegin gróska ríkir. Hinsegin félög hafa verið stofnuð á Norðurlandi, Austurlandi og Vesturlandi og standa fyrir öflugu starfi. Forsvarsmenn þessara félaga eru miklir frumkvöðlar og forystufólk og minna okkur á að við eigum öll rétt á að vera eins og við erum – í heimabyggð og hvar sem við komum. Sá veruleiki að hinsegin fólk þurfi að flytja búferlum til að geta komið út úr skápnum á að vera liðin tíð.
Í lok júní hélt Hinsegin Vesturland stórglæsilega Hinsegin hátíð í Borgarnesi og var ég þess heiðurs aðnjótandi að flytja þar ávarp. Ég ólst sjálfur upp á Mýrunum í næsta nágrenni Borgarness og mér þótti mjög vænt um að sjá allan stuðninginn sem samfélagið þar sýnir hinsegin fólki. Mætingin var frábær og bærinn undirlagður af regnbogafánanum og öðrum merkjum hinsegin fólks. Þessi sýnileiki skiptir gríðarlegu máli. Stuðningur í heimabyggð er lykilatriði í viðbragðinu við bakslaginu sem hefur orðið á undanförnum misserum.
Í vor bárust þær gleðifréttir að Ísland hafi tekið stökk upp í 2. sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA Europe). Ísland er jafnframt áfram í efsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu. Þessi mikli árangur náðist ekki af tilviljun heldur vegna þrotlausar vinnu, metnaðar og baráttu hinsegin samfélagsins og áherslna stjórnvalda í málaflokknum. Það hefur verið gaman að taka þátt í þeirri vinnu og ég hlakka til áframhaldandi baráttu fyrir mannréttindum hinsegin fólks. Hluti af því er stuðningur við félagasamtök eins og Samtökin 78 sem á miklar þakkir skyldar fyrir öflugt starf í þágu fjölbreytileikans. Til hamingju við öll með hinsegin daga – úti um allt land.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson