Search
Close this search box.

Matur fyrir öll börn

Deildu 

Á næstu vikum hefja tugþúsundir grunnskólabarna nám í grunnskólum landsins. Spennandi tímar í lífi barna þar sem að kynni við vini eru endurnýjuð og nýir kennarar hitta nemendur. Nýtt skólaár er fullt af möguleikum til vaxtar og náms og heill nýr árgangur mætir eftirvæntingarfullur í grunnskólann. En nú er komið að tímamótum. Í fyrsta skipti á Íslandi verða skólamáltíðir gjaldfrjálsar fyrir öll börn. Þetta skref gerir grunnskólanna opnari, skólamáltíðin verður hluti af skólastarfinu, þar sem börn eru ekki dregin í dilka eftir efnahagslegri stöðu foreldra. Almennir grunnskólar eru öflugasta jöfnunartæki sem við eigum og mynda mikilvæga félagslega innviði. Eins og aðra mikilvæga innviði á að fjármagna grunnskólana úr sameiginlegum sjóðum samfélagsins.

Engin tapar á fullum maga

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru hluti af yfirlýsingu stjórnvalda um aðgerðir til að styðja við sameiginleg markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í tengslum við langtímakjarasamninga. Frumvarp til laga sem heimila Jöfnunarsjóði að greiða framlög til sveitarfélaga var svo samþykkt á vorþingi og fyrstu greiðslur berast sveitarfélögum á næstu dögum í samræmi við þau.

Samþykkt laganna og framkvæmd þeirra er áfangasigur fyrir verkalýðshreyfinguna og félagshyggjuöfl á Íslandi. Með þessu skrefi horfum við til Norðurlandanna, Svíþjóðar og Finnlands, þar sem skólamáltíðir hafa verið gjaldfrjálsar um áratugaskeið. Langtímarannsóknir frá Svíþjóð hafa sýnt fram á mikinn árangur. Til dæmis að engin börn eru verr sett við það að hafa aðgang að gjaldfrjálsum skólamáltíðum en þau börn sem koma af tekjulægri heimilum njóta mestra ávaxta. Sýnt hefur verið fram á að áhrif til lækkunar á fátækt barna en einnig að ævitekjur barna sem njóta gjaldfrjálsra skólamáltíða eru hærri. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það er góð fjárfesting að gefa börnum að borða.

Ótvíræð áhrif á hag barnafjölskyldna

Fyrir foreldra þessara barna verður meira eftir í veskinu í lok mánaðar en ef miðað er við gjaldskrá Reykjavíkurborgar eru áhrifin á ráðstöfunartekjur tæpar 120 þúsund krónur á ári fyrir hvert barn. Þessi upphæð kemur mörgum heimilum vel og er liður í því að draga úr áhrifum fátæktar í æsku á velsæld einstaklinga. En rannsóknir hafa einnig sýnt að þau sem voru af heimilum undir lágtekjumörkum á mótunarárum, 14-16 ára, voru líklegri til að vera undir lágtekjumörkum sjálf síðar á ævinni.

Tækifærin eru enn ekki þau hin sömu fyrir fólk af efnaminni heimilum. Það er staðreynd sem stjórnmálin á Íslandi verða að taka enn fastari tökum á næstu árum. Barnvænt samfélag er gott samfélag og í þannig samfélagi viljum við búa.

Svandís Svavarsdóttir er innviðaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search