PO
EN

Dagur umhverfis: Ávarp ráðherra

Deildu 

Góðir gestir,

Hvað eiga farfuglarnir, krókusar í húsagörðum, fjölgun reiðhjóla á götunum, sprellandi dimmitantar og Dagur umhverfisins sameiginlegt? Jú – allt eru þetta meðal öruggustu vorboða hvers árs. Í ár bar Dag umhverfisins síðan upp á sumardaginn fyrsta, og þannig rann saman fögnuður yfir björtum sumarkvöldum og umhverfismálum sem varða framtíð okkar allra. Vegna þessa samruna leyfum við okkur að fagna Degi umhverfisins núna nokkrum dögum á eftir áætlun.

Þetta er í 21. skipti sem Dagur umhverfisins er haldinn hátíðlegur en 25. apríl er fæðingardagur Sveins Pálssonar sem hefur gjarnan verið kallaður fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn. Allt frá upphafi hefur dagurinn verið vettvangur fyrir afhendingu viðurkenninga fyrir umhverfismál. Í ár verður engin undantekning þar á en hér á eftir mun ég afhenda Kuðunginn fyrirtæki sem hefur náð framúrskarandi árangri í umhverfismálum og sömuleiðis útnefna grunnskólanemendur Varðliða umhverfisins fyrir verkefni um umhverfismál.

Bæði fyrirtækjaverðlaunin og nemendaverðlaunin eiga sér sterkan samhljóm við þær áskoranir og þrýstihópa sem hafa verið áberandi að undanförnu í umræðu um umhverfismál. Þannig tengist fyrirtækið sem hlýtur Kuðunginn með beinum hætti neyslu fólks, sem að undanförnu hefur verið í brennidepli umræðunnar um áskoranir í loftslagsmálum. Með umhverfisstefnu sinni hefur umrætt fyrirtæki sýnt að með því að axla samfélagslega ábyrgð geta fyrirtæki skilað umtalsverðum árangri í umhverfismálum án þess að vinna gegn markmiðum sínum um hagnað – þvert á móti getur þetta farið vel saman.

Verkefnasamkeppnin Varðliðar umhverfisins hefur frá upphafi haft það að markmiði að vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði. Við þekkjum öll hvernig ungt fólk hefur svo um munar látið að sér kveða í þessum efnum að undanförnu og það hefur sýnt mikla einurð í einmitt því að leiðbeina okkur fullorðna fólkinu um málefni umhverfisins, enda varða þau ekki síst þeirra kynslóð og aðrar kynslóðir framtíðarinnar. Í þeim nemendaverkefnum sem hljóta viðurkenningu hér á eftir heyrast raddir barna og ungmenna á Íslandi um hvernig hægt er að leysa ólíkar áskoranir í umhverfismálum og þar skortir ekkert upp á sköpunarkraft og framsýni.

Það er afar ánægjulegt að fá að gegna starfi umhverfis- og auðlindaráðherra á tímum þegar umhverfismál fá æ meira vægi í samfélaginu öllu. Mörg verk er að vinna og að þeim keppir einstaklega öflugt teymi í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem ég er heppinn að fá að vinna með.

Hvað varðar loftslagsmálin á mikil vinna sér stað í ráðuneytinu. Áður en ég varð ráðherra hafði ég lengi kallað eftir því að íslensk stjórnvöld settu fram fjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Eitt af fyrstu verkefnum mínum þegar ég kom í umhverfis- og auðlindaráðuneytið var að láta vinna slíka áætlun. Hún er afar yfirgripsmikil og inniber eins og fram hefur komið meðal annars víðtæk orkuskipti í samgöngum og umfangsmikla kolefnisbindingu.

Svo fáein dæmi séu nefnd hefur kolefnisgjald verið hækkað í áföngum síðan ríkisstjórnin tók við, vinna er hafin við breytingar á landsskipulagsstefnu með áherslu á loftslagsmál í skipulagi og við höfum tryggt að gert sé ráð fyrir hleðslu rafbíla við allt nýbyggt húsnæði á landinu. Undirritaður hefur verið samningur um viðamikla umhverfisfræðslu í skólum með áherslu á loftslagsbreytingar og vinna við stofnun Loftslagssjóðs er í fullum gangi. Einnig hefur verið unnið að mikilvægum breytingum á loftslagslögum þar sem allar stofnanir ríkisins eru skyldaðar til að setja sér markmið um samdrátt í losun og nýlega var Loftslagsstefna Stjórnarráðsins kynnt en hún mun hafa margfeldisáhrif út í samfélagið.

Sérstakt átak um friðlýsingar er í fullum gangi en á síðasta ári kom ég á fót teymi milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Umhverfisstofnunar sem vinnur nú að því að friðlýsa svæði sem eru í verndarflokki rammaáætlunar, svæði á eldri náttúruverndaráætlunum og svæði sem eru undir álagi ferðamanna. Tengt þessu var Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fengin til að framkvæma viðamikla rannsókn á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða – þá fyrstu sinnar tegundar á landsvísu hér á landi. Hún sýnir ótvíræð jákvæð efnahagsleg áhrif friðlýsinga.

Á sama tíma vinnur þverpólitísk nefnd með fulltrúum allra flokka að undirbúningi að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, í samræmi við stjórnarsáttmálann. Miðhálendisþjóðgarður mun marka vatnaskil – tímamót í náttúruvernd á Íslandi. Við störf nefndarinnar hefur mikil áhersla verið lögð á samráð við helstu hagsmunaaðila, þ.m.t. sveitarfélög og meðal annars haldnir fundir um allt land með samtals 24 sveitarfélögum í byrjun þessa árs, auk þess sem einstaka verkefni nefndarinnar hafa verið sett í samráðsgátt stjórnvalda og hægt er að fylgjast með störfum nefndarinnar á vef Stjórnarráðsins.

Unnið er jafnt og þétt að mikilli uppbyggingu innviða til verndar náttúru landsins og menningarsögulegum minjum vítt og breitt um landið. Nýlega var kynnt um úthlutun úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verkefna á yfir 100 stöðum um allt land. Við sjáum þegar mikinn árangur af þessari vinnu, en í fyrra voru einnig fjölmörg verkefni styrkt. Það hefur náðst nauðsynleg yfirsýn yfir þennan málaflokk og þrátt fyrir að fjölmörg verk séu óunnin við uppbyggingu innviða þá eru þessi mál núna í góðum farvegi og stóraukin fjárframlög til málaflokksins. Það skiptir verulegu máli.

Þau tímamót hafa auk þess orðið að áhersla er nú lögð á að beina stórauknu fjármagni til landvörslu.. Þetta er löngu tímabært. Þannig hefur þegar tekist að tryggja fleiri heilsársstöður landvarða á nokkrum stöðum á landinu og auka landvörslu á háannatímum. Landverðir sinna nauðsynlegu eftirliti, fræða fólk og auka jákvæða upplifun ferðamanna af friðlýstum svæðum.

Sem ráðherra hef ég einnig lagt áherslu á að berjast gegn plastmengun, neyslu og sóun. Við þurfum að draga úr myndun úrgangs og við þurfum að nýta þann úrgang sem til fellur miklu betur en við gerum nú. Við þurfum nýja nálgun og þurfum að hugsa um kerfið sem hring, ekki línulegt – við þurfum með öðrum orðum svokallað hringrásarhagkerfi. Framundan er mjög spennandi vinna hvað þetta varðar í samfélaginu.

Ég vil síðan nefna að sérstakur samráðsvettvangur sem ég skipaði skilaði mér tillögum undir lok seinasta árs um aðgerðir í plastmálefnum. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um bann við afhendingu burðarplastpoka í verslunum, fljótlega verður kallað eftir tilnefningum fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir og nú stendur meðal annars yfir átak Umhverfisstofnunar undir merkjunum „Er einnota óþarfi?“ Þar eru landsmenn hvattir til að taka höndum saman um að hætta notkun á einnota plastvörum þar sem það er mögulegt.

Góðir gestir.

Það er einstaklega ánægjulegt að sjá öll þau fjölmörgu verkefni sem komin eru í gang í umhverfismálunum og farin að skila árangri – einstakt að finna þann mikla áhuga sem nú er á málaflokknum og þann kraft sem einkennir baráttuna.

Mannkynið stendur svo sannarlega frammi fyrir miklum áskorunum í umhverfismálum. Það er verkefni okkar allra – stjórnvalda, fyrirtækja, félagasamtaka, fullorðinna, ungmenna og barna að takast í sameiningu á við þær áskoranir af ákveðni og festu. Það er ekki svo lítið í húfi – við eigum bara þessa einu Jörð. Saman getum við og ætlum að tryggja að við getum haldið áfram að fagna fuglunum, gróðrinum, blómstrandi mannlífi, umhverfinu og náttúrunni – alla daga um alla framtíð. Gleðilegt sumar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search