PO
EN

Molar hagfelldir VG?

Deildu 

Við Íslendingar eigum mikið undir traustum sjávarútvegi og ábyrgri auðlindanýtingu, enda er útvegurinn sá grunnatvinnuvegur sem mestu hefur skipt þjóðarbúið í gegnum tíðina. Okkur hefur tekist að koma á ágætu jafnvægi á milli nýtingar og verndar fiskistofna. Í sögulegu samhengi er þetta mikilvægt, því að ósjálfbærar veiðar voru stórt vandamál hér á árum áður. Með tilkomu kvótakerfisins náðum við tökum á ofnýtingu fiskistofna hér við land, en óhætt er að segja að við höfum að einhverju leyti tapað trausti almennings með tilkomu framsalsins. 

Endurheimt trausts og gagnsæi í sjávarútvegi 

Stefna okkar í VG hefur verið að ná aftur því trausti sem tapaðist, á sama tíma og við viljum standa vörð um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins. Það höfum við gert, en til framtíðar verðum við að gera enn betur í þeim efnum. Það er gríðarlega mikilvægt að tryggja gagnsæi í sjávarútvegi til að efla traust á greininni. Á komandi þingvetri mun ég leggja fram nokkur frumvörp sem byggja á vinnu „Auðlindarinnar okkar“.

Ég mun leggja sérstaka áherslu á aukið gagnsæi, enda hefur óhófleg samþjöppun í sjávarútvegi og ógegnsætt eignarhald haft slæm áhrif á traust til greinarinnar. Ég tel það afar brýnt, bæði fyrir útgerðina sjálfa og allan almenning. 

Í mínum huga er það nauðsynlegt að þessi grunnstoð íslensks atvinnulífs starfi í sátt við samfélagið, að greinin hafi traust samfélagsins til að stunda sjálfbærar veiðar, það sem kallað er „social licence“ á frummálinu. Aukið gagnsæi er leiðin til þess að sjávarútvegur á Íslandi öðlist aftur traust almennings. Ég vona að greinin sláist í för með mér, því til mikils er að vinna. Að því sögðu verður árangur okkar í sjávarútvegi ekki aðskilinn frá því kerfi sem veitir greininni farborða, sjálfbærri nýtingu sameiginlegrar auðlindar, en jafnframt fjárfestingu greinarinnar sjálfrar í nýsköpun og fullvinnslu afurða. Þar er framtíðin. 

Nýsköpun og sjálfbærni í sjávarútvegi 

Sjávarútvegur snýst ekki lengur bara um veiðar og vinnslu, heldur um fullnýtingu afurða og sköpun nýrra tækifæra með vísindalegri nálgun og tækniframförum. Hátæknifyrirtæki hafa þróað búnað sem er notaður um allan heim til að draga úr sóun við framleiðslu matvæla. Þetta sýnir þann metnað og þá framsýni sem einkennir íslenskan sjávarútveg. Þessar framfarir og hugvit hafa líka skapað frjóan jarðveg fyrir skapandi lausnir og nýsköpun í sjávarútvegi. 

Við stöndum á tímamótum. Þennan kraft og hugvit þurfum við að beisla og nýta til að efla umhverfisvænar veiðar, nýta auðlindir af skynsemi og vernda lífríki hafsins. Í vetur mun ég leggja ríka áherslu á langtímastefnumótun fyrir sjálfbæran sjávarútveg sem tekur mið af umhverfisvernd og hagkvæmri nýtingu auðlinda. Tillaga til þingsályktunar um verndun hafsins og frumvarp um verndarsvæði í hafi bera uppi þá framtíðarsýn. Markmiðið er skýrt: að vernda 30% hafsvæða innan efnahagslögsögu Íslands fyrir árið 2030, í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. 

Vísindalegar ráðleggingar og rannsóknir hafa lagt grunninn að árangri okkar í sjávarútvegi og gert okkur kleift að verða sú fiskveiðiþjóð sem við erum í dag. Nú, eins og þá, er það vísindaleg nálgun sem mun leiða okkur til betri framtíðar. Nú benda vísindin aftur á nauðsyn þess að tryggja viðeigandi vernd fyrir hafsvæðin við Ísland. Við höfum áður brugðist við vísindalegum niðurstöðum með framsæknum aðgerðum; árið 1984 gripum við til ráðstafana sem tryggðu framtíð fiskistofna okkar. Við stöndum nú á svipuðum tímamótum og það er mikilvægt að við bregðumst við með sama myndarbrag. 

Sanngirni og veiðigjöld 

Mikilvægt er að tryggja sanngirni í nýtingu auðlinda okkar. Í vetur mun ég leggja fram frumvarp um hækkun veiðigjalda. Endurskoðun þeirra er lykilskref í að tryggja sanngjarna hlutdeild samfélagsins í auðlindarentu sjávarútvegsins. Með hækkun veiðigjalda á tilgreindar uppsjávartegundir, stefnum við í átt að aukinni sanngirni og ábyrgð. Veiðigjöld eru jákvæð fyrir þjóðarbúið — þau stuðla að sanngirni, sjálfbærni og ábyrgri auðlindanýtingu. Þau tryggja að arðurinn af sameiginlegri auðlind renni til þjóðarinnar, styrkja opinbera þjónustu og hvetja til betri og sjálfbærari nýtingar. Þetta mál eins og önnur sem ég hyggst leggja fram í vetur byggir undir traust og ábyrgð í sjávarútvegi. Í mínum huga eru þetta miklu meira en molar hagfelldir VG, þetta eru framfaramál fyrir land, þjóð og sjávarútveg. 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu, fimmtudaginn 19. september 2024

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search