Ályktun um íþróttir ungmenna
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ítrekar mikilvægi þess að hlúa að íþróttaþátttöku ungmenna, fatlaðra jafnt sem ófatlaðra.
Hvetja þarf og styrkja íþróttafélög til að sinna þeim ungmennum sem vilja æfa án þess að stefna á afreksíþróttir og jafnframt styrkja þau sem stunda afreksíþróttir sérstaklega til að mynda eins og Finnar gera með samstarfi ólympíunefnda og afreksíþróttabrauta framhaldsskólanna.
Ályktun um vopnaburð lögreglu
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ályktar gegn auknum vopnaburði lögreglu.
Mikil og hávær umræða um vopnvæðingu íslensku lögreglunnar hefur skapast í samfélaginu síðustu misseri og ekki síst vegna kaupa ríkislögreglustjóra á fordæmalausum fjölda öflugra vopna í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins í Hörpu vorið 2023 og vegna einhliða ákvörðunar dómsmálaráðherra um að rafbyssuvæða íslenska lögregluflotann.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð mótmælir auknum vígbúnaði lögreglunnar. Sýnileg vopn eru ekki til þess fallin að auka traust í samfélaginu eða öryggi almennra borgara, nema síður sé. Langstærstur hluti þeirra sem brjóta af sér gera það vegna félagslegra, fjárhagslegra eða andlegra erfiðleika og ætti frekar að verja kröftum í að takast á við þau vandamál.
Mikilvægt er að tryggja starfsöryggi lögreglunnar og skal það gert með betri ráðstöfun fjármagns, aukinni nýliðun og með mannsæmandi starfsaðstæðum frekar en vopnum.
Ályktun um öryggismál í jarðgöngum
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 hvetur til aðgerða í öryggismálum í jarðgöngum á Íslandi. Koma þarf inn í samgönguáætlun áformum um breikkun einbreiðra ganga. Ráðast þarf í heildstæða úttekt á öryggismálum í jarðgöngum og forgangsraða aðgerðum í takt við niðurstöður hennar.
Ályktun um átak í jarðgangagerð á Íslandi
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október telur tímabært að fara í allsherjarátak í jarðgangnagerð á Íslandi. Um land allt standa samfélög frammi fyrir skertum lífsgæðum sem aðeins jarðgöng myndu leysa. Samkeppni milli byggðalaga og innan landsvæða um forgang í jarðgangnagerð og samgöngubótum rífur niður baráttuþrek og samstöðu íbúa landsins. Finna þarf fjölbreyttar leiðir til fjármögnunar því sú langa bið eftir jarðgöngum sem samfélög upplifa ógnar lífsgæðum og öryggi íbúa.
Ályktun um samgöngumál
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 4. til 6. október 2024 bendir á mikilvægi þess að stórauka fjárfestingar í samgöngum þannig að greiða megi inn á þá miklu innviðaskuld sem safnast hefur upp á þeim árum sem umferð hefur vaxið hraðar en spár gerðu ráð fyrir. Þá er mikilvægt að byggja upp og styrkja almenningssamgöngur, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu en einnig á landsbyggðinni, svo að þær séu raunhæfur valkostur innan og á milli landshluta. Því fagnar fundurinn nýrri heildarlöggjöf um almenningssamgöngur hér á landi sem finna má á þingmálaskrá innviðaráðherra.
Til lengri tíma er nauðsynlegt að grafin séu tvenn jarðgöng á hverjum tíma í þeim tilgangi að stytta vegalengdir og tengja saman atvinnusvæði og byggðakjarna.
Greiðar samgöngur hafa mikilvæga kynja- og réttlætisvinkla sem halda þarf til haga við forgangsröðun samgönguframkvæmda. Eins vill fundurinn að skólaakstur á malarvegum heyri sögunni til.
Ályktun um efnahagsmál
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahagsmála. Hávaxtastefna Seðlabankans og braskvæðing á húsnæðismarkaði vinna gegn því að hægt sé að takast á við eina af meginorsökum verðbólgunnar. Þröskuldurinn inn á húsnæðismarkað fyrir fyrstu kaupendur hefur hækkað hraðar en geta þeirra til að spara fyrir útborgun, samhliða því að fólk þarf að greiða húsnæði sitt óhóflegu verði, hvort sem er til eignar eða leigu. Skattfrjáls ráðstöfun söluhagnaðar ætti eingöngu að gilda um eign til eigin nota. Standa þarf vörð um félagslegar aðgerðir á borð við stofnframlög og lán húsnæðissjóðs til uppbyggingar félagslegs leiguhúsnæðis. Þá kallar fundurinn eftir því að sveitarfélög líti á lóðir sem framtíðarheimili fyrir fólk og að dregið sé úr óþarfa gjaldtöku af lóðum. Þá þarf sérstaklega að huga að húsnæðismarkaði í hinum dreifðu byggðum svo fólk geti átt valkost um að setjast þar að. Íslenskt samfélag hefur áður og þarf aftur að byggja sig út úr húsnæðisvanda sem fylgir ört vaxandi þjóð.
Fundurinn hafnar niðurskurðarstefnu í baráttu við verðbólgu. Slík stefna hefur aldrei virkað sem lausn á efnahagslegum vandamálum heldur er hún varðstaða um fjármagn og eigendur þess. Almenningur greiðir á meðan fyrir óstöðugleika sem hann stofnaði ekki til með einkavæðingu innviða, aukinni gjaldtöku og niðurskurði í almannaþjónustu og misheppnaðri sameiningu ríkisstofnana. Jafnframt lýsir fundurinn þungum áhyggjum af hávaxtastefnu Seðlabankans sem er önnur birtingarmynd niðurskurðarstefnunnar. Hávaxtastefnan hefur ekki skilað þeim árangri sem stefnt var að en hún hefur lagt ómældar byrðar á heimili og fyrirtæki. Fundurinn hafnar hugmyndafræði niðurskurðar og áréttar nauðsyn þess að uppræta kerfisbundna verðbólguhvata með samstilltu átaki ríkis, Seðlabanka og sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að taka til róttækrar skoðunar næstu skref í stjórn peningamála.
Nauðsynlegt er að bregðast við áhrifum hávaxtastefnu á almenning. Með sérstökum vaxtastuðningi samhliða endurskoðaðri útfærslu séreignasparnaðarleiðar, með aukinni uppbyggingu leiguhúsnæðis með auknum stofnframlögum, regluverki sem tryggir húsnæði fyrir fólk og leigubremsu.
Verkalýðshreyfingin undirgekkst hófsamar launahækkanir í kjarasamningum á þessu ári. Á sama tíma skammtar auðstéttin sér allar þær launa- og kjarahækkanir sem henni sýnist. Ekki er raunhæft að ætla að höfða til sómakenndar eða ábyrgðartilfinningar auðstéttarinnar og því verður að sporna gegn auknum eigna- og tekjuójöfnuði í gegnum skattkerfið. Tekjujöfnuður hefur aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar, sem er vel, en frekari aðgerðir eru aðkallandi. Mikilvægt skref er að tryggja að útsvar af fjármagnstekjum sé greitt til sveitarfélaga og stórauka þarf skattaeftirlit. Þá er nauðsynlegt að sanngjörn auðlindagjöld séu greidd fyrir notkun sameiginlegra auðlinda, s.s. í raforkuframleiðslu til jafns við fiskeldi og fiskveiðar. Áform um hækkun veiði- og framleiðslugjalda eru jákvætt skref í rétta átt.
Landsfundur Vinstri grænna áréttar að hugmyndafræði sjálfbærni þarf að vera innbyggð í alla stefnumótun í efnahagsmálum. Núverandi hagskipan er löngu gengin sér til húðar sé litið til heimsins alls og það er aðkallandi að draga úr ofuráherslu á verga landsframleiðslu og aðra efnahagslega mælikvarða. Fundurinn fagnar þeirri þekkingu sem byggð hefur verið upp í tíð núverandi ríkisstjórnar á velsældarhagkerfinu en þróun velsældarvísa er mikilvægt framlag Íslands til sjálfbærnimála á alþjóðavettvangi. Halda þarf áfram að innleiða velsæld fólks sem aðalmarkmið í efnahagsstjórn landsins. Landsfundurinn áréttar að endalaus hagvöxtur á kostnað náttúru og fólks er ekki valkostur.
Ályktun um auðlindaákvæði í stjórnarskrá
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 hvetur eindregið til þess að áður en gengið er til kosninga afgreiði Alþingi og festi í stjórnarskrá ákvæði um auðlindir í þjóðareign og vernd íslenskrar náttúru til lands, lofts og sjávar.
Ásókn í auðlindir er alþjóðlegt vandamál. Landsfundurinn telur að þingmenn í öllum flokkum geti sameinast um þá grundvallarkröfu að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru háðar einkaréttarákvæðum, séu þjóðareign og að nýting þeirra skuli grundvallast á sjálfbærri þróun. Enginn á að fá þessi gæði eða réttindi til nýtingar þeirra til eignar eða varanlegra afnota. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.
Atburðir liðinna missera og ára hafa sýnt að veik löggjöf sem ekki hvílir á traustum stjórnlögum er lítil vörn gegn ásókn erlendra auðhringa og auðmanna í vatn og vind, firði og fjöll, ár og voga til að auka sér hagnað og einkagróða, sem oft hverfur úr landi án skattlagningar.
Ljóst er að meirihluti þjóðarinnar er sammála því að festa auðlinda- og náttúruverndarákvæði í stjórnarskrá og viðbúið að slík ákvæði verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða næstu Alþingiskosningum. Þjóðin á það inni hjá Alþingi að það samþykki slíkar breytingar og leggi fyrir þjóðina.
Ályktun um íbúalýðræði og þátttökulýðræði
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 telur nauðsynlegt að styrkja íbúalýðræði og þátttökulýðræði á Íslandi. Lýðræðisleg þátttaka felst í fleiru en aðeins að mæta á kjörstað á fjögurra ára fresti. Hvetja þarf alla hópa samfélagsins til þátttöku í nærsamfélagi sínu svo sem í foreldrafélögum, hverfafélögum og félagsmiðstöðvum. Efla þarf ungt fólk til áhrifa í samfélaginu og hvetja allan almenning til gagnrýninnar hugsunar, upplýstrar umræðu og miðlunar upplýsinga á jafnræðisgrunni. Stjórnmálin þurfa að endurspegla samsetningu samfélagsins og lækka þarf þröskulda sem standa í þeim vegi svo sem skilyrði um búsetulengd og uppruna. Það er lykilatriði að auðvelda lýðræðislega og samfélagslega þátttöku innflytjenda enda nálgast sá hópur að vera fimmtungur þjóðarinnar. Mikilvægt er að stjórnvöld fylgist vel með og læri af þeim sveitarfélögum sem sett hafa á laggirnar fjölmenningarráð, ungmennaráð og enskumælandi ráð. Breyta þarf sveitastjórnarlögum og auðvelda íbúum að kalla fram íbúakosningu um einstök málefni. Vegna sameininga sveitarfélaga undanfarin ár hafa orðið til víðfeðm sveitarfélög með marga dreifða þéttbýliskjarna. Það þarf að tryggja rétt til íbúakosninga sem varðar hagsmuni ólíkra þéttbýliskjarna í slíkum sveitarfélögum. Hið sama á við um stór, hverfisskipt sveitarfélög.
Ályktun um fjármál stjórnmálasamtaka
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 lýsir yfir áhyggjum af undirróðri hægri aflanna í samfélaginu gegn fjárframlögum til stjórnmálasamtaka úr ríkissjóði. Lög um starfsemi stjórnmálasamtaka voru endurskoðuð árið 2018 og voru fjárframlögin leiðrétt eftir að hafa staðið í stað frá hruni. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvörp um að framlögin verði lækkuð á nýjan leik og flokkunum gert heimilt að sækja hærri styrki til einkaaðila. Það býður heim hættu á feluleik, spillingu og leyndarhyggju. Opinber og fyrirsjáanleg framlög til stjórnmálahreyfinga eru besta leiðin til að tryggja heiðarlegt stjórnmálastarf óháð fjárframlögum frá fjársterkum hagsmunaaðilum.
Ályktun um loftslagsaðgerðir og vistspor
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 hvetur til þess að aukinn metnaður verði settur í loftslagsaðgerðir, þær fjármagnaðar og innleiðing þeirra og eftirfylgni tryggð svo að uppfærð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum skili árangri í takt við metnað stjórnvalda um að ná samfélagslosun gróðurhúsalofttegunda niður um 55%. Skoða þarf öll mál út frá loftlagsmálum. Auka þarf vitund fólks um loftslagsáhrif neyslu með því að tryggja að upplýsingar um vistspor séu á öllum vörum þ.m.t. á matvöru, matseðlum og öðrum varningi. Ráðast þarf í átak til að draga stórlega úr matarsóun og tryggja innleiðingu og eftirfylgni aðgerðaráætlunar þar um.
Ályktun um lífbreytileikaráð
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 vill að stofnað verði lífbreytileikaráð með sérfræðingum þar sem hagur náttúrunnar og vistkerfisnálgun er alltaf í forgrunni. Ráðið á að vera óháð stjórnvöldum í störfum sínu og veita þeim aðhald og ráðgjöf.
Landsfundur hvetur til aukinnar vitundarvakningar um lífbreytileika og að Alþjóðadagur lífbreytileika 22. maí ár hvert verði nýttur til þess.
Ályktun um vindorku
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ályktar og ítrekar að auðlindir skulu vera í þjóðareign og þar með talin vindorkan. Ef vindorkuver verða að veruleika eiga opinberir aðilar að sjá um uppbygginguna.
Vindorkuver skulu falla undir rammaáætlun og áður en hafist er handa skal samþykkja skýrt regluverk um auðlindagjald, staðsetningu og annað sem að þeim snýr.
Ályktun um vernd og endurheimt vistkerfa
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 vill að stjórnvöld þrói og komi á fót hvatakerfi til verndar og endurheimtar vistkerfa, bæði þurr- og votlendisvistkerfa. Gera verður vernd og endurheimt að fýsilegum landnýtingarkosti og sambærilegan annarri landnýtingu, s.s. landbúnaði og skógrækt. Fjölga þarf sérfræðingum á þessu sviði til að tryggja árangur slíkra verkefna. Þá þarf einnig að umbylta styrkjakerfi landbúnaðar með tilliti til þessa og hvetja einnig til loftslagsvæns landbúnaðar.
Ályktun um kortlagningu og verndun víðerna
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 leggur áherslu á að óbyggð víðerni á hálendi landsins verði kortlögð og afmörkuð hið fyrsta til að leggja grunn að verndun og friðlýsingu þeirra.
Ályktun um kolefnisjöfnun og grænþvott
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ítrekar mikilvægi þess að settar verði reglur og mælikvarðar þegar ætlunin er að kolefnisjafna. Til að koma í veg fyrir grænþvott er mikilvægt að meta, áður en hafist er handa, árangur mótvægisaðgerða með vísindalegum hætti af viðurkenndum aðilum. Auk þess þarf að koma á eftirliti og viðurlögum við grænþvotti.
Ályktun um ásælni í auðlindir til lands og sjávar
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ítrekar nauðsyn þess að setja hömlur á uppkaup erlendra aðila á landi og bújörðum í þeim tilgangi að auka sér einkagróða. Á það við um laxveiðiár, vatnsauðlindina, efnisnámur og nú síðast lönd til skógræktar. Breyta þarf lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana þannig að nýræktun skóga á meira en 50 hekturum lands fari í umhverfismat og skógrækt undir þeim mörkum verði tilkynningaskyld til Skipulagsstofnunar. Þó mikilvægt sé að auka bindingu með skógrækt þá þarf það að vera í sem mestri sátt við náttúruna og gróskumikil vistkerfi (þ.m.t. ríkt mólendi) t.d. með því að notast við innlendar tegundir. Forðast ætti yfirborðsrask svo sem tætingu, herfingu, plægingu eða aðra umbyltingu lands sem losar mikið magn kolefnis. Viðkvæmar og sjaldgæfar vistgerðir á Íslandi hýsa fjölda tegunda og eru uppspretta lífbreytileika, bæði gróðurs og dýralífs, og þær ber að vernda.
Ályktun um þjóðgarða
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ítrekar mikilvægi þess að þjóðgarður verði stofnaður á miðhálendi Íslands og á sunnanverðum Vestfjörðum. Einnig vill fundurinn að Reykjanesfólkvangi verði breytt í þjóðgarð og hann stækkaður um leið. Vinna þarf áætlun um þjóðgarða í hafi. Mikilvægt er að Ísland uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar um friðun 30% hafs og lands fyrir 2030 og yrðu þetta mikilvæg skref í þeirri vegferð.
Ályktun um stuðning við rannsóknir á sviði náttúruvísinda og háskólanám
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ítrekar stuðning sinn við sérfræðisamfélagið og þær stofnanir sem sinna náttúruvísindum. Vöntun er á sérfræðingum á sviði náttúruvár og á sviði verndar og endurheimtar vistkerfa. Styðja þarf sérstaklega við rannsóknir sem snúa að mótvægisaðgerðum og áhrifum sem loftslagsbreytingar hafa á lífríki lands og sjávar. Beita þarf vistkerfisnálgun og verðmeta vistkerfisþjónustu þannig að í umgengni við land njóti náttúran alltaf vafans.
Ályktun um bann við hvalveiðum
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 vill að hvalveiðar verði bannaðar varanlega í samræmi við ákall almennings.
Ályktun um úrgangsmál
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 hvetur til þess að settar verði kröfur á framleiðendur umbúða og vöru um að nota einungis aðskiljanleg hráefni sem hægt er að flokka og endurvinna. Ekki skuli nota samsett hráefni nema brýna nauðsyn beri til og engir aðrir valkostir eru fyrir hendi. Þetta ætti að gera í samvinnu við stjórnvöld á Norðurlöndunum til að auka slagkraft kröfunnar og þrýstinginn á framleiðendur. Þá þarf einnig að styðja við og auka innlenda endurvinnslu, t.d. á textíl, plasti og gleri.
Ályktun um stöðu kvenna í Afganistan
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 4. til 6. október 2024 fordæmir þá afstöðu talibana í Afganistan að meina konum aðgangi að samfélaginu, að þagga niðri í þeim, neita þeim um sjálfræði, sjálfstæði, menntun og rétt til sjálfstæðs lífs. Þá ítrekar fundurinn nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið fordæmi aðför talibana að réttindum kvenna og vinni að því af öllu afli að rétta hlut þeirra og annarra kvenna sem ekki fá notið grundvallarmannréttinda víðar um heim. Mikilvægt er að halda á lofti gildum kvenfrelsis og félagslegs réttlætis í öllu alþjóðasamstarfi og snúa við þeirri þróun að réttindi kvenna séu fótum troðin í krafti hernaðar og trúarofstækis.
Ályktun um stríðsátök víða um heim
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 4. til 6. október 2024 lýsir miklum áhyggjum vegna uggvænlegrar þróunar alþjóðamála. Sú staðreynd að mannskæð átök geisa víða um heim undirstrikar mikilvægi alþjóðlegrar friðarhyggju sem er ein af grunnstoðum hreyfingarinnar. Fundurinn leggur áherslu á að komið verði í veg fyrir aukinn vígbúnað og hernaðarumsvif og dregið úr hvoru tveggja jafnt hérlendis sem á alþjóðavísu. Á heimsvísu er enn þörf á friðarhreyfingum. Stríðum lýkur ekki með orrustum heldur friðarsamningum og eiga Íslendingar að beita sér að öllu afli fyrir friðsamlegum lausnum, mannréttindum og lýðræði. Öll stríð eru árásir á óbreytta borgara og á þeirra daglega líf, framtíð og öryggi. Fundurinn fordæmir þjóðarmorð Ísraels á Gaza, stríðsglæpi og þjóðernishreinsanir í Palestínu, ólögmætt árásarstríð rússneskra yfirvalda í Úkraínu og ítrekar stuðning sinn við kröfur Úkraínumanna um réttlátan frið. Staða mála í Evrópu, fyrir botni Miðjarðarhafs og víða um heim, er ógnvekjandi og má ekki leiða til enn frekari vígvæðingar og hörmunga.
Ályktun um stöðu sjálfstjórnarsvæða í norrænu samstarfi
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 hvetur ríkisstjórnir Norðurlandanna (Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands) að koma til móts við óskir sjálfstjórnarsvæðanna Grænlands og Færeyja um að verða fullgildir aðilar að Helsingforssamningnum og þar með norrænu samstarfi sem og ósk Álandseyja um slíkt hið sama þegar þær telja það tímabært.
Lífeyrissjóðakerfi fyrir öll
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4.-6. október 2024 leggur áherslu á að hafist verði handa við að vinna að endurskoðun á lífeyrissjóðakerfi landsins þannig að það sé tryggt að lífeyrissjóðakerfið nái til örorkulífeyrisþega og annarra sem ekki eru á vinnumarkaði. Um leið og landsfundurinn fagnar þeim breytingum sem samþykktar voru á örorkulífeyriskerfinu þá ítrekar hann mikilvægi þess að ný lög um örorkulífeyriskerfið raungerist og staðinn verði vörður um það fjármagn sem samþykkt hefur verið til að það geti orðið að veruleika.
Menntun á öllum skólastigum verði endurgjaldslaus
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4.-6. október 2024 ítrekar að menntakerfið er mikilvægasta jöfnunartækið í fjölbreyttu samfélagi og menntastofnanir á aldrei að reka í hagnaðarskyni. Skólaganga á að vera nemendum og fjölskyldum að kostnaðarlausu á öllum skólastigum sem og öll námsgögn og skólamáltíðir á skólatíma. Jafnframt er brýnt að jafna stöðu allra barna og ungmenna til iðkunar íþrótta og tómstunda bæði hvað varðar aðbúnað og fjármögnun.
Réttlátara námslánakerfi
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4.-6. október 2024 telur að skoða þurfi þarf frekari breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Vinstri græn vilja hækka hlutfall námsstyrks af lánum enn frekar en gert hefur verið, skoða kosti þess að gera námslán vaxtalaus og að þau falli niður við starfslok að uppfylltum eðlilegum skilyrðum um að námi ljúki fyrir tiltekinn aldur.
Fólk á ekki að þurfa að greiða af námslánum sínum í ellinni eða ef fólk fer á örorkulífeyri og getur ekki aflað sér tekna með launaðri vinnu. Er hér um stórt kjaramál að ræða fyrir stóran hóp fólks.
Hækkum lágmarksgreiðslur Fæðingarorlofssjóðs
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4.-6. október 2024 vekur athygli á mikilvægi þess að hækka lágmarksgreiðslur Fæðingarorlofssjóðs, gera fæðingarstyrk að raunhæfum möguleika fyrir fólk sem ekki á rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, tryggja fólki lífeyristekjur á meðan á fæðingarorlofi stendur og að unnið verði að því að brúa umönnunarbilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hér þarf kröftuga aðkomu ríkisvaldsins, sveitarfélaga og atvinnulífsins.
Það á að vera gott að eldast
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4.-6. október 2024 telur mikilvægt að grípa til sérstakra aðgerða til að koma til móts við það eldra fólk sem verst er sett t.d. með sérstökum stuðningi til þeirra sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað, hækka almennt frítekjumark í sömu skrefum og útgjöld dragast saman vegna hækkunar lífeyristekna fólks og jafnframt rýna með hvaða hætti er hægt að koma til móts við þau sem hafa lægsta grunnlífeyri.
Tryggjum jafnræði ungmenna
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4.-6. október 2024 telur mikilvægt að reglugerð vegna heimilisuppbótar fyrir öryrkja og börn einstæðra foreldra á örorkubótum verði breytt þannig að tekið verði út ákvæði um að nám eða starfsnám ungmennis sé forsenda þess að heimilisuppbót sé greidd til foreldris. Þannig verði komið til móts við þau ungmenni á aldrinum 18 – 26 ára sem búa í heimahúsum foreldra sinna.
Vinnum gegn fátækt með barnamiðaðri nálgun
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4.-6. október 2024 leggur áherslu á að horft sé á fátækt út frá sjónarhorni barna og þarfir þeirra sem einstaklinga.
Vinstri græn leggja til að unnin verði aðgerðaráætlun sem miðar að inngildingu allra barna í íslensku samfélagi. Réttur barna til þjónustu á að vera skilgreindur óháð stöðu foreldra. Lágtekjumörk verði skilgreind og settur verði á fót sjóður sem styrki sveitarfélög og frjáls félagasamtök til að geta boðið öllum börnum nauðsynlega grunnþjónustu, samtalsþjónustu og tómstundir óháð efnahag foreldra.
Umönnunardagar vegna nákominna
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4.-6. október 2024 leggur til að Vinstri græn vinni að því að umönnunardagar vegna nákominna verði að veruleika á íslenskum vinnumarkaði. Fyrirmyndina er að finna í 1158 tilskipun Evrópusambandsins um umönnunardagar vegna nákominna frá árinu 2019 þar sem að hver launamaður getur tekið fimm vinnudaga á ári til að sinna umönnun nákomins ættingja eða sambýlings.
Ályktun um fyrirkomulag leikskólamála í Kópavogi og víðar
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 mælir gegn því fyrirkomulagi leikskólamála sem tekið hefur verið upp í Kópavogi og víðar. Með fyrirkomulaginu er vegið að jafnræði barna til leikskólaþátttöku og einnig jafnrétti kynjanna. Heppilegra hefði verið ef Kópavogur hefði bætt aðstæður í leikskólum og hækkað laun starfsfólks í stað þess að fara í þessa vegferð sem bitnar helst á þeim sem síst skyldi; þeim sem ekki geta minnkað við sig vinnu, innflytjendum, einstæðum foreldrum, konum og ekki síst börnunum sjálfum. Aðgerðin er mikil afturför og færir okkur aftur á 10. áratug síðustu aldar. Sveitarfélögum ber að leita annarra leiða til að leysa vanda leikskólans. Fundurinn minnir á að ef stytta á leikskóladvöl barna þarf atvinnulífið eins að vera tilbúið til að stytta vinnutíma foreldra.
Ályktun um málefni Seyðisfjarðar
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 skorar á matvæla- og innviðaráðherra að standa með Seyðfirðingum í þeirra þrengingum. Fjarðarheiðargöng eru næst á áætlun og eiga að vera það áfram. Laxeldi má ekki troða í fjörðinn gegn vilja íbúa með ólöglegu strandsvæðaskipulagi og friða ætti fjörðinn gegn sjókvíaeldi.
Ályktun um Palestínu
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun mála fyrir botni Miðjarðarhafs. Í 76 ár hefur Ísrael stundað landrán á palestínsku landi og yfirgengileg mannréttindabrot á íbúum Palestínu. Í heilt ár hefur Ísrael herjað á almenna borgara keyrt áfram hernað gagnvart almennum borgurum á Gaza, einkum konur og börn, sem Alþjóðadómstólinn í Haag (IJC) hefur í úrskurði sínum kallað „líklegt“ (e. plausible) þjóðarmorð. Stríðsglæpir eru framdir í beinni útsendingu og allt með stuðningi Vesturlanda sem útvega Ísrael bæði vopn og pólitískan stuðning.
Sú skelfilega atburðarás sem heimurinn hefur horft upp á undangengið ár, ofan á mannréttindabrot og virka aðskilnaðarstefnu um áratuga skeið, krefst meiriháttar viðbragða af alþjóðasamfélaginu. Samhliða þarf að stöðva hið ólöglega landrán og hernað gegn almenningi á Vesturbakkanum sem viðgengst daglega fyrir atbeina ísraelskra stjórnvalda. Og nú hefur Ísrael gengið enn lengra með innrásinni í Líbanon með tilheyrandi eyðileggingu, manndrápum og fólksflótta auk þeirrar, ófriðarógnar sem hún skapar í þessum heimshluta. Landsfundurinn fordæmir tvískinnungshátt vestrænna ríkja, Íslands þar á meðal, þar sem fordæming brota á alþjóðalögum er háð því hvaða ríki eiga í hlut. Fundurinn telur ummæli utanríkisráðherra Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í lok september ámælisverð en þar kom fram að Ísrael væri undanþegið alþjóðalögum þegar kæmi að því að varpa sprengjum á spítala á Gaza vegna þess að spítalarnir hefðu verið notaðir í ógreindum „tilgangi“. Landsfundur telur að utanríkisráðherra beri skylda til að skýra á hvaða gögnum þessi ummæli byggja en þau eru til þess fallin að grafa undan alþjóðalögum og mannréttindum.
Íslenskum stjórnvöldum ber skylda samkvæmt alþjóðalögum að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Stjórnvöld eiga að kalla eftir tafarlausu vopnahléi og að ísraelsk stjórnvöld fari eftir úrskurðum alþjóðadómstóla. Stjórnvöld eiga jafnframt að styðja við málsókn Suður-Afríku hjá Alþjóðadómstóli Sameinuðu þjóðanna gegn Ísrael fyrir þjóðarmorð á Gaza, beita sér fyrir alþjóðlegu vopnasölubanni til að stöðva blóðbaðið á Gaza, koma á viðskiptabanni gegn Ísrael í samstarfi við aðrar þjóðir og mótmæla hinum skilyrðislausa fjárhagslega, pólitíska og hernaðarlega stuðningi bandarískra stjórnvalda við hernaðinn á Gaza. Jafnframt telur landsfundurinn koma til álita að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael.
Ísland á allt sitt undir því að alþjóðalög séu virt í hvívetna. Íslensk stjórnvöld verða að beita sér fyrir því með virkum hætti að draga ísraelsk stjórnvöld til ábyrgðar og leggja þeim þjóðum lið sem kalla eftir því að Ísraelar fari eftir alþjóðlegum úrskurðum. Ísland ætti sérstaklega að veita fulltrúum palestínskra yfirvalda hjá alþjóðastofnunum þá aðstoð sem þau þurfa, hafandi viðurkennt sjálfstæði Palestínu. Loks áréttar landsfundur mikilvægi þess að Ísland standi undir alþjóðlegum skuldbindingum sínum gagnvart flóttafólki frá Palestínu.
Ályktun um almennt húsnæðiskerfi
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 telur nauðsynlegt að stofnað verði nýtt félagslegt eignaíbúðakerfi í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingar til að fjölga valkostum á húsnæðismarkaði og tryggja aðgengi allra að öruggu, aðgengilegu og heilsusamlegu húsnæði á viðráðanlegu verði um allt land. Tryggja þarf aðgengi að lánsfé og fjölga stofnstyrkjum innan almenna íbúðakerfisins og þróa hlutdeildarlán sem ætluð eru fyrstu kaupendum til að gera þeim kleift að komast inn á húsnæðismarkaðinn.
Ályktun um þjónustu sérgreinalækna í öllum heilbrigðisumdæmum
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 beinir því til ríkisstjórnarinnar og heilbrigðisráðherra að vinna án tafar að því að skilgreina þá þjónustu sérgreinalækna sem veita skuli sem nærþjónustu í öllum heilbrigðisumdæmum. Notkun fólks á þessari þjónustu er mjög háð búsetu og skýrist tæpast af öðru en búsetutengdum mun í aðgengi að þjónustunni. Slíkan mun telur fundurinn vera til marks um mismunun, sem ekki samræmist markmiðum laga um heilbrigðisþjónustu, sé ekki í takt við Heilbrigðisstefnu til 2030 og sé í beinni andstöðu við 1. gr. laga um réttindi sjúklinga. Fundurinn telur að reglulega ætti að veita þjónustu a.m.k. fimm sérgreina í hverju heilbrigðisumdæmi: kvensjúkdómalækningar, barnalækningar, öldrunarlækningar, augnlækningar og geðlækningar.
Ályktun um ríkisstjórnarsamstarfið
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ályktar að ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sé að nálgast leiðarlok og að æskilegt sé að boða til kosninga með vorinu.
Ríkisstjórnin var upphaflega mynduð árið 2017 í kjölfar óvæntra kosninga og í skugga pólitísks óróa. Þannig komst á festa í stjórnmálum undir forystu Vinstri grænna og hefur hreyfingin náð fram afar mikilvægum málum. Má þar nefna nýja þungunarrofslöggjöf, endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, efling heilsugæslu, bætta réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis, lög um kynrænt sjálfræði, gjaldfrjálsar skólamáltíðir, hömlur á jarðasöfnun, lengingu fæðingarorlofs, friðlýsingar á náttúruperlum og þrepaskipt skattkerfi. Undir forystu Vinstri grænna var einnig brugðist við COVID-faraldrinum af ábyrgð, sem reyndist mikið gæfuspor fyrir þjóðina.
Brýn verkefni eru fram undan. Ástand efnahagsmála og þrálát verðbóga kallar á víðtækar aðgerðir. Stýrivextir hafa nánast staðið í stað í rúmt ár og lagt ómældar byrðar á bæði almenning og fyrirtæki. Þetta veldur gríðarlegri hækkun húsnæðiskostnaðar hjá leigjendum, húsnæðislántakendum og smærri fyrirtækjum. Samhliða tekur almenningur á sig hækkanir á nauðsynjavöru og gjaldskrám og jafnframt raforkuverðshækkun sem er umfram verðbólgu. Þetta ástand ógnar lífsviðurværi fjölda fjölskyldna og eykur á fátækt, ójöfnuð og fjárhagslegt óöryggi. Meðan venjulegt fólk glímir við efnahagserfiðleika sækja gróðaöflin í sig veðrið og ásælast náttúruauðlindir og almannagæði.
Hægri öflin í samfélaginu leita helst lausna sem þjóna hagsmunum fjármagnsaflanna, umfram almannahagsmuni. Þar má nefna einkavæðingu og niðurskurðarstefnu og aðrar aðgerðir sem fela í sér að færa almannagæði frá almenningi og gera þau að féþúfu fyrir einkaaðila. Samhliða ýta hægri öflin undir útlendingaandúð í samfélaginu og halda uppi áróðri gegn fólki sem flýr stríð. Allt gengur þetta gegn stefnu Vinstri grænna.
Til að hægt sé að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram telur landsfundurinn að takast verði á við þau knýjandi verkefni sem við blasa á félagslegum grunni. Jafnframt telur fundurinn að ganga verði til kosninga með vorinu.
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs áréttar stefnu hreyfingarinnar og býður upp á framtíðarsýn fyrir Ísland þar sem fólk er sett í fyrsta sæti og fjármagnsöflin látin mæta afgangi. Hvort sem Vinstri græn verða innan eða utan ríkisstjórnar eftir næstu kosningar mun hreyfingin hafna einkavæðingu og útlendingaandúð og vinna að mannréttindum, kvenfrelsi og félagslegu réttlæti. Hreyfingin telur nauðsynlegt að náttúran eigi öflugan málsvara í stjórnmálum og mun rísa undir þeirri ábyrgð. Þá munu Vinstri græn beita sér af alefli í friðarmálum og ekki við una fyrr en íbúar Palestínu geta um frjálst höfuð strokið.
Stjórnmálaályktun landsfundar
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 undirstrikar hversu brýnt er að raddir vinstristefnu, félagslegs réttlætis, kvenfrelsis og umhverfis- og náttúruverndar heyrist hátt og skýrt og sem víðast. Félagar hreyfingarinnar, ekki síst kjörnir fulltrúar, þurfa að vera málsvarar þessa hvert sem þeir koma. Félagslegar áherslur í stjórnun samfélagsins eru sérlega mikilvægar nú á tímum þrálátrar verðbólgu og hárra vaxta og bakslags í mannréttindamálum.
Réttlæti, mannúð, frelsi, friður, jöfnuður og umhverfisvernd eru þau gildi sem vinstra fólk verður að hrópa af húsþökum. Vinstrið er eina aflið sem getur haldið aftur af rasisma, kvenhatri, fordómum gegn hinum ýmsu hópum og sívaxandi gliðnun og skautun í samfélaginu. Bil á milli ólíkra þjóðfélagshópa er of stórt og við þurfum að leggjast á eitt til að minnka það. Til þess þarf félagshyggjufólk í landinu sterkt umboð til að stjórna landinu eftir næstu Alþingiskosningar.
Árangur Vinstri grænna
Miklar félagslegar umbætur hafa átt sér stað með Vinstri græn í ríkisstjórn. Nærtækt dæmi eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þar er einkum komið til móts við þá hópa sem verðbólgan hefur undanfarið leikið hvað verst: lágtekjufólk og barnafjölskyldur. Í aðgerðunum felast miklar kjarabætur í formi hækkaðra húsnæðisbóta og barnabóta, vaxtabóta og frekari uppbyggingar félagslegs húsnæðis. Allar þessar aðgerðir eru félagslegs eðlis og stuðla að meiri jöfnuði og réttlátara samfélagi. Þá má sérstaklega nefna gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólum sem munu gagnast öllum fjölskyldum, ekki síst þeim efnaminni og stuðla að því að draga úr fátækt barna. Þetta hefur verið baráttumál Vinstri grænna um árabil. Landsfundur fagnar þessum árangri og telur rétt að í framhaldinu muni máltíðir í leik- og framhaldsskólum einnig verða gerðar gjaldfrjálsar sem og námsgögn fram að 18 ára aldri. Landsfundur fagnar einnig þeim breytingum sem gerðar hafa verið á örorkulífeyriskerfinu, en það er stærsta skref sem stigið hefur verið í áratugi til að bæta afkomu og auka réttindi örorkulífeyrisþega. Þá hækkar almennt frítekjumark ellilífeyrisþega um 46% nú um áramótin og mun héðan af hækka í takt við hækkun bóta almannatrygginga. Eins má nefna nýja Mannréttindastofnun sem er árangur af vinnu og stefnumörkun Vinstri grænna í ríkisstjórn og á Alþingi. Tryggja þarf stofnuninni fjármagn til að hún geti staðið undir nafni og væntingum sem eðlilega eru gerðar til Íslands.
Þó margt hafi áunnist er áfram verk að vinna á fjölmörgum sviðum samfélagsins. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun áfram leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið.
Innflytjendur
Það er sérstaklega aðkallandi að Ísland hugi betur að líðan, aðstæðum og tækifærum innflytjenda, sem nálgast það að verða fimmtungur landsmanna. Stjórnvöld verða að sporna gegn aukinni stéttskiptingu þar sem hallar á innflytjendur. Viðeigandi stuðning þarf að veita á öllum sviðum, hvort sem það er á vinnustöðum eða í skólakerfinu, svo innflytjendum sé gefinn raunverulegur kostur á að taka þátt í samfélaginu. Stórefla þarf stuðning við íslenskunám fullorðinna og tryggja aukinn stuðning við börn innflytjenda í skólakerfinu. Ísland þarf að vera inngildandi samfélag þar sem ríkir umburðarlyndi og öll sitja við sama borð. Landsfundur lýsir yfir þungum áhyggjum af vaxandi útlendingaandúð í samfélaginu og telur að meira þurfi að gera til að sporna gegn þeirri þróun.
Húsnæðismarkaður
Húsnæðismál eru lykilþáttur í kjarabaráttu almennings. Staðan á húsnæðismarkaði er þung fyrir stóran hluta fólks og leiðir til vaxandi ójöfnuðar. Leiguverð og vaxtakostnaður hefur hækkað og það hefur áhrif á lífskjör almennings. Styrkja þarf enn frekar almenna íbúðakerfið og gera frekari umbætur á leigumarkaði. Fundurinn fagnar nýjum húsaleigulögum sem bæta réttarstöðu leigjenda en kallar einnig eftir leigubremsu sem verndar leigjendur fyrir óhóflegum og ófyrirséðum hækkunum. Sporna þarf við braskvæðingu á húsnæðismarkaði og því að húsnæði sé nýtt sem fjárfestingarkostur, svo sem með skattlagningu á hagnaði af sölu íbúða sem ekki eru notaðar til eigin búsetu eiganda. Stjórnvöld eiga að skoða af fullri alvöru að setja á laggirnar nýtt félagslegt eignaíbúðakerfi til að fjölga valkostum á húsnæðismarkaði. Öruggt húsnæði eru mannréttindi.
Málefni Grindavíkur
Samfélagið í Grindavík hefur á liðnu ári gengið í gegnum fordæmalausar hremmingar í kjölfar ítrekaðra jarðhræringa. Grindvíkingar, sem hafa þurft að rífa sig upp og mæta óvissri framtíð, hvort sem litið er til húsaskjóls, atvinnu, skólagöngu, andlegrar og félagslegrar heilsu, fjárhagsstöðu o.s.frv., hafa sýnt lofsverða þrautseigju í glímunni við náttúruöflin. Mikilvægt er að halda áfram að styðja við og hlúa að Grindvíkingum og stuðla að blómlegu samfélagi þeirra til framtíðar.
Fjölskyldu- og menntamál
Grípa þarf til frekari aðgerða í málefnum barnafjölskyldna og forgangsraða fjármunum í þágu bættrar velferðar barna með jafnrétti að leiðarljósi. Ýmis skref hafa verið stigin á þessu kjörtímabili en ljóst er að fjölskyldumál verða eitt af stóru viðfangsefnum næsta kjörtímabils. Hækka þarf lágmark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og brúa umönnunarbil á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hér þarf kröftuga samvinnu ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Málefni barna eru eitt brýnasta verkefni samfélagsins og mikilvægt að tryggja góðan aðbúnað þeirra og viðeigandi stuðning við fjölskyldur.
Landsfundurinn ítrekar mikilvægi menntakerfisins sem grundvallarjöfnunartækis í fjölbreyttu samfélagi. Á næstu árum þarf að stíga rótæk skref til að gera menntun allra skólastiga endurgjaldslausa og tryggja endurnýjun í kennarastéttinni. Jafnframt leggur fundurinn áherslu á að breytingar á skólakerfinu séu ávallt gerðar með hliðsjón af nýjustu rannsóknum. Brýnt er að stórauka námsefnisgerð, innleiða matskvarða og tryggja stuðning við öll börn í skólum landsins. Þá þarf að tryggja betur fjármögnun háskólanna svo þeir séu á pari við háskóla annars staðar á Norðurlöndum.
Fundurinn leggur áherslu á að fylgja heilbrigðisstefnu til ársins 2030 markvisst eftir, horfa heildstætt á alla velferðarþjónustu og tryggja samþættingu ólíkra kerfa, þ.m.t. á milli heilbrigðis- og félagsþjónustu. Efla þarf heilsugæslu um allt land í að sinna grunnþjónustu við íbúa með þverfaglegu teymi heilbrigðisstétta. Marka þarf skýra stefnu hvaða þjónusta sérgreinalækna eigi að teljast til nærþjónustu og skuli veita reglulega í öllum heilbrigðisumdæmum.
Samfélag okkar er slegið yfir hrinu ofbeldismála að undanförnu og hugur okkar allra er með þeim sem eiga um sárt að binda af þeim sökum. Landsfundurinn geldur varhug við auknu ofbeldi í samfélaginu sem teygir sig niður til barna og ungmenna. Skoða þarf í kjölinn hvað veldur þessari þróun og gera allt til að sporna við henni. Ísland á að vera manneskjuvænt og friðsælt samfélag. Fyrir því er frumforsendan velferð og jöfnuður.
Sótt er að réttindum kvenna og hinsegin fólks um allan heim og lýsir fundurinn yfir þungum áhyggjum af risi öfgahægriafla. Í því andrúmslofti er mikilvægt að VG taki forystu í því að standa vörð um og efla mannréttindi allra hópa sem eiga undir högg að sækja.
Blóðbað við Miðjarðarhaf
Blóðbaðinu í Palestínu verður að linna. Hernaður Ísraelsríkis veldur sífellt meiri þjáningum fyrir botni Miðjarðarhafs og hindra verður frekari útbreiðslu stríðsátaka á svæðinu og gefa Palestínumönnum færi á að byggja upp sjálfstætt ríki. Átjánda september síðastliðinn samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun þess efnis að Ísraelsmönnum beri að binda endi á hersetu sína í Palestínu innan árs og greiddi Ísland atkvæði með því. Þeirri kröfu verður að fylgja eftir af harðfylgi enda hefur Ísrael komist upp með að þverbrjóta alþjóðalög undir verndarvæng Bandaríkjanna. Fagnar fundurinn þingsályktunartillögu þingmanna Vinstri grænna og fleiri flokka um að Ísland beiti sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart Ísrael. Sjaldan hafa jafnmörg stríð geisað í heiminum og nú um stundir. Talið er að um hundrað milljón manns séu á flótta og líkurnar á beitingu kjarnorkuvopna hafa nær aldrei verið meiri. Við þessar aðstæður er sérlega brýnt að kröfum um afvopnun og friðsamlegar lausnir sé haldið skýrt á lofti.
Auðlindir, umhverfismál og náttúruvernd
Tryggja þarf auðlindaákvæði og umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá. Ásókn í auðlindir Íslands er mikil, ekki síst af hálfu einkaaðila sem stjórnast af gróðasjónarmiðum einum og skeyta lítið um almannahagsmuni eða náttúruvernd. Opinber fyrirtæki eins og Landsvirkjun eiga að njóta forgangs í nýjum framkvæmdum, ekki einkafyrirtæki sem nú hafa uppi stórkostleg áform um virkjanaframkvæmdir um allt land. Ljúka þarf stefnumótun um vindorku og tryggja að gjald renni í sameiginlega sjóði líkt og gildir um aðrar auðlindir. Öll viðbótarorka á að renna til innlendra orkuskipta. Við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar þannig að horft sé á náttúruna sem friðhelga og að nýting hennar sé undantekning frá þeirri meginreglu.
Ísland á að vera þjóðgarðaparadís, þar sem víðerni og villt náttúra er vernduð. Stofna ber Hálendisþjóðgarð og búa til net þjóðgarða bæði á landi og í hafi. Friðlýsing svæða er markvissasta leiðin til að tryggja vernd viðkvæmrar og verðmætrar náttúru, sem við Íslendingar berum ábyrgð á að verja.
Fundurinn leggur áherslu á að matvælaframleiðsla á Íslandi tryggi fæðu- og matvælaöryggi landsmanna og stuðli að bættri lýðheilsu þjóðarinnar. Sjálfbær nýting við fiskveiðar, landbúnað og fiskeldi eru lykilþættir í þessu sambandi. Stefnur og aðgerðaáætlanir sem komið hafa frá matvælaráðuneytinu á þessu kjörtímabili styðja við þessa vegferð.
Fundurinn telur mikilvægt að áfram verði unnið að aukinni sátt um sjávarútveginn. Þar er lykilatriði að auka gagnsæi að því er varðar stjórnunar- og eignatengsl greinarinnar, tryggja vistkerfisnálgun og verndarhagsmuni þegar horft er til auðlinda hafsins. Stórútgerðin hefur svigrúm til að greiða hærri veiðigjöld enda hefur hún greitt sér myndarlegan arð sem hlotist hefur af nýtingu sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar.
Mikilvægt er að koma á skýrri umgjörð um lagareldi, bæði í sjó og á landi, svo atvinnugreinin geti farið fram í meiri sátt við náttúru og samfélag. Tiltekin svæði þarf að friða algjörlega, gjaldtaka vera rífleg og tryggja þarf öflugra eftirlit og sektir sem um munar fyrir brot á lögum og reglugerðum.
Loftslagsváin er ein stærsta áskorun samtímans og komandi áratuga og neyðarástand hefur skapast víða. Baráttan gegn loftslagsvánni er ekki bara stærsta umhverfismálið, heldur líka eitt stærsta velferðarmál 21. aldarinnar. Þó fundurinn fagni því að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hafi verið uppfærð þarf róttækari aðgerðir, auknar kröfur til stjórnvalda, fyrirtækja og annarra sem menga, og markvissari eftirfylgni. Hér þarf að gera mun betur, enda er baráttan gegn loftslagsvánni ekki bara stærsta umhverfismálið heldur líka eitt stærsta velferðarmál 21. aldarinnar.
Samgöngur
Mikilvægt er að draga sem fyrst úr losun frá umferð og efla almenningssamgöngur um allt land. Fundurinn fagnar endurskoðun samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu og áréttar að með forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs var kyrrstaða í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu rofin. Skýr framtíðarsýn var mótuð þar sem samgöngur virka fyrir fólk en ekki farartæki eingöngu. Samningur ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um Borgarlínuna mun draga úr mengandi bílaumferð og hvetja til vistvænna samgangna gangandi og hjólandi fólks. Stuðningur við almenningssamgöngur og aðrar aðgerðir í loftslagsmálum eru fjárfesting í framtíðinni.
Fundurinn bendir einnig á skýra jafnréttis- og kynjavinkla í samgöngum, bæði hvað varðar aðgengi og ákvarðanatöku. Til þess að frekari árangur náist í velsældarmálum á Íslandi er nauðsynlegt að halda áfram að styrkja öflugar samgöngur með áherslu á almenningssamgöngur og almannaöryggi.
Íbúalýðræði og innviðir
Á síðustu árum hefur sýnt sig að mikil þörf er á að styrkja íbúalýðræði. Fundurinn telur að við þessu þurfi að bregðast, enda varða fjölmargar áætlanir og framkvæmdir í fjörðum, ám og á þurrlendi nærumhverfið, eins og fiskeldi, orkumannvirki og skógrækt. Því þarf að skoða betur hvernig tryggja megi rétt íbúa til að kalla eftir kosningu um tiltekin mál í nærsamfélagi sínu.
Fundurinn undirstrikar mikilvægi þess að halda samfélagslegu eignarhaldi á lykilinnviðum og varar við aukinni markaðshyggju og einkavæðingu. Vinstri græn standa gegn frekari markaðsvæðingu á sviði raforkuframleiðslu og -sölu, heilbrigðis- og velferðarþjónustu, menntakerfisins og sölu áfengis.
Fundurinn ítrekar skýrt erindi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í íslenskum stjórnmálum. Hreyfingin hefur komið mörgu til leiðar í stjórnartíð sinni í gegn um árin. Vinstri græn hafa sannarlega metnað, getu og vilja til að halda áfram að stjórna landinu, fáum við til þess umboð.